Stóriðjan í Austur - Skaftafellssýslu!
11.8.2008 | 13:56
Á síðustu þremur sólarhringum eða svo hef ég gengið upp að Svartafossi við Skaftafell, unað mér í sundlauginni á Svínafelli í Öræfum, róið á Kajak undan Hofsnesi í Öræfum, gengið um Ingólshöfða eftir ferð á heyvagni þangað út, kíkt á Þórbergssafnið á Hala sem er mátulega stórt, drukkið kaffi við Jökulsárlón, borðað heimatilbúinn ís í Árbæ á Mýrum og farið í heita potta við Hoffell í Nesjum en vatnið þar ku vera gott fyrir fólk sem líður af húðsjúkdómum. Nú sit ég í Nýheimum á Höfn og skrifa á Internetið satt að segja undrandi yfir öllum þeim afþreyingarmöguleikum sem uppáhaldssýslan mín hefur upp á að bjóða fyrir ferðamenn erlenda sem innlenda. Á næstunni ætla ég upp á Skálafellsjökul með Guðbrandi Jóhannssyni og ganga á Skaftafellsjökul með fjallaleiðsögumönnum. Næsta vor í maí hyggst ég svo ganga á Hvannadalshnjúk með Einari Sigurðssyni fjallamanni í Hofsnesi. Það er nóg að gera og margt við að fást. Vonandi leikur lífið við mig og aðra eitthvað enn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góða ferð og góða skemmtun.
Guðrún Ing
Aprílrós, 11.8.2008 kl. 14:11
Mér fannst það frekar sniðugt að þetta hitti svona á. Ekki oft sem ég sit í afgreiðslunni í bókasafninu!
Þú gleymdir alveg að segja frá því, að á meðan þú sast við tölvuna að skrifa, var ég að skoða bækur með syni þínum. En hann Rúnar er nú rosalega skarpur drengur, það má hann eiga!
Róslín A. Valdemarsdóttir, 11.8.2008 kl. 16:36
Þetta er almennileg stóriðja, þykir mér!
Lára Hanna Einarsdóttir, 11.8.2008 kl. 18:50
Lónið er auðvitað heimur út af fyrir sig og því ekki von að þú teljir það með jökulheimum. Oft hefur mér fundist að kikk og snjóáherslur sýslunga minna þjónuðu ekki áherslu minni á að njóta tengsla við náttúruna án hjálpartækja.
Hið 400 ferkílómetra gönguland, Stafafell í Lóni er annar tónn. Finnst Gísli Sigurðsson fyrrum lesbókarritstjóri lýsir þessari sérstöðu ágætlega í riti sínu Seiður lands og sagna. Hann skrifar;
"Byggðin í Lóni hefur löngum verið talin til Austurlands, þar til eftir síðustu kjördæmabreytingu að sveitin er í Suðurlandskjördæmi. Þegar ekinn er hringvegurinn gæti virzt að það væri á mörkunum; Lón er einskonar "intermezzo" eða millikafli, sem brúar bil milli víðáttunnar meðfram suðurströndinnni og þess ólíka landslags sem við tekur á Austfjörðum".
Ég vil sjá ferðþjónustu í Lóni leggja áherslu á Slow Travel . Stafafell hefur verið skipulagt sem "griðland göngumannsins" og þar er áherslan á þessi persónulegu tengsl við náttúruna. Rekast á Klettafrú og þakka henni fyrir að vera til. Sleppa sjálfinu og öllum hinum smáu stundarhagsmunum, renna inn í eina heild með sköpunarverkinu.
Slík veröld getur auðvitað orðið stærri en Austur-Skaftafellssýsla, Suð-Austurland, Suðurland eða Austurland, en um leið tilheyrir öllum og er jafn smá eða stór og persónan sem hennar nýtur.
Bestu kveðjur, G
Gunnlaugur B Ólafsson, 11.8.2008 kl. 19:08
Já ég er hjartanlega sammála þér Baldur, hér í sýslunni er margt hægt að gera og einmitt svo frábært hvað fólk hér er að gera góða hluti. Ég er stolt af þessu fólki. Gaman að þú skulir impra á þessu hér. Vona að þú haldir áfram að eiga góðar stundir á þessum fagra stað. Kær kveðja Ragnheiður (konan sem þú giftir honum Gauta Árnasyni hér um árið!!!!!!!!)
Ragnheiður (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 09:58
Já, heldur það ekki vel Ragnheiður? Gauti er ágætur drengur eins og hann á kyn til. Gunnlaugur, það var ljótt hjá mér að minnast ekki ðá Lónið en eins og þu vest er það einn af mínum uppáhaldsstöðum. Þú mátt til að skipuleggja fyrir mig ferð inn á Lónsöræfi næsta sumar. Hef aldrei almennilega komist þar inneftir en mér er sagt að nær litbrigðum himnaríkis komist þú ekki hérna megin. Er enn að væflast hér í sýslu allra sýslna. Róslín: Rúnar er skarpur drengur eins og þú segir. Eplið fellur sjaldan langt frá eikinni!!!.Kv. B
Baldur Kristjánsson, 13.8.2008 kl. 10:38
Jú þakka þér fyrir Baldur...Það heldur algjörlega núna 10 árum og 4 börnum seinna!!!!!
Kveðja Ragnheiður
Ragnheiður hans Gauta (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 11:20
Sveitirnar sunnan við Vatnajökul eru miklar ferðamannaperlur hvar sem litið er á. Að fara með ferðamenn um þessar slóðir er virkilega gaman. Þeir gleyma sér bókstaflega einkum þegar veðrið er gott.
Oft hefi eg stansað stundarkorn öðru hvoru megin við Hvalsnes- eða Þvottárskriður þegar nægur tími er milli gististaða. Það nefni eg tímajöfnun. Einu sinni komu í fjöruna til okkar hátt í 30 bílar ýmist á erlendum númerum eða bílaleigubílar: þar sem rúta stansar þar hlýtur að vera e-ð merkilegt að sjá og skoða!
Erlenda ferðafólkið nýtur þess að horfa á öldurnar, fylgjast með fuglalífinu og kannski selum, skoða forvitna steina og sérkennilegar bergmyndanir og jarðfræðifyrirbrigði, fléttur og mosa að ógleymdum gróðrinum sem alls staðar er að finna og oft furðu fjölbreytt.
Við Hvalnesvitann finnst mér ekki gaman að stoppa með ferðafólk. Þar er víða orðið mjög átakanlegt að sjá hvar fólk gengur örna sinna, pappír og skítur út um allt. En Lónsfjaran er alltaf heillandi en getur orðið varhugaverð fyrir bílsstjóra sem hætta sér of langt í lausu mölinni.
Höfn í Hornafirði er einnig heimur út af fyrir sig. Síðast þá eg var þar í byrjun mánaðarins mátti sjá allmarga óðinshana. Þeir vekja alltaf kátínu einkum þegar búið er að fræða um samskipti kynjanna.
Þá má ekki gleyma ferðaþjónustunni á Smyrlabjörgum þar sem borðin bókstaflega svigna undan glæsilegum veitingum. Á Brunnhóli má svo njóta eins besta íss sem framleiddur er á Íslandi!
Kveðja
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 15.8.2008 kl. 09:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.