Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum!
31.8.2008 | 09:08
Stundum eru textar Biblíunnar auðskildir eins og upp úr nýtísku sjálfshjálparbók, þessi er þannig en þó margræður. Inn í íslenskan samtíma á hann margskonar erindi.
,,Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.
Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?"
,,Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!
Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning."
Út af þessum texta úr Matteusarguðspjalli leggja flestir prestar hinnar íslensku þjóðkirkju í dag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Og ætli það sé ekki í lagi að rifja þetta upp öðru hvoru - jafnt fyrir pöpul sem presta.
kv. í höfnina. Sigm. Sig
-sigm. (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 10:08
Við búum í samfélagi sem dæmir mannkosti eftir klæðaburði, húsnæði, og farkosti svo dæmi séu tekin.
Því er orð dagsins tímabært, líka hina 364 daga ársins.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 31.8.2008 kl. 10:37
Sammála. Þetta er góður kafli sem fluttur var víða í morgun.
Síðari ritningarlesturinn var úr bréfi Péturs og þar segir meðal annars:
„Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð". Beygið ykkur því undir Guðs voldugu hönd til þess að hann upphefji ykkur á sínum tíma. Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur."
Eyþór Laxdal Arnalds, 31.8.2008 kl. 17:37
Takk fyrir séra minn og meðhjálpari Selfosskirkju. Þessi orð fara með mér inn í nóttina. Á þessum árstíma eru áhyggjur morgundagsins allt of oft samferða mér í rúmið
Sigþrúður Harðardóttir, 31.8.2008 kl. 21:33
Það er með þetta eins og margt annað gott. Það er ekki auðveld að fara eftir því, ekki það sama að vera sammála þessum orðum og það að geta breytt eftir þeim. Alveg eins og með kærleikann. Ekki er nóg að lofsyngja kærleikann í orði til að maður sýni hann í verki.
Sigurður Þór Guðjónsson, 31.8.2008 kl. 23:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.