Jafnrétti er réttur - ekki valkostur!
29.9.2008 | 10:30
Evrópusambandið rekur stofnun sem það kallar FRA eða Fundamental Rights Agency. Verkefnin eru í fyrsta lagi að að safna upplýsingum um grundvallarmannréttindi, í öðru lagi að ráðleggja Evrópusambandinu og ríkjum þess í þeim efnum og í þriðja lagi að örva umræður um grundvallarréttindi meðal almennings. Þetta er má segja systustofnun ECRI sem er sú stofnun hjá Evrópuráðinu sem fæst við misrétti sem stafar af uppruna manna, litarhætti og trú. Þar er Ísland aðili.
Almennt er jafnréttislöggjöf góð í ríkjum Evrópusambandsins. Þá er ekki bara verið að tala um kynjamisrétti heldur alhliða jafnrétti. Þó er sá hængur á að ekki er alltaf farið eftir því sem í lögum segir eins og við þekkjum með jafnréttislöggjöf kynjanna hérna heima. Innan Evrópusambandsins er talið er að aðeins þriðja hver manneskja að jafnaði þekki rétt sinn.
Evrópusambandið skorar því á ríkisstjórnir aðildarríkja sinna að upplýsa fólk almennilega um rétt sinn. Í áskoruninni segir: Á hverjum einasta flugvelli eru auglýsingar um réttindi farþega. Af hverju eru ekki sams konar auglýsingar hvað varðar almenn réttindi út um allt í fyrirtækjum, skólum, ráðhúsum, pósthúsum? Jafnrétti er nefnilega réttur, ekki valkostur.
Þegar kemur að jafnréttismálum erum við Íslendingar gildari í orði en á borði. Við mættum því að skaðlausu taka til okkar, miklu betur, ráðleggingar Evrópuráðsins, sem við erum aðilar að og Evrópusambandsins, sem við verðum aðilar að.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.