Endurbirtur pistill um atvinnuleysi -þann bölvald!

Að missa vinnuna og verða atvinnulaus er eitt það allra versta sem getur hent nokkurn mann fyrir utan það að sjálfsögðu að missa barn eða maka.  Það er skelfilegt áfall.  Þér líður eins og þú sért einskis virði. Þú hefur stórkostlegar áhyggjur af framtíð þinni. Þér finnst þú hafa brugðist sem faðir, móðir, maki, sonur, dóttir.  Sértu þunglynd(ur) að eðlisfari er þetta lífshættuleg staða. Þú reynir að halda andlitinu út á við en heima er grátið, starað, rifist eða tekið úr viskíflösku.  Í atvinnuleysysskráningunni eru biðraðir svo allir geti horft á þig vel og lengi. Stéttarfélagið býður upp á fundi með öðrum ,,lúserum”. Farir þú þangað, sem er ólíklegt, líður þér ennþá ver á eftir.

Fyrst trúirðu því jafnvel að þetta sé tækifæri. Þú hefur heyrt þá sem aldrei hafa upplifað neitt tala um að þegar einn gluggi lokist þá opnist þrír.  Þú heldur þess vegna að það komi símtal eða tölvupóstur. Þú hringir kannski í tvær eða þrjár áttir og heldur að gluggar sperrist upp. En það gerist ekki.  Veruleikinn staðfestir það að þú ert einskisnýt manneskja og vinalaus. Á þessu stigi byrja sjálfsvísgshugsanir að sækja að.

Ef vinur þinn eða kunningi er atvinnulaus skaltu gera þér erindi við hann.  Ekki hringja bara til að spyrja hvernig honum líði.  Hann ber sig vel og bandar frá sér einhverri aumingjasamúð. Fáðu hann með þér í eitthvað.  Athugaðu í vinahópnum hvort það vantar ekki manneskju í eitthvað sem kemur viðkomandi út á meðal fólks

Hættan er sú að þeir sem stjórna samfélögum hafa sjaldnast upplifað atvinnuleysi.  Þetta eru yfirleitt fólk sem hefur sjálft verið tekið fram yfir aðra. Ef stjórnendur hefðu sára reynslu í bakpokanum að þessu leytinu til myndi það horfa til atvinnulausra þegar vantaði fólk í ráð og nefndir, vinnuhópa, starfshópa. Það myndi ekki skipa sama vel haldna hópinn í allt.  Nú sem aldrei fyrr þurfum við fólk sem er hafið yfir vina -, klíku- og flokkapólitík.  Það þarf nefnilega svo ofboðslega lítið klapp á kollinn eða örvun til að bjarga heilu mannslífi, til þess að endurvekja mannsæmandi feril, til þess að tryggja hamingju barns atvinnulausrar móður eða atvinnulauss föður. Og hinn atvinnulausi er ekkert síður hæfileikaríkur en sá sem hangir á vinnu sinni.

Það er þvaðrað um samstöðu og að leggja hvort öðru lið og að standa saman. Þetta syngja þeir sem trjóna efst á haugnum. Slíkt tal er yfirleitt innantómt kjaftæði og hljómar sem háð í huga hins afskipta, því að hann veit að orðum fylgja sjaldnast athafnir sem gagnast honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill. Ég ætla að stinga þessu bak við eyrað.

Lína (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 16:22

2 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Nú er ég í fyrsta sinn frá 14 ára aldri atvinnulaus og veit að hvert orð í þessum pistli er rétt. Samt er ég betur settur en svo margir aðrir því ég hef haft nokkur aukaverkefni sem enn eru til staðar. Fyrir 3 árum svissaði ég úr auglýsingagerð yfir í smíðar sem hafði verið frístundavinna þá í 15 ár. Ég hafði þar til fyrir 2 vikum síðan haldið að þetta myndi lagast. Ég myndi finna mér vinnu við eitthvað. Svo fékk konan uppsagnarbréf! Ekki það, hún missir ekki vinnuna nema fyrirtækið hreinlega hætti. En hver veit með hvað er í gangi. Það er ekki hægt að reka fyrirtæki né heimili með þessa vexti sem Seðlabankinn er að leggja á þjóðina.

En eins og ég segi þá hef ég minni áhyggjur af mér en mörgum öðrum. Einn kunningi minn sem vinnur í verkfæraverslun sagði mér sögu af 26 ára atvinnurekanda í byggingariðnaði sem hafði haft 15 manns í vinnu. Hann hafði aldrei þurft að sækja sér verkefni og hreinlega kunni það ekki. Núna sat hann fastur í aðstæðum sem  hann kunni ekki að bjarga sér í.

Ef ég eftir 14 ára vinnu við markaðsmál og auglýsingagerð get ekki markaðssett mig í einhverja vinnuna hef ég allavega verið í röngu starfi þessi 14 ár!

Ævar Rafn Kjartansson, 7.11.2008 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband