Að sigra tímann er eins og að.......!
28.8.2008 | 08:39
Samkvæmt eðlisfræðingnum Fred Alan Wolf lifum við í mörgum samhliða heimum og skreppum á milli þeirra. Fortíð, framtíð og nútíð eru ekki til heldur lifum við samtímis í framtíð, nútíð sem fortíð. Ég kann vel við svona kenningar. Reyndar hef ég uppgötvað að það er jafn auðvelt að hafa áhrif á fortíðina og framtíðina. Fortíðin er ekki til, aðeins hugmynd okkar um hana og smásögurnar sem við berum með okkur um okkur sjálf og móta nútíðina eru ekki réttar því að rétt útgáfa er ekki til. Þannig bera niðurdregnir menn með sér niðurdregnar sögur úr fortíðinni en hresst fólk hressari útgáfur. Ég er lagður af stað í það ferðalag að sigra tímann.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:00 | Facebook
Athugasemdir
Ef þú lest Sögu tímans eftir Stephen Hawkins þá kemstu að því að heimsendir gæti verið liðinn, en við eigum bara eftir að fá af því fréttirnar. Miðað við hugrenningar þínar að ofan þá hvet ég þig til að skoða hinar ótrúlega skemmtilegu pælingar stjarneðlisfræðinganna og þú munt komast að því að það er ekki nema á færi bestu ljóðskálda að bjóða í slíkar flugferðir.
Sigurður Ásbjörnsson, 28.8.2008 kl. 09:43
Jamm, fortíðin er ekki lengur til heldur aðeins minning okkar um hana, og ekki heldur framtíðin því hún hefur enn ekki runnið upp. Það eina sem er til er því það sem er hér og nú, og í tilviki mannsheilans er það ósköp fátt nema hrein hugsun, eða hugsanir um hugsun ef svo má segja. Á því broti af sekúndu sem það tekur ytra áreiti að fara gegnum skynfæri okkar og miðtaugakerfi er hvert augnablik liðið hjá löngu áður en það verður að meðvitaðri hugsun. Á þeirri leið eru upplýsingar úr umhverfinu skynjaðar af ónákvæmum lífrænum skynjurum, túlkaðar af háþróuðu en þó ónákvæmu úrvinnslukerfi, og síaðar gegnum mörg lög af lífrænum þráðum og himnum ásamt öllum okkar fordómum, sjálfsblekkingum og öðrum persónubundnum (rang?)hugmyndum. Það sem eftir stendur þegar við gerum okkur loks grein fyrir því hvað við teljum okkur hafa skynjað, getur því aldrei orðið meira en í besta falli minning um atburði nýliðinnar stundar. Sú minning hversu "skýr" sem hún virðist vera er þó í sjálfu sér að ekkert frábrugðin öðrum minningum eða hugmyndum sem við höfum um fortíðina. Þegar við hugsum ekki um fortíðina erum við jafnan að hugsa um framtíðina, t.d. þegar við ákveðum og skipuleggjum hvað skuli gera næst, en hugmyndir okkar um framtíðina byggjast gjarnan á "vitneskju" okkar um fortíðina (minningum). Eins og áður sagði er hvorugt þessara fyrirbæra (fortíð/framtíð) raunverulega til heldur aðeins minningar okkar og hugmyndir um þau, hugsanir okkar um þessar hugmyndir og aðrar hugsanir um þær hugsanir o.sfrv. Að ofansögðu virðist sem "núið" sé eina fyrirbærið sem ekki er hrein ímyndun, en um leið er það afskaplega óljóst fyrirbæri sem við getum aldrei upplifað beint heldur aðeins gegnum síu minninganna, og um leið og eitt augnablik er "núna" er það ekki lengur svo heldur tekur það næsta við og svo koll af kolli. Við getum því aldrei upplifað "nútíðina" (og þar með "raunveruleikann" í kringum okkur!) með algerlega beinum hætti heldur ávallt og eingöngu í gegnum síu minninganna. Það eina sem hver og einn maður getur í raun verið viss um að sé fullkomlega raunverulegt án þess að á því leiki nokkur vafi, eru hans eigin hugsanir en án þeirra væri útilokað að spyrja sig þessarar spurningar yfirhöfuð. Tilvist hugsunar og "upplifunar" mannsandans hverju nafni sem hún nefnist, er þannig eina fyrirbærið sem hægt er að fullvissa sig um að sé raunverulegt, ekkert annað fyrirbæri þekkist mér vitanlega sem býr yfir þeim eiginleika að geta sannað eigin tilvist í fullkomnu tómi og myndað þannig rökfræðilega lokað og fullkomið kerfi. Öll stærðfræði og þar með raunvísindi eins og þau leggja sig byggja að (mismiklu) leyti á vissum grunvallarforsendum sem er engin leið að sanna með vísindunum sjálfum, en ef við breytum grunnforsendunum þá breytast allar niðurstöður sem vísindin gefa okkur. Ég er þó ekki að gagnrýna vísindin, þvert á móti hafa þau reynst okkur mönnunum vel til að finna samsvörun milli þess sem við hugsum hverju sinni og þeirra minninga sem hjá okkur vakna á eftir. Við hinsvegar gefum okkur ávallt þá forsendu að þarna á milli gerist eitthvað "raunverulegt" sem er einhvernveginn fyrir utan okkur sjálf og þannig frábrugðið hugsunum okkar, en eins og Dr. Quantum leiðir okkur einmitt í ljós á svo skemmtilegan hátt, þá er sú forsenda fallvaltari en fólk almennt gerir sér grein fyrir! Það sem vísindamenn segja nefninlega ógjarnan frá er að forsendur kenninga þeirra er sjaldnast hægt að sanna nema e.t.v. með einhverjum öðrum vísindum sem aftur byggja á sínum eigin forsendum, sem byggja svo aftur á sínum eigin forsendum o.s.frv. Það var t.d. sýnt fram á það á síðustu öld að jafnvel þó að hægt sé að sanna allar reglur sem gilda um t.d. venjulega samlagningu útfrá nokkrum einföldum grunnforsendum, þá er aldrei hægt að sanna útfrá grunnforsendunum sjálfum að 1+1=2 hljóti að vera eina rétta niðurstaðan, enda er það ein af forsendunum sem verður að gefa í upphafi til kerfið gangi upp. Vísindamenn reyna sjaldnast að sanna og hvað þá að véfengja grunnforsendur, enda myndi mikið af slíku sennilega halda aftur af framförum á mörgum sviðum og oftar en ekki er "praktíska" leiðin farin. Eins og með talnakerfi okkar þá vill bara svo til að það virkaði fínt til að telja fjölskyldumeðlimina og veiðidýrin og því var ákveðið að nota það. Fjótlega kom svo í ljós "praktískt" viðmið til að færa hugmyndir um fjölda í samhengi við hugmyndir um annað í veruleikanum, en þetta var það viðmið sem var hendi næst í bókstaflegum skilningi og talan 10 sem grundvallarstærð er þannig fyrst og fremst afleiðing líffræðilegrar þróunar síðustu milljón ár eða svo frekar en einhver meðvituð ákvarðanataka eins og við þekkjum hvert fyrir sig sem einstaklingar. Önnur talnakerfi eru til og rökfræði þar sem hlutirnir eru jafnvel talsvert öðruvísi en við eigum að venjast, í skammtafræði sem er einhver kraftmesta nýja vísindagreinin um þessar mundir er t.d. nú orðið alvanalegt að fá niðurstöður sem eru þvert á það sem eldri forsendur og almenn skynsemi gætu gefið til kynna fyrirfram. Um leið og maður er hinsvegar búinn að sætta sig við t.d. þá hugmynd að sami hluturinn geti verið á tveim stöðum á sama tíma og að tveir aðskildir hlutir geti haft áhrif á hvorn annan samstundis yfir langa (ótakmarkaða?!) vegalengd þrátt fyrir hámarkshraða ljóssins, þá stendur fátt eftir furðulegt við slíkan samanburð.
"Núna er hvergi til nema í taugaendunum, allt annað er blekking! "
P.S. Það er reyndar eignað eðlisfræðingnum Hugh Everett að hafa fyrstur sett fram heildstæðar hugmyndir um samhliða heima sem samræmast niðurstöðum tilrauna úr nútíma skammtafræði. Það er þó ekki beinlínis "kenning" sem hann setti fram heldur nokkurskonar túlkun á því hvaða merkingu niðurstöður úr eðlisfræðitilraunum hafa og geta haft fyrir þekkingu okkar og skilning á eðli og eiginleikum veruleikans. Það er hinsvegar ekkert við þá túlkun sem hefur áhrif á niðurstöður tilraunanna, sem þýðir að ef við lifum í raun og veru í "mörgum heimum á sama tíma" þá skynjum við þá samt aðeins sem einn í senn alveg sama hversu mörg eintök eru af honum (og þar með okkur sjálfum líka!). Við höfum því engin tök á því að staðfesta eða afsanna tilgátuna, ef það væri einhver leið til að "mæla hina heimana" þá væru þeir ekki "aðskildir heimar" í þessum skilningi. Rétt eins og tugakerfið er í raun líffræðileg tilvjiljun sem hefur ekkert með útreikninga á fjölda að gera, þá er skammtafræðin ekkert annað en "praktísk nálgun" á fyrirbæri sem við teljum að sé raunverulegt (heimurinn í kringum okkur!) og þess vert að rannsaka, en túlkun á niðurstöðunum er í raun lítið annað en túlkun á forsendunum sem hver og einn höfundur gefur sér í upphafi kenningar sinnar.
"To be able to bend the spoon you must first realize that it is not really the spoon that bends..."
Guðmundur Ásgeirsson, 28.8.2008 kl. 14:47
Þakka athugasemdirnar. Ég hefði verið þrjú ár að semja eitthvað viðlíka og síðari athugasemdina enda var ég tvo tíma að lesa hana. Ég er greinilega kominn út á gáfumannasvið og forða mér bara í trúarbrögðin: ,,Allah er einn og Múhamed er spámaður hans" og hana nú. kv. B
Baldur Kristjánsson, 29.8.2008 kl. 13:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.