Er íslenskt samfélag barnvænt?
27.11.2008 | 21:35
Spánverjar eru að taka við forystu í Evrópuráðinu af Svíum en hvert aðildarríkjanna 47 hefur forystu í ráðherranefnd Evrópuráðsins í sex mánuði. Svíar lögðu mikil áherslu á mannréttindi í formannstíð sinni. Meðal þess sem verður ofarlega á baugi í störfum Evrópuráðsins á næstu vikum er að hrinda af stað tveggja ára verkefni sem ber yfirskriftina ,,Byggjum barnvæna Evrópu (Building Europe for and with children). Okkur Íslendingum ætti að gefast gott tækifæri til að spegla okkur í þessu verkefni því að mikið vantar upp á að íslenskt samfélag sé barnvænt. (það er að minnsta kosti enginn barnaleikur að lifa í því). Veldur þar mestu að mínu viti óhóflegur vinnutími beggja foreldra og það bitnar á börnum og foreldrum. Mjög algengt er, eins og við vitum, að börn tveggja til sex ára séu í skóla og gæslu níu tíma á dag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:46 | Facebook
Athugasemdir
Hvað er það annað en skipuleg vanræksla foreldra þegar börn sem eru 1-2 3ja ára eru látin á stofnun 8-9 tíma á dag? Það eru skammsýn stjórnmálaöfl sem hjálpa okkur til þessa arna finnst mér. Og foreldrarnir, sérstaklega mæðurnar sjá því miður ekki hlutina í samhengi. Allt knúið áfram af óskilgreindri blindri "nauðsyn". Hver er þessi "nauðsyn" getur einhver sagt mér það?
Guðmundur Pálsson, 27.11.2008 kl. 22:37
Hjartanlega sammála þér. Það þarf virkilega að fara að taka á málum er lúta að velferð og réttindum barna á Íslandi. Hagur barna hefur farið snarversnandi á Íslandi undanfarin ár. Nýlega voru teknar í notkun fangabúðir í Mosfellsbæ ætlaðar börnum. Þessar fangabúðir ganga undir nafninu Krikaskóli. Í Krikaskóla sem er ætlaður 1-10 ára börnum er skólatíminn frá klukkan 7.30 á morgnana til klukkan 17 síðdegis. Sumarfrí er 4 vikur. Þetta er hreint og klárt viðbjóðsleg meðferð á börnum og ekkert annað. Vonum að nú verði þjóðfélag okkar hugsað uppá nýtt m.t.t. barna, þegar við byggjum á rústum þess gamla.
Egill Helgason (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 08:49
Ég las fyrst: Er íslenskt þjóðfélag banvænt? Hló svo aðeins að lesblindu minni. Las svo það sem EH skrifar um fangabúðir á Íslandi. Las þá fyrirsögnina enn einu sinni til öryggis. Barnvænt skal það vera.
Jóhann G. Frímann, 28.11.2008 kl. 09:40
Nei, Ísland er ekki barnvænt eða fjölskylduvænt þjóðfélag. Óheyrilega langur vinnutími hér gerir dvalartíma barna í leikskólum alltof langan. Fæðingarorlof hér er mun styttra en í Svíþjóð. Hér er hámarks fæðingarorlof 6 mánuðir hjá móður og svo getur faðir barnsins tekið sína 3 mánuði og hefur barn sem á foreldra í sambúð eða hjónabandi notið samvista við foreldra sína í allt að 9 mánuði. Sama gildir ekki um barn einstæðrar móður. Það á aðeins rétt á 6 mánuðum í samvistum við móður sína. Þessi börn njóta ekki sama réttar. Leikskólar taka við börnum um 1 árs aldurinn (nema einkareknir leikskólar, þeir taka aðeins yngri börn). Fæðingarorlof á að vera 12 mánuðir. Annað sem hefur verið að gerast í þjóðfélaginu að sumir feður sem hafa tilkynnt vinnuveitanda sínum um fyrirhugað fæðingarorlof hafa fengið hótun um uppsögn. Foreldrar hafa fengið leiðinlegt viðmót hjá vinnuveitanda sínum vegna veikinda barna, þó einkum mæður, hvernig sem á því stendur. Margt einstætt foreldri er í fátækragildru sem erfitt er að losa sig úr. Ljóst er að hér þarf að gera átak um að gera þetta þjóðfélag fjölskylduvænt og einnig að í því sé pláss fyrir alla, aldraða, öryrkja.
Sigurlaug B. Gröndal, 28.11.2008 kl. 10:10
Sveimér, JGFI, ég las þetta líka svona. Annars þörf áminning frá Baldri.
Greta Björg Úlfsdóttir, 28.11.2008 kl. 16:16
Góðar vangaveltur hjá þér Baldur,- og ég er að mörgu leyti sammála. En,- ég alveg hváði við fyrstu athugasemdina frá Guðmundi Pálssyni....skipuleg vanræksla foreldra....og foreldrarnir, sérstaklega mæðurnar sjá ekki hlutina í samhengi.
Hvað er maðurinn að meina ? sorrý,- ég hlýt að vera móðir sem sér ekki hlutina í samhengi.
Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 30.11.2008 kl. 23:51
Þórhildur, ég vil fara bil beggja milli ykkar Guðmundar, og segja að það er slæmt að það skuli vera orðin krafa frá þjóðfélaginu að báðir foreldrar ungra barna séu fyrirvinnur heimilisins - þannig er það í dag. Fólk á ekkert val. Það væri æskilegast að hægt væri að reka heimili þar sem ung börn eru til staðar þannig að tekjuöflun annars aðilans (föður eða móður) nægði fyrir framfærslu. Að það teldist ekki lúxus að vera heima hjá ungum börnum.
Það eru þroskasálfræðilegar ástæður fyrir því að börn eru ekki tekin inn á leikskóla fyrr en við tveggja ára aldur. Frænka mín ein sem starfar sem dagmóðir vill helst fá börnin í gæslu tiltölulega nýfædd, helst ekki eftir 6-10 mánuði, þegar þau eru farin að bera meira skynbragð á umhverfi sitt. Með því móti tengjast þau dagmóðurinn til jafns við foreldrana, og komast hjá því að upplifa sáran söknuð fyrstu dagana í gæslunni, söknuð sem ekki er hægt að vita hvaða áhrif hefur á barnssálina. Svo ung börn upplifa aðskilnaðinn þannig að foreldrarnir séu horfnir, eins og kennarinn minn orðaði það: Þau sjá mömmu/pabba ekki lengur og þar með eru þau í þeirra huga ekki lengur til. Við tveggja ára aldurinn eru börn hins vegar farin að gera sér grein fyrir að þó að mamma og pabbi fari í burtu, þá koma þau aftur.
Greta Björg Úlfsdóttir, 1.12.2008 kl. 12:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.