Vestræn gildi -múslimar og hollenskur þingmaður !

Þúsundir Múslima taka þátt í stjórnmálum á Vesturlöndum sem þingmenn, sveitarstjórnarmenn. Þúsundir og aftur þúsundir eru embættimenn í stjórnarráðum, hérðasstjórnum og sveitarstjórnum.  Þúsundir og aftur þúsundir múslima taka af heilum hug þátt í hinu lýðræðislegu þjóðfélögum á vesturlöndum. Langflestir múslima á vesturlöndum virða lýðræðið og lýðræðisleg gildi ekki síður en þeir sem teljast kristnir og miklu frekar en þær þúsundir sem telja sig nýnazista eða hallir undir viðlíka öfgasamtök.  Múslimar á vesturlöndum, sem við köllum svo af því að þeir eiga uppruna sinn í löndum þar sem Múhameðstrú er ríkjandieru margir ekkert síður veraldlegir í hugsun en hinir kristnu. Múslimar eru þetta 2-8% af íbúafjölda ríkja í vestanverðri og norðanverðri Evrópu t.d. um 4% Dana. Minna en einn Dani af hverjum tuttugu er sem sagt múslimi. Hlutfallið hefur ekki aukist undanfarin ár.  Samt eru menn að ala á múslimafóbíu talandi um að ,,þeir” séu að brjóta niður samfélög ,,okkar” eins og hollenski þingmaðurinn í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gær. Hræðsluáróðri hans er reyndar hafnað af langflestum sem til máls tala. Hann elur á hræðslu og ótta sem kemur fram í ofbeldisverkum gegn múslimum sem víðast hvar eru í verstu djobbunum, búa við lakastan húsakost og upplifa oft á tíðum ósæmilega framkomnu í sinn garð af hálfu kristinna manna sem eru þá aftur þeir sem eiga uppruna sinn í löndum þar sem kristni hefur verið ríkjandi.

Við gerum þá kröfu að allir fari eftir lögum samfélagsins og virði vestræn gildi.  Meðal vestrænna gilda er að allir þegnar samfélagsins sitji við sama borð. Samt er það viðurkennd staðreynd í Evrópu að lög eru brotin á múslimum þegar kemur að réttindum til atvinnu og framgangs í starfi og kaup eða leigu á húsnæði. Skiptir þá engu hvort menn eru nýfluttir eða hafa borist til vesturlanda ófæddir í genum forfeðra sinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Er hugsanlegt að ein ástæða þessara neikvæðu umræðu í garð múslima og þeirra gilda sé að í stað "vestrænna gilda" tala afar margir ætíð um "kristin gildi" og stilla því þannig upp sem andstæðu gildi múslima?

Matthías Ásgeirsson, 1.7.2008 kl. 09:29

2 identicon

Andstæðurnar múslimi - kristinn - gyðingur ná dýpra en til trúar og menningar. Þetta eru frændtrúarbrögð þar sem eitt á uppruna sinn í öðru og skilnaður þeirra á milli fór almennt ekki friðsamlega fram. Sérhver greining á aðstæðum nú verður að horfast í augu við þennan neikvætt hlaðna tilfinningaarf sem lifað hefur um aldir og fengið styrkingar með stríðum og illvirkjum á báða bóga. Neikvæða umræðan í dag á sér því dýpri rætur en Baldur og Matthías draga fram í dagsljósið.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 09:45

3 identicon

Sæll; Síra Baldur, og aðrir skrifarar !

Get ekki séð; neinni ''hræðslu'' bregða fyrir, í hugskoti Geerts Wilders, fremur en annarra þeirra, hverjir vilja stemma stigu, við Múhameðsku heimsvaldastefnunni, hér í Evrópu.

Finnst þér ekki nóg; að kljást við bandarísku heimsvaldastefnuna, og þau gildi, sem ríkjandi eru, þar; vestanhafs ?

Hygg; að þú mættir, ásamt fjölda annarra, skoða betur söguna, og minnast, m.a., niðurbrots kristinna samfélaga Norður- Afríku, þá trúarkenningin, frá Mekku, hóf útþenzlu sína, á 7. öld, líka sem fjörbrota Miklagarðsríkis, 29. Maí 1453.

Það er ekkert sjálfgefið; að við tökum sérlega fagnandi fólki, frá einhverjum auðugustu ríkjum heims, sem olíu- og gasframleiðslulönd Araba, sannarlega eru, og annað Baldur;; Vesturlönd þurfa ekkert að sjá aumur á fólki þaðan, hvert ekki hefir vit né rænu til, að steypa af valdastólum spillingarröftum þeim, sem þarna ríkja víðast. Það er ekki okkar, að hlaupa þar undir bagga, og gleymdu ekki brölti hinna Guðs voluðu Bandaríkjamanna, þar um slóðir, lagar ekkert til, á heimsvísu.

Og annað; miklu nær okkur, að efla tengsl okkar, við ríki Hindúa og Bhúddatrúarmanna, í framtíðinni, ólíku saman að jafna þar. 

Með beztu kveðjum, úr Efra- Ölvesi (Hveragerði)

Óskar Helgi Helgason      

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 11:53

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Annað, sem Baldur horfir fram hjá, er hin miklu meiri tímgun múslima í Evrópu heldur en bæði kristinna og trúlausra. Og þótt margir múslimar taki þátt í sveitarstjórnum og öðrum stjórnmálum, sem ég hef ekkert á móti í sjálfu sér, þá eru sennilega þúsund sinnum fleiri trúbræður þeirra sem telja hlut sinn illan á Vesturlöndum, sbr. óeirðirnar og skemmdarverkin í úthverfum Parísar fyrir nokkrum misserum; en í París eru fleiri moskur en kirkjur og múslimar alls í landinu losa 6 milljónir og búa mjög margir við ESB-atvinnuleysi. Baldur lítur ennfremur fram hjá grasserandi öfgastefnu meðal sumra múslima í Bretlandi, Hollandi, Frakklandi, Þýzkalandi, Danmörku og víðar. Öfgastefnan sú er engan veginn hættulaus, og hin atriðin, sem ég nefndi hér á undan, geta stuðlað að því, að þetta vandamál vaxi fremur en minnki og verði Evrópuþjóðunum skeinuhætt með tímanum. Með þessu er ég þó ekkert að segja um þessa kvikmynd, sem rædd var í Kastljósinu, enda hef ég ekki séð hana í heild.

Jón Valur Jensson, 1.7.2008 kl. 12:23

5 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Carlos Ferrer hefur rétt fyrir sér. Ekki veit ég hver er mestur öfgamaðurinn: Matthías með trúleysisofstæki sitt, Baldur með sínar fínu kratakenndir eða Wilder hinn hollenski villimaður. Baldur ætti að setjast að í Danmörku um nokkurra ára skeið, þá held ég nú að jafnaðarmaðurinn fengi fljótlega annað hljóð í skrokkinn en þessi frelsuðu og heilögu prump sem hann gefur hér frá sér annað kastið.

Hvaðan hefur þú Baldur upplýsingar þínar um að þúsundir og aftur þúsindir múslíma virði lýðræðið á Vesturlöndum? Af hverju styðja þúsundir og aftur þúsundir þeirra, ásamt kristnum einfeldingum, öfgastefnur og einræðisríki Miðausturlanda og af hverju taka flestir þeirra eigin forneskjuleg lög fram yfir lög þeirra landa sem þeir búa í.

Í skóla dóttur minnar gera menn allt til að hafa múslímana með. Þeim er boði í afmæli en þeir koma aldrei. Þeim er boðið heim til danskra barna og þau koma aldri.

Ef maður spyr í hreinskilni múslíma af hverju þessu er svo farið, eru það  fordómar og aftur fordómar sem ráða ferðinni.

Eitt sinn var dóttir mín með skólanum á borgarminjasafninu í Kaupmannahöfn. Þar var verið að sýna mismunandi siði manna í tengslum við jólahald eða svipaðar hátíðir á sama tíma árs. Börnin gátu fengið að bragða á réttum trúarbragðanna. Þegar borið var fram Sufganiot, bollur steiktar í olíu, sem gyðingar elda þegar þeir halda Hanukka, þá spýtti einn múslímadrengurinn bollunni út úr sér og sagði "Er det jydemad, jeg spiser ikke jydemad" eða "Er þetta Jótamatur, ég borða ekki jótamat". Hann kom með hatrið heiman frá sér þar sem menn virða ekki gyðingar og þekkti ekki muninn á jøde og jyde. 

Baldur, þú ert of bláeygur og heppinn að búa á hjara veraldar. En ert þú fordómalaus maður og ertu nú alveg viss?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1.7.2008 kl. 15:36

6 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll Vilhjálmur.  Danir hafa átt svolítið bágt undanfarin ár það er rétt hjá þér. Dæmin sem þú nefnir eru bara dæmi af mannlegum samskiptum og Danir hafa engan annan kost en að vinna úr sínum málum með öllu því fólkis em býr í landinu. Það væri hægt að segja þúsundir af fallegum sögum um samskipti fólks í Danmörku.

Af því að þú spyrð: Ég bý að vísu á Íslandi en ég hef unnið töluvert í þessum málum og verið í sendinefndum frá Evrópuráðinu í tíu löndum.  Þú getur kynnt þér skýrslurnar  á http://www.coe.int/T/E/human_rights/Ecri/1-ECRI/ Ég veit að ,,eftirlitsmenn" eins og ég skynja aldrei allt dæmið ekki frekar en íslendingur eins og þú sem ert náttúrulega vanur einföldu og góðu umhverfi úr uppvextinum þar sem allir voru eins. 

Baldur Kristjánsson, 1.7.2008 kl. 15:56

7 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ekki sé ég hvað það er í athugasemd minni sem veldur því að Vilhjálmur Örn sér ástæðu til að senda mér hugljúfa kveðju.

Matthías Ásgeirsson, 1.7.2008 kl. 16:02

8 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Matti minn, þú talar venjulegar um trúað fólk eins og verstu múslímahatararnir talar á niðrandi hátt um múslíma. Það er til lengdar mjög leiðigjarnt og óuppbyggjandi. Ég skil ekki "trúboð" þitt. Af hverju þessi ofsi gegn þeim sem þú skilur ekkert í vegna trúarþarfar þeirra? Getur þú ekki látið það sem þeir tilbiðja eins og vind um eyrun þjóta.

Baldur, Danir hafa gert meira en flestar þjóðir Evrópu fyrir innflytjendur sína. Þeim er minnst þakkað. Vandamálið sem við sjáum nú, er ekki hatur Dana eða óþol þeirra. Danir eru hataðir meira í heimi múslíma en þeir hata múslíma. Þú gleymir því að múslímar eru líka fullir af fordómum og margir láta stjórnast af kreddum aftan úr forneskju. Það er hægt að segja margar fallegar sögur, en menn einblína á ljótleikann. Hatið á báða bóga er orðið mikið. Múslímar eru ekki saklausir í því almenningsáliti sem ríkir gegn þeim. Glæpatíðni meðal þeirra er ekki Dönum að kenna. Auknir öfgar á meðal þeirra eru ekki heldur Dönum að kenna. Þeir hafa tekið með sér þjóðfélagsmynd og hefðir, sem þeir vilja ekki láta af og nú vilja sumir þeirra neyða því fyrirkomulagi yfir á Dani.

Fordóma múslíma sá ég og fann fyrir á eigin líkama þegar ég var 15 ára, er ég var með föður mínum í Haag í Hollandi við samkunduhús gyðinga þar sem ungir Marokkómenn köstuðu rusli, flöskum og öðru lauslegu að þeim sem voru að koma út úr synagógunni.

Ég var tíður gestur með föður mínu á Keflavíkurflugvelli sem táningur. Ég sá í tengslum við það fordóma Íslendinga í 2. veldi. Maður varð að fara hljótt með það.

Og nei Baldur, ég vandist ekki "einföldu og góðu umhverfi í uppvextinum þar sem allir voru eins". Faðir minn, sem gaf mér gott og öruggt umhverfi vegna dugnaðar síns, varð oft fyrir aðkasti sökum uppruna síns, eða bara vegna þess að hann talaði bjagaða íslensku. Hann var ekki eins og hinir og það fékk maður óspart að heyra og finna. Fordómar í garð útlendinga voru landlægir á Íslandi. Íslendingar hafa aldrei kunnað sig. 

Öfund í garð útlendingsins kom oft í ljós. Eitt sinn þegar faðir minn hafði sett niður 500 túlípanalauka í garðinum sínum. Þegar þeir blómstruðu í allri sinni litadýrð, og Vísir greindi frá því í frétt, sýndu nágrannarnir sauðalitina og sendu börnin sín til að trampa á túlípönunum. Stundum voru það egg sem kastað var í húsið, stundum var bíllinn rispaður.  

Ég gæti sagt þér margar sögur, en læt nægja nokkrar sögur. 

Borgarstjórasonur einn teiknaði vangaskrípamynd af mér á töfluna í skólanum, vegna þess að hann öfundaði stærð nefs míns. Undir myndina skrifaði hann ekki listamannanafn sitt, heldur orðið "júði". Hann var 13 ára. Þessi silfurskeiðasleikir hafði 9 ára teiknað hálfgerða klámmynd af bekkjarfélögum sínum í stellingum sem flestir 9 ára þekktu ekki. Framsóknarmaðurinn sem kenndi okkur opinberaði fordóma sína þegar hann sagði öllum bekknum að þetta "yrði borgarstjórinn ekki glaður að sjá". 

Ekki má ég heldur gleyma því, að þegar ég var eitt sinn kynntur fyrir gömlum fræðimanni, setti hann hendur fyrir aftan bak og vildi helst ekki taka þær fram og heilsa mér með handabandi fyrr en hann var fullvissaður um að ég væri Íslendingur. Hann hafði talið öruggt að ég væri útlendingur og slíka menn var hann greinilega ekki vanur að snerta.

Hefur þú, Baldur, verið beðinn um passann þinn á ensku þegar þú kemur til Íslands? Nei líklega ekki. Í því lenti ég iðulega og lendi enn. Eitt sinn kom  nasisti, forsetasonur, að Stöng í Þjórsárdal þar sem ég var að grafa með tveimur hjálparmönnum. Hann vatt sér að konu minni, því hann taldi víst að ég og Bandaríkjamaður sem þarna var með okkur værum óalandi útlendingar. Íslendingar eru rasistar. Hvað stendur um það í skýrslum þínum?

Nágrannadrengur einn, sem síðar þurfti örugglega að berjast við fordóma annarra vegna "kynvillu" sinnar, bauð öllum í afmælið sitt, nema mér. Hann var nefmæltur mjög og tilkynnti mér við limgerðið á garðinum þar sem gestirnir voru að leik og ég glápti inn með öfund, að ég hefði ekki verið boðinn í afmælið hans vegna þess að ég væri svona "púkó útlendingur". Faðir hans, karl úr Flóanum, kom þá og gaf mér brjóstsykur, og hálfskammaðist sín fyrir fordóma sonar síns.

Íslendingar eru ekki hætishót betri en Danir eða aðrar þjóðir og ég gef lítið fyrir nefndarsetur þínar og skýrslu, þar sem þú hefur aldrei kynnst því á eigin líkama sem ákveðnir útlendingar og þeirra aðstandendur hafa oft á tíðum þurft að kynnast á Íslandi.

Versti rasistinn á Íslandi til margra ára var líka jafnaðarmaður eins og þú, Baldur. Jónas Guðmundsson hét hann og hér getur þú lesið dálítið um hann, eða hér.

Svo ekki eitt orð til viðbótar um það frá þér, að ég skynji ekki allt dæmið vegna þess að allir voru eins og jafningjar þegar ég var að vaxa úr grasi. Það er ímyndun, þeirra sem ekki vita betur.

Ég sé hvernig múslímar haga sér í Danmörku og mér er leyfilegt að draga mína ályktanir af því. Sú framkoma þeirra er þeim ekki til mikils framdráttar. Ásakanir í garð þeirrar þjóðar, sem hefur oftast nær búið vel að þeim, eru ómaklegar og þjóna aðeins einum tilgangi.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1.7.2008 kl. 17:49

9 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Skelfileg lesning Vilhjálmur! Ekki hef ég fundið það á eigin skinni en það er langt síðan ég komst að því að Íslendingar eru ekki hætinu skárri en aðrir þegar kemur að racisma og útlendingaótta og ég held reyndar að okkur hafi verið hlíft um of í skýrslum ECRI um Ísland (sem ég má ekki koma nálægt). En hin alvarlega spurning mín er þessi: Eru ekki margir ungir múslimar í Danmörku að upplifa það sama og þú upplifðir á þínum sokkabandsárum að breyttu breytenda. Mér finnst lýsing þín á þinni eigin reynslu ekki svo ólík lýsingu norska lögfræðingsins Abid Q. Raja í bókinni Talsmann (Osló 2008).? Bestu kveðjur!

Baldur Kristjánsson, 1.7.2008 kl. 18:05

10 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sæll aftur Baldur, ég hef ekki lesið bók Rajas, en ætla mér að ná í hana við tækifæri. Nafnið Raja setur mig alltaf hljóðan. Maður með þetta nafn (stytt úr Rajakowich), fra Trieste, var einn af verstu böðlum SS í Hollandi.

Ef ég dæmi út frá því sem ég sé, les og heyri, þá sé ég lítið líkt með því sem ég upplifði sem barn og unglingur og því sem sumir múslímar gera nú í Danmörku. Því er ekki hægt að líkja saman. Börn útlendinga á Íslandi voru fá og reyndu vegna þrýstings frá umhverfinu að falla vel að samfélaginu. Menn vildu vera góðir Íslendingar. Faðir minn lifði sig inn í það, þótt hann væri aldrei viðurkenndur sem slíkur. Flestir spjöruðu sig því vel og létu ekki fordóma á sig fá. Íslendingar voru heldur ekki allir útlendingahatarar frekar en Danir.

Börn múslíma í Danmörku eru mörg og mismunandi eins og fólk er flest. Ekki get ég útilokað að aðkast í garð múslíma og barna þeirra sé vandamál í Danmörku. Ég hef séð illa meðferð og ég hef sjálfur rifist í dönskum dagblöðum til að bjarga fólki frá brottvísun til Íran (og varð ágengt). En oftar heyri ég um illa meðferð múslíma á trúbræðrum sínum. Það eru til margir innflytjendur sem ráða flóttamenn ólöglega í þrælavinnu á smánarlaunum. Tyrkir eru t.d. lítið gefnir fyrir Palestínumenn og flokkadrættir eru á meðal annarra múslíma innbyrðis. Sameiningin út yfir mismunandi uppruna gerist því miður aðeins í gegnum öfga-Íslam. Múslímar eru því langt frá því að vera bræður, nema í öfgunum.

Þegar ég hef séð skemmdarverk framið, og það hefur því miður gerst allt of oft, hefur það í flestum tilfellum verið verk innflytjenda. Ef ég hef vinsamlega beðið unga menn, sem ekki voru af dönsku "bergi" brotnir, um að hætta brjóta og bramla eitthvað sem þeir eiga ekki, hefur mér verið hóta lífláti.

Ég bý þar sem 20% íbúanna er af mismunandi erlendum uppruna. Fyrri kynslóðir innflytjenda í Danmörku voru ekki annálaðir fyrir skemmdaverk og glæpi, en flestir glæpir í dag, hlutfallslega, eru framdir af innflytjendum og afkomendum þeirra.

Þegar maður heyrir um vandamál í skóla barna minna, er það oftast vegna innflytjendabarna, sem af ýmsum ástæðum beita handalögmálinu til að leysa öll sín vandamál. Þar sem börn útlendinga eru í meirihluta, hefur það gerst að þau nýta sér meirihluta sinn til að ofsækja danska nemendur án nokkurrar ástæðu að því er virðist.

En strax þegar blæs á innflytjendur, hrópa góðir menn "Fordómar", rasismi eða annað. Ég tel að menn hrópi stundum of fljótt og of hátt. Ýmir innflytjendur hafa sagt og skrifað það sama.

 Í mörgum tilfellum hefur það gerst að innflytjendur búa til "ofsóknir". Fyrir nokkrum árum var leitað að manni, sem átti að hafa sprauta bensíni inn um bréfalúgur múslíma og kveikt í. Þegar hann fannst, reyndist hann vera Pakistani.

Pakistanskur þingmaður Socialístisk Folkeparti (SF), læknir, sem einna mest talaði um svik og pretti annarra í þjóðfélaginu, var hankaður á því fyrr í ár að hafa logið til um nám sitt og leiguskilmála. Ekki var neinn á eftir honum áður en það gerðist. Hann naut virðingar allra áður en það gerðist.

Sumir afkomendur innflytjenda skara fram úr í skólum og gengur vel og það gladdi mig mjög þegar ég las um daginn um einn af dúxunum í Danmörku sem er Palestínumaður. Hann hefði aldrei notið neinnar aðstoðar heima við. Engin mamma sem geta rétt kommurnar eða pabbi sem gat skýrt eðlisfræðina. Hins vegar er leitt að sjá afburðarfólk nýta hæfileika sína sem lækna með að klæðast slæðum og neita að koma við danska karlmenn vegna trúar sinnar. Það eru ekki bara danskir karlmenn sem ekki vilja njóta lækninga slíkra kvenna.

Einn hópur fólks hefur sér í lagi tapast úr lestinni. Palestínumenn hafa í mörg ár lifað í þeirri mýtu að þeir séu ofsóttir og allir séu á móti þeim. Jafnvel þótt að svo sé ekki hér í Danmörku, hefur mýtan orðið veruleikanum sterkari. Glæpatíðni Palestínumanna er miklu hærri en á meðal annarra múslíma. Hatur í garð þjóðfélagsins er mikið, en að mínu mati hefur danskt þjóðfélag ekki verðskuldað þetta hatur.  Þeir sem spjara sig vel gætu vonandi orðið þeir fyrstu sem munu snúa þessari uggvænlegu þróun við.

Á margan hátt tel ég að múslímar í Danmörku hafi það betra en allar aðrar gerðir flóttamanna sem komið hafa á síðustu 100 árum til Danmörku. Ég hef stundað rannsóknir á einum þessara hópa, gyðingum, og get því miður ekki séð neinar hliðstæður í sögu þeirra og innflytjenda með múlsímabakgrunn. Þrátt fyrir að múslímar hafi fleiri möguleika en menn höfðu áður, spjara þeir sig verr en aðrir hópar. Þetta er ekki vegna þess að Danir hafi ekki gert nóg til að aðlaga þá. Þjóðfélagsgerðin, reglur, venjur, lög og jafnvel hatur heimalandsins er tekið með og það er haldið fast í þau gildi. Það er aðalvandamálið og það er Wilders að segja á sinn ruddalega hátt. Í stað þess að dæma Wilders til dauða og kalla hann öllum illum nöfnum, væri kannski reynandi fyrir múslíma að líta í eigin barm. Eru þeir sjálfir barnanna bestir?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1.7.2008 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband