Eina hjónabandslöggjöf takk!

A degi Gay - pride göngu lýsi ég þeirri skoðun að ein hjónabandslöggjöf eigi að vera í landi.  Eina haldbæra leiðin í samfélagi er að allir án tillits til kynhneigðar, kynferðis, uppruna, litarháttar og trúar séu undir sömu lög seldir. Fólki sé með öðrum orðum ekki mismunað með nokkrum hætti í löggjöf eða framkvæmd hennar.  Allir eiga að vera jafnir fyrir lögum. Allir eiga að njóta sömu laga. Allir sem koma að fullnustu laga þ.m.t. trúfélög verða að sætta sig við það.  Og íslensk stjórnvöld ættu vitaskuld að staðfesta viðauka nr. 12 við mannréttindasáttmála Evrópu.  Sá viðauki bannar alla mismunun af hvaða  tagi sem er. Þeir sem í alvöru aðhyllast samfélag án mismununar ættu að berjast fyrir staðfestingu viðaukans.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að sjálfsöðu Baldur eiga allir að vera jafnir fyrir lögum en því miður er enn til fólk sem selur sér eitthvað annað á grundvelli trúar, eins og það kýs að túlka hana. En heimur batnandi fer, vonandi...

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 10:05

2 identicon

Þessi hægfara stefna í réttindamálum er vegna andstöðu kirkjunnar og ýmissa sértrúarsafnaða við málefni okkar samkynhneigðra. Við höfum aldrei verið að taka neitt frá öðrum né að biðja um sérréttindi, aðeins að fá að vera manneskja til jafns við aðrar. (Við erum þaðallavega þegar við eigum að borga skatta :)Hinsvegar hafa stjórnmálamenn ekki haft hug til að stíga fetið til fulls og kosið að fara þessa hægu göngu og í þeim anda verður næsta skraf að eyða nokkrum milljónum í nefnd sem mun sameina þess næstum því sömu hjónabandslöggjöf. Hugleysi kostar líka peninga.  

Hörður Torfason (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 12:08

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Baldur minn, hér skrifar þú ekki af trúnaði við frumheimildir kristindómsins um hjónabandið. Afstaða þín er á ská og skjön við Nýja testamentið, það verður bara að segjast eins og er. Þetta er ekki barátta fyrir kristnu hjónabandi, og hvað varðar meinta 'mismunun', sem eigi að vera fólgin í því, að sérstök lög gildi um hjónaband karls og konu, þá bera þessi skrif þín því vitni, að sennilega hefurðu enn ekki komið því í verk að lesa grein Oxfordkonunnar Raphaelu Schmid: Is Marriage a Form of Discrimination? Það væri gaman að sjá frá þér krítíska, en sanngjarna og rökstudda analýsu á þeirri vönduðu ritsmíð í öllu lengri vefgrein en þessum snarpistli þínum. – Með kveðju og ósk um velgengni í því að kryfja þessi mál til mergjar,

Jón Valur Jensson, 9.8.2008 kl. 14:08

4 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það er eins og fyrri daginn séra minn, hægt að taka hér undir hvert orð og engu við það að bæta.

Hörður hefur líka gott nef fyrir framgöngu stjórnmálamanna og ég tek undir þetta hjá honum......Já og til hamingju með daginn ...

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 9.8.2008 kl. 14:13

5 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Ég get svo sem skilið að ef maður aðhyllist trúarbrögð sem telja það synd að ákveðnir aðilar gangi í hjónaband, að það geti verið erfitt að viðurkenna það. Það er þó ekki réttlátt að sá trúarhópur fái ríkisstyrki og allir landsmenn verða að halda þeim söfnuði uppi. Þess vegna væri nær að afskaffa þjóðkirkju, láta opinbera stofnun sjá um að gefa fólk saman í hjónaband og leyfa svo hverjum söfnuði fyrir sig að setja eigin reglur, enda eru þeir þá fjárhagslega sjálfstæðir og nota ekki opinberar stofnanir til að ná inn áskriftargjöldum

Til hamingju með daginn

Ásta Kristín Norrman, 9.8.2008 kl. 14:50

6 Smámynd: Kolgrima

Þetta er frábær yfirlýsing takk fyrir það.

Það er kannski ekki hægt að neyða sértrúarsöfnuði til að gefa saman samkynhneigð pör, en það ætti tvímælalaust að vera í verkahring ríkiskirkju.

Bestu kveðjur. 

Kolgrima, 11.8.2008 kl. 02:03

7 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Algjörlega sammála !!

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 17.8.2008 kl. 20:28

8 identicon

Lang eðlilegast væri að fara þá leið sem t.d. Frakkar hafa farið, þar sem hjónabandið er algerlega veraldleg stofnun. Þannig væri einfalt að setja lög sem gilda jafnt fyrir alla.

Svo væri það undir hverjum og einum hjónum komið hvort þau leita eftir blessun trúfélaga á ráðahagnum. Þá væri trúfélögunum svo í sjálfsvald sett hvort þau blessuðu ráðahaginn eða ekki.

Þannig væri einfaldlega búið að taka kreddurnar út fyrir sviga.

Sigurður E. Vilhelmsson (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband