Áhyggjur og kvíði setjast að!
1.10.2008 | 09:03
Ég ætla ekki að fjalla um það hvað óheppilegt það er að hafa gamla umdeilda stjórnmálamenn í Seðlabankanum. Og ég ætla ekki heldur að fjalla um þau ósköp sem fest hafa í sessi að Alþingi sé bara málfundur og stimpilstofnun. Ég ætla að fjalla um þær áhyggjur og þann kvíða sem sest að mönnum þessa dagana, körlum og konum. ,,Ég ætla ekki að fara í bankann sagði gamall maður við mig í gær ,,en ég er dauðhræddur um að sparnaður minn hverfi. Þúsundum saman nudda smáverktakar hendurnar og ljúga því að sjálfum sér og konunni að verkefnastaðan sé nú ekkert svo slæm. Atvinnulausir horfa ungir snillingar upp á drauma sína hrynja. Í gær var glæsti jeppinn skilinn eftir með lyklum í á planinu hjá Lýsingu.
Svo verður mér að sjálfsögðu hugsað til allra skjólstæðinga minna, sem þræla frá morgni til kvölds, skúra safnaðarheimilið eða sjoppuna eftir erfiðan vinnudag og horfa uppá verðtryggð lán sín rjúka uppúr öllu valdi. Þetta fólk hefur lagt mikið á sig til þess að verða ofaná í samfélagi sem lofaði því með látbragði sínu góðum tímum.
Merkilegt nokk þá mun efnahagsöngþveitið styrkja Geir Haarde í sessi. Hann er þrátt fyrir allt, í fjarveru Ingibjargar Sólrúnar, eini flokksformaðurinn sem lítur út fyrir að vita eitthvað um efnahagsmál. Staða hans væri ennþá betri ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði skipt um leiðtoga þegar þeir skiptu um formann. Ingibjörg hins vegar setti Björgvin G. niður um margar hæðir þegar hún sendi Össur í Seðlabankann til þess að blessa yfirtöku Seðlabankans. Eftir það hljómar Björgvin G., ráðherra banka- og viðskipta, eins og kotroskinn strákur án nokkurra valda.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það erum við almúginn sem borgar fyrir frjálshyggjudrengina sem eru búnir að leika sér með peningana okkar undanfarin ár Davíð og fleiri sjallar bera ábyrgð á því hvernig komið er. Ég er samt ekki óhress með kaupin í Glitni það var eina færa leiðin til að vermda sparifé okkar. En auðvitað vildu frjálshyggjudrengirnir láta vermda hlutabréfin sín Þeim er nokk sama um hinn almenna verkamann það sýna kvótatilfærslur þeirra undan farin ár.
Bergljót Aðalsteinsdóttir, 1.10.2008 kl. 13:48
Þetta er að verða skelfilegt ástand hér hjá mörgum. Ég skil eiginlega ekki alveg hvað Björgvin er að gera í þessu starfi sínu, þið fyrirgefið. Biða að heilsa Svöfu og börnunum Kveðja frá Ísafirði.
Sigríður Inga Sigurjónsdóttir, 1.10.2008 kl. 19:48
"Í gær var glæsti jeppinn skilinn eftir með lyklum í á planinu hjá Lýsingu."
Sumir höfðu vit á að kaupa ekki bílinn! Hinir geta svo sem reynt að skila honum ...
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 22:32
Hjartanlega sammála þér frændi. Og nú er aldrei meira að gera á geðdeildinni skv. fréttum RÚV í gær! Heimur harðnandi fer og burtséð hvað menn kalla þetta - timburmenn eyðslufyllerísins þá breytir það ekki þeirri staðreynd að almúginn þjáist - sligaður af skuldabyrði. Gleymum heldur ekki þeim sem minnst mega sín - öryrkjum og öðrum bótaþegum því ekki hækka bæturnar í takt við verðbólguna...
Þóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 2.10.2008 kl. 09:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.