Vindum ofanaf íslenska flokksræðinu!
30.11.2008 | 14:48
Sennilega er flokkakerfi hættulegt í örríkjum eins og á Íslandi. Það þarf svo fáa til að ná tökum á flokksaparati. Jafnvel þrír menn sem vinna vel saman geta náð tökum á slíku. Þrjátíu: engin spurning. Það sem gerist á Íslandi er að mjög fáir nenna að starfa í flokkum. Þegar ég var í stúdentapólitíkinni voru það eiginlega bara örfáir praktiskir strákar, synir feðra sinna, sem fetuðu slóðina í Sjálfstæðisflokknum. Aðrir hirtu ekki um flokkapólítík. Þeir sem fara svo í framhaldsnám, þeir hæfustu, eru svo endanlega úr leik. Tossarnir hreiðra um sig í flokksaparötunum á meðan. Eins og ég hef bent á áður, færustu hagfræðingum okkar var yfirleitt komið fyrir í skúffu upp í háskóla og sagt að halda kjafti eða í einhverjum deildarstjórastöðum t.d. á Hagstofunni upp á sömu býtti. Þetta kerfi hefur hentað þeim sem vel sem náðu tökum á því enda hefur það ekkert breyst í hálfa öld, síðan 1959. Allar óánægjuraddir hafa verið kæfðar. Vilmundi var sparkað úr Alþýðuflokknum gleymum því ekki enda vógu hugmyndir hans að sjálfu kerfinu. Sérstaklega sú hugmynd að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu og sú hugmynd að hægt var að kjósa bæði flokk og menn líkt og er í Frakklandi. Þessar og aðrar hugmyndir Vilmundar voru framandi enda voru fáir íslenskir stjórnmálamenn sigldir þegar þarna var komið sögu. Hugmyndin að kjósa bæði flokk og menn er mjög áríðandi nú og gæti undið ofan af flokksræðinu. Það er eiginlega nauðsynlegt að kalla saman stjórnlagaþing þar sem allir þeir sem teldu erindi sitt brýnt gætu komið. Það mætti ekki lenda í krumlunum á flokkunum. Nú er lag. Ég er hræddur um að ef stjórnskipunin breytist ekkert nú breytist hún aldrei.
Og svo eigum við vitaskuld að ganga í ESB. Benedikt Jóhannsson stærðfræðingur tók saman rökin fyrir því mjög vel í Silfri Egils.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Jú, þú byggir ekki hús á sandi, flóknara er það nú ekki. Núverandi fyrirkomulag þar sem örfáir einstaklingar - ljóst og leynt - stjórna öllu er algerlega óviðunnandi. Fjölmargir mætir lögmenn og lögfróðir einstaklingar hafa komið fram undanfarið og lýst mismunandi atlögum að lýðræði í landinu, en það er einmitt vegna þessara aðstæðna sem valdníðslan líðst. Spillingin þrífst m.a. í skjóli þessa og sú staðreynd að siðlaus reköld úr bankakerfinu sem settu þjóðarbúið á hausinn eru enn að störfum á markaði - segir alla söguna.
Ég er þess að auki fullviss að verði ekki hér töluverð breyting stjórnarhátta hér munum við horfa upp á töluverðan landflótta hér næstu árin. Fólk mun ekki horfa upp á þetta aðgerðarlaust - verði þetta liðið - það kýs með fótunum og fer ef það mögulega getur.
Skuldsetning heimila er eitt - álitshnekkir þjóðarinnar og brotin sjálfsmynd annað - og í raun alvarlegra mál, sérstaklega til lengri tíma litið.
Kveðja Hákon Jóhannesson
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 16:36
Sammála því að flokksræðið er klafi á okkur öllum og vettvangur spillingar og hugmyndaleysis.
Var lengi áhugamaður um að kosið yrði til sérstaks "Stjórnlagaþings" sem væri algerlega ótengt stjórnmálflokkunum og hefði það hlutverk eitt að leggja til kerfisbreytingu og nýja stjórnarskrá - - sem þjóðaratkvæðagreiðslu þyrfti til að samþykkja. Reyndar óskiljanlegt að hafa ekki fyrir löngu breytt stjórnarskránni þannig að allar breytingar á henni skuli ganga til þjoðaratkvæðis og þá án þess að kosningar til Alþingis fari fram samhliða eða i nokkrum tengslum:
Blogga um ýmislegt á http://blogg.visir.is/bensi
Benedikt Sigurðarson, 30.11.2008 kl. 21:17
Sammála! Með kærri kveðju, G
PS - Mér hefur fundist lítið bera á kirkjunni í þesu öllu saman. Er hún ekki öflugt og virkt samfélagsafl eða eru þetta bara klerkar hér og þar að reikna út "dúntekjur" sínar á árinu?
Gunnlaugur B Ólafsson, 1.12.2008 kl. 01:09
Í Þýskalandi er kosningafyrirkomulagiðlíkt og í Frakkalndi að þar er bæði kosinn flokkur eða liti og eins sá stjórnmálamaður sem kjósandi ber mest traust til. Þannig fékk Genscher í Frjálsa demókrataflokknum ætíð mikið fylgi þóflokkurinn fengi yfirleitt lítið fylgi enda n.k. Framsóknarflokkur hjá þýskum.
Genscher var fyrir Þjóðverja n.k.Steingrímur Hermannsson sem hefur reynt að bera klæði á vopnin þegar vandræði steðja að í Framsóknarflokknum en án nokkurs teljandi árangurs. Þar er allt í kalda koli enda treystir varla nokkur neinum í því vargagreni.
Svo þegar Genscher dró sig í hlé hafa áhrif þessa flokks verið óveruleg í þýsku þjóðlífi og sakna fáir.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 1.12.2008 kl. 09:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.