Af Jesú Kristi, bókstafstrúarmönnum og jólasveinum!
22.12.2008 | 09:49
Mjög misjafnt er hvort að kristnir menn trúa fæðingarfrásögu Biblíunnar bókstaflega eða ekki. Fyrir sumum er hún sönn í smáatriðum. Fyrir öðrum helgisögn, tjáning þess fallega boðskapar að Guð sendi son sinn í heiminn. Fæstir kristnir menn trúa bókstaflega hverju orði í Biblíunni. Fyrst og fremst leggja þeir upp úr þeim textum í Gamla Testamentinu þar sem sagt er fyrir um Jesú Krist og texta í Nýja Testamentinu túlka þeir út frá kærleiksboðorði Krists. Þá hafa guðfræðingar reynt að finna út hvað er haft beint eftir Jesú Kristi og lagt mikið upp úr slíkum textum.
Alltaf eru til bókstafstrúarmenn svokallaðir sem trúa öllu eins og nýju neti, hverjum einasta texta í Biblíunni. Bókstafstrúarmenn geta verið sjálfum sér og öðrum hættulegir.
Fréttir um að anglikanskir prestar hafi áhyggjur af því að kristnir menn í Bretlandi trúi ekki hverju orði í Biblíunni eru í besta falli misvísandi. Anglíkanskir prestar flestir hverjir eru ekki bókstafstrúarmenn. Þeir geta hins vegar haft áhyggjur af því ef bresk ungmenni þekkja jólasveinana betur en Jesúbarnið. Það kemur þeim þó varla mikið á óvart.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ef menn ætla að velja einungis það úr Biblíunni sem rímar við þeirra eigið siðferði og viðmið, til hvers þá að vera með þessa bók uppi á borðum yfirleitt? Dugir þá ekki bara þeirra eigið siðferði og viðmið?
Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 12:07
Það sem ég á við er: Hvers vegna þarf að flækja meiningum um hvað er gott siðferði og viðmið saman við nöturlegan heimsendaboðskap og aðrar ranghugmyndir, þegar okkar eigin gagnrýna hugsun nægir fullkomlega? Ætli svarið við því sé ekki það að þú sem prestur ert væntanlega bókstafstrúar á meiningar heimsendaköltsins sem þú tilheyrir, trúir á syndabyrði og syndafórn, upprisu, kraftaverk og dómsdag. Í það minnsta geturðu kinnroðalaust boðað þetta öðrum eins og ekkert sé, jafnvel saklausum börnum.
Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 12:18
Ég veit ekki hvaða frétt þú hefur í huga en snýst málið ekki um að skv. nýlegri könnun trúa 70% Breta ekki á jólaguðspjallið? M.ö.o. þeir trúa ekki á meyfæðinguna, vitringana, manntalið, förina til Betlehem og svo framvegis. Allt eru þetta náttúrulega sögur sem við vitum í dag að eru ekki sannar. Í raun þykir mér fréttnæmt ef 30% Breta trúa því að þessar sögur séu sannar.
Það væri fróðlegt að vita viðhorf íslendinga til þessa. Kirkjan kennir börnum þetta eins og um sagnfræði sé að ræða þrátt fyrir að prestar hafi allir lært annað í námi sínu.
Matthías Ásgeirsson, 22.12.2008 kl. 12:20
Ég hefði mátt leita áður en ég kommentaði, hér er frétt Rúv.
Matthías Ásgeirsson, 22.12.2008 kl. 12:22
Já, það er rétt Matthías. Færsla mín er út frá þessari frétt! Gleðileg jól Matthías og Birgir. kv. B
Baldur Kristjánsson, 22.12.2008 kl. 12:33
Lesið 2 Timoteus 3k 16-17
Kristján Sigmundsson, 22.12.2008 kl. 13:17
Þessi staður er stundum notaður til að afvegaleiða saklaust fólk. Í fyrsta lagi þá er ekki víst að þessi ritningarstaður sé innblásinn af Guði heldur manni og þá hefur hann enga guðlega vigt. Í öðru lagi segir textinn að sérhver ritning sem sé innblásin af Guði sé nytsöm.....þó það nú. Það þýðir ekki að allt sé bókstaflega satt og segir heldur ekki hvaða ritninga er verið að vísa til. Best er að halda sig við túlkunarhefð kirkjunnar í bráðum 2000 ár og forðast þar með alla vitleysu. Fátt er eins hættulegt og túarofstæki. kv. B
Baldur Kristjánsson, 22.12.2008 kl. 13:35
Aðeins þrem öldum eftir fæðingu Frelsarans var kirkjunnar mönnum vel ljóst að ekki bæri að taka orð Biblíunnar bókstaflega. Það er því NÝLUNDA og raunar hreinn misskilningur og gott ef ekki útúrsnúningur á hinni helgu bók að taka hvert orð eins og það stendur á prenti.
Baldur Hermannsson, 22.12.2008 kl. 13:39
Kristni á í vök að verjast. Kristin trú byggir á Biblíunni og að frelsarinn hafi komið í heiminn lifað og dáið fyrir syndir mannanna, síðan risið upp frá dauðum. Erfitt að kallast kristinn og trúa þessu ekki. Trúarjátning þjóðkirkjunnar er mjög góð lýsing.
Palli (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 14:10
Hér ertu ekki í trúvörn, séra Baldur, heldur eins og stundum áður: með árás á trúna. Leitt að horfa upp á það hjá lútherskum klerki.
Nú skuldarðu safnaðarbörnum þínum skýringu á því, hvernig þú með loðnum hætti varpar rýrð á jólaguðspjöllin, þannig að menn vita ekki, hvað þeir eiga að taka þar trúanlegt, þ.e.a.s. ef einhver tekur mark á þér. Ertu t.d. með þínum almennu orðum og með því að þegja vegna fullyrðinga Matthíasar vantrúarmanns að gefa það hér út, að þú rengir bæði meyfæðinguna og manntalið?
Með þessum hætti stendur þú ekki með kristnu safnaðarfólki þínu, ekki frekar en þú stendur með bændafólki í prestakallinu þegar þú ræðst á bændaforystuna í þessari síðustu grein þinni og það jafnvel þegar málstaður bændasamtakanna er jafnframt málstaður sjálfstæðs og fullvalda Íslands.
Raunalegt er þetta, Baldur!
Jón Valur Jensson, 22.12.2008 kl. 21:14
Gott hjá þér Jón Valur, einhver þarf að tukta villutrúarklerkana og það þarf að gera það mildilega og af föðurlegu ástríki, því þrátt fyrir allt eru þeir Guðs börn og einn daginn snýr glataði sonurinn heim til pabba.
Baldur Hermannsson, 22.12.2008 kl. 22:02
Það er erfitt að átta sig á svona átökum hjá upplýstu fólki. Sr. Baldur skammar réttilega bændaforustuna fyrir að fara með ofsa gegn nýjum hugmyndum um stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi. Hann notar hins vegar dálítið svakaleg orð og það er til skaða. Þegar hann svo býður upp á að sá, sem sættist við krossinn, þurfi ekki að trúa jólaguðspjallinu bókstaflega, þá ætlar allt vitlaust að verða.
Á árunum fyrir stríð kom hingað norskur guðfræðiprófessor og vakningaprédikari, dr. Ole Hallesby, á vegum kristinna stúdenta. Um þessa heimsókn var nokkuð skrifað í þjóðviljann og skrattinn málaður á vegginn, ef svo má að orði komast. Þessum skrifum var mótmælt af hófsömum vinstrimönnum og bent á, að það væri ekki siður Íslendinga að taka á móti gestum með grjótkasti í flæðarmálinu. Þótti það vel mælt.
Nýjar hugmyndir eru gestir. Svo á við um bæði aðild að Evrópusambandinu og sagnfestu jólaguðspjallsins. Þeim ber að taka opnum örmum og gefa umræðunni tóm til þess að andstæð rök fái sanngjarna úrvinnslu. Það hefur enginn sigur í rökræðum um kristindóminn og allra síst með stóryrðum á borð við "villutrúarklerkar". Trúin byggir ekki á rökum.
Umburðarlyndi og kærleikur hafa unnið kristindómnum braut með öðru. Páll postuli var vafalítið með gáfuðustu mönnum sögunnar. Hann skildi mætavel, að nýjum siðum varð ekki þröngvað upp á fólk, sem hafði ekki skilning á því, sem um var að ræða. Né heldur talaði hann niður til þeirra, sem hann var að fá á sitt band. Hann gat verið harður í horn að taka en sú harka var bundin við þá, sem hann taldi sína liðsmenn og félaga. Og aldrei var kærleikurinn langt undan eins og dæmin sanna.
Stundum er eins og okkur fari ekkert fram.
Sigurbjörn Sveinsson, 22.12.2008 kl. 23:50
Óttalega er þetta nú væmið, satt best að segja. Sjálfur Frelsarinn barði menn þegar það átti við og ekki sparaði hann stóru orðin ef svo bar undir. Umburðarlyndið og kærleikurinn .....ahemm, sverðið og eldurinn hafa reyndar líka unnið Kristindómnum braut en það er önnur saga.
Baldur Hermannsson, 22.12.2008 kl. 23:56
Engan barði kristur, Baldur minn Hermannsson, og gerði það ekki þegar hann rak víxlarana og sölumennina úr musterinu (Mt. 121.12 o.áfr.).
En nokkuð "væmið" er þetta, já, hjá Sigurbirni. Svo sannarlega vildi Páll, að Grikkir lærðu nýja siðu, því að ekki er kristindómurinn þannig, að hann láti menn ósnerta af boðskap sínum, bæði gleðitíðindunum um Krist og siðaboðskap hans.
Sigurbjörn, Baldur skammaði bændaforystuna ranglega, ekki "réttilega". Þeir vita þar sem er, að EBé-aðildin hefur leikið finnska bændur mjög grátt; ekki yrði það betra hér, og ekki eru þetta menn, sem hafa geð í sér til að þiggja bætur og styrki, þangað til skrúfað hefur verið fyrir sjóðina eða uppgjafabændunum fengin allt önnur vinna. Og þessar "nýju hugmyndir um stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi," sem þú svo nefnir, eru ekkert annað en uppgjafarhugmyndir þess efnis, að fullveldi sé ekki þess vert að hafa það og að hugmyndir sjálfstæðisleiðtoga okkar allt frá 19. öld til loka landhelgisstríðsins séu ekki þess verðar að berjast fyrir þeim hugsjónum né þeim gæðum, sem þær hafa veitt okkur, þ.e. fullt vald yfir auðlindum okkar og löggjöf.
Ásælnishugmyndin um innlimun okkar í Evrópubandalagið, sem er um 1560 sinnum fólksfleira en við erum, er enginn "gestur [sem] ber að taka opnum örmum" í þessu landi, heldur ber að spyrna við fótum og standa vörð um það, sem áunnizt hefur með langvarandi og þrautseigri baráttu. Lágmark væri í þessum mánuði 90 ára fullveldisafmælis okkar, að menn sýndu því einhverja virðingu.
Þú velur ekki gott dæmi fyrir séra Baldurs málstað eða málstaðarleysi, þegar þú nefnir Hallesby, því að hann var heittrúaður maður á Biblíuna og boðskap hennar.
Og hugmynd Baldurs um niðurskurð á trú okkar á jólaguðspjallið er fjarri því að vera ný af nálinni, þótt þú virðist telja svo; þetta var 18. og 19. aldar 'speki', studd meintum rökum, sem t.d. hvað manntalið áhrærði afsönnuðust þegar fyrir lok 19. aldar.
Líberal-guðfræðin er um margt búin að ganga sér til húðar og heldur seint í rassinn gripið nú að endurnýja söguskekkjur eins og þessar, meira en öld eftir að þær voru hraktar út í hafsauga. Þar með er ekki sagt, að hinn valkosturinn sé SÚ "bókstafstrú", sem oft er teiknuð upp af líberal-guðfræðingum, með þeirra eigin túlkun á því hvað hún þýði.
Með þeirri góðu ósk, að menn hugleiði þessi mál ekki flýti, heldur af íhygli, og sér í lagi, að menn ákveði sig ekki í algeru bráðræði á einungis 2–4 mánuðum um innlimun í EBé eftir að hafa verið um 180 ár að berjast fyrir okkar áunnu fullveldisréttindum.
Jón Valur Jensson, 23.12.2008 kl. 00:44
1. klausan átti auðvitað að vera þannig:
Engan barði Kristur, Baldur minn Hermannsson, og gerði það ekki þegar hann rak víxlarana og sölumennina úr musterinu (Mt. 21.12 o.áfr.).
Jón Valur Jensson, 23.12.2008 kl. 00:46
Vafalaust er þetta rétt hjá þér en hér togast á bókfestan og barnatrúin - ég sé Krist alltaf fyrir mér löðrunga braskarana og berja þá með hrísvendi. Ég var alltaf hrifinn af þessari sögu.
Baldur Hermannsson, 23.12.2008 kl. 00:55
Fræddu okkur endilega um þessa afsönnun.
Nú, hann hefur þá bara vinsamlegast beðið þá um að fara?
Hjalti Rúnar Ómarsson, 23.12.2008 kl. 06:43
Þeir búast við því að yfir 90% fækkun verði í kirkjum á englandi á næstu árum
Það má eiginlega segja að ísland ásamt einhverjum afríkuríkjum séu á toppnum með að bygga nýja tilbeiðsluhallir og pungaundir geimgaldrakarlinn.
Meira að segja í usa hafði kreppan EKKI áhrif á kirkjusókn... miðað við fréttir þþa er aukning eingöngu á íslandi og kannski zimbawbe
DoctorE (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 08:14
Það er greinilega engin kreppa í trúnni eða hjá "boðberum antíkrists" hér í rétt fyrir jólin. Hanukka Sameach og Gleðileg Jól. Elskið friðinn!
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 23.12.2008 kl. 08:28
Ég vil einvörðungu geta þess svona til þess að ég haldi embættinu, að ég tel mig standa traustum fótum í kristinni túlkunarhefð á Biblíunni, enda ætíð verið hallur undir allt hefðbundið og hófsamt. Hins vegar tel ég augljóst að fæðingarfrásagan er ekki sagnfræðileg frásögn en hún hefur efalaust átt sér stað í tíma og rúmi. Þorláksmessukveðjur. BK
Baldur Kristjánsson, 23.12.2008 kl. 09:31
veðjur
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 23.12.2008 kl. 11:00
Baldur, mér finnst að þú megir nú gefa Jóni Val aðeins betra svar :)
Þú segir að fæðingarfrásagan (Ekki frásagnirnar í fleirtölu? Þær eru jú tvær) sé ekki sagnfræðileg frásögn en að hún hafi samt átt sér stað í tíma og rúmi. Nú skil ég (og ef til vill ekki heldur Jón Valur) hvað þú átt nákvæmlega við. Trúir þú því að:
Við fæðingu Jesú hafi fjöldi engla birst og sungið lofsöngva?
Að skötuhjúin hafi þurft að fara til Betlehems vegna manntalsins?
Að Heródes hafi drepið börnin í Betlehem og að fjölskyldan hafi flúið til Egyptalands?
Og svo framvegis....
Ég held (og er viss um að Jón Valur er sammála mér í því) nefnilega að samkvæmt þessari blessuðu túlkunarhefð hafi allt þetta gerst "í tíma og rúmi"
Hjalti Rúnar Ómarsson, 23.12.2008 kl. 11:07
JVJ virðist trúa því að STJARNA hafi komið og staðnæmst fyrir ofan eitthvað hús.
Hann telur líklega að stjörnur séu svona eins og á toppnum á jólatrjám.... enda héldu menn í denn að guddi breiddi teppi yfir hálfkúlu yfir jörðinni + að hann hengdi stjörnur á hálfkúluna :)
Ég spái því að á næstu áratugum verði kristni algerlega out í siðmenntuðum heimi, að það verði bara svona Omega dæmi fyrir einstaka úrbræddar fyllibyttur
DoctorE (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 11:09
Páfi telst örugglega einn af þeim mönnum sem eru hættulegir og ber mikla ábyrgð...sjá til dæmis hér...
Merki samkynhneigðra, regnbogafáninn Reuters
Hópnauðgun álitin hatursglæpur
Bandarískri konu var nauðgað af fjórum karlmönnum nýverið í Richmond á San Francisco svæðinu. Er talið að um hatursglæp sé að ræða en konan er samkynhneigð. Segir lögreglan atburðinn skelfilegan og eftirköstin, bæði andlega og tilfinningalega, hræðileg fyrir konuna.
Ráðist var á konuna er hún steig út úr bifreið sinni. Nauðgaði einn mannanna henni með aðstoð félaga sinna. Þegar sást til mannaferða drógu þeir konuna inn í bílinn og óku með hana að yfirgefinni byggingu. Þar nauðguðu þeir henni ítrekað og stálu síðan veski hennar og óku á brott í bifreið hennar. Fannst bifreiðin yfirgefin tveimur dögum síðar.
Konan er í sambúð með annarri konu og er með merki samkynhneigðra, regnbogafánann, á bifreið sinni.
Samtök samkynhneigðra í Bandaríkjunum segia að hatursglæpum gagnvart fólki vegna kynhneigðar hafi fjölgað í Bandaríkjunum. Árið 2006 voru slíkir glæpir 1.415 talsinseð 1.460 árið 2007, samkvæmt upplýsingum frá bandarísku alríkislögreglunni, FBI.
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 23.12.2008 kl. 11:37
Bottom line: Trúarbrögð eru helsti óvinur mannréttinda og jafnréttis.
Sá sem neitar þessu... er bara í afneitun
DoctorE (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 12:38
Anna, þetta umræðuefni þitt er gersamlega utan við efni þessarar vefslóðar.
Svo tek ég fram, að ég svara aðeins þeim, sem svaraverðir eru.
Sr. Baldur, þessi setning þín:
er ágæt og gott að sjá þessi lokaorð þín þar, ég fagna þeim og tek þig í sátt! Eins og sagnaþættir íslenzkir eru yfirleitt ekki beinlínis "sagnfræði", eru þeir samt iðulega samtímaheimildir, frásagnir sjónar- og heyrnarvotta eða þeirra, sem rituðu upp eftir þeim eða stóðu þeim nærri. Þannig er um frásagnirnar í kringum fæðingu Jesú. Og þótt læknirinn Lúkas hafi haft sagnfræðilegan metnað við samantekt guðspjalls síns og Postulasögunnar, eins og sést einkum á Lúk. 1.1–4 o.áfr., þá er hann þarna með frásögn, ekki beinlínis sagnfræði, og það frásögn sem ber með sér að vera komin frá móður Jesú – en frásögn Mattheusarguðspjalls ber þess merki með hliðstæðum hætti að eiga uppruna sinn hjá Jósef, fóstra Jesú. (Rökstyð þetta síðar.)
Hjalti, nei, það er rangt, að Jesús hafi "bara vinsamlegast beðið þá [víxlarana og sölumennina í musterinu] um að fara" – hann rak þá út, eftir að hafa velt um söluborðum þeirra, og nógu alvarlegt hefur það verið í þeirra augum, en hann beitti þá sjálfa ekki barsmíðum.
Kem með afsönnun afneitunar möguleikans á manntalinu, þegar ég kemst til þess eftir aðkallandi verk. En heimildir, sem fundust seint á 19. öld, sýna fram á það, sem ég var að ræða í þessu sambandi, og hefur fornfræðingurinn Sir Wm. Ramsay átt sinn góða þátt í að leiða þetta í ljós.
Jón Valur Jensson, 23.12.2008 kl. 15:43
...væmni...afneitun. Þetta eru gildishlaðin orð, sem engu skila og engu breyta.
Þjóðin ætlar að máta sig við Evrópusambandið. Til þess að geta það þarf hún að komast með flíkina í mátunarklefann. Það er komið að þessu. Allt of lengi hefur hún verið snuðuð um vitræna umræðu um þessi mál. Má vera að aðild að Evrópusambandinu sé okkur ekki til góðs. Má vera að þjóðin hafni aðild. Það verður þá ekki sagt að hún hafi ekki fengið tækifæri til að velja.
Sigurbjörn Sveinsson, 23.12.2008 kl. 15:46
Jón Valur:
Mér finnst þú full bjartsýnn varðandi viðhorf Baldurs. Ég efast um að hann sé jafn trúaður á sannleiksgildi þessara frásagna og þú virðist vona. En ég held að við verðum bara að bíða eftir svari frá honum.
Þannig að viðbrögð víxlaranna og sölumannanna við þessum skemmdarverkum Jesú voru bara þau að labba kurteisislega í burtu frá sölubásunum sínum?
Maður ætti kannski að prófa að gera þetta inn í einhverri verslunarmiðstöð, velta búðarborðum og henda peningakössum á gólfið. Ætli afgreiðslufólkið yrði ekki jafn almennilegt og það var við Jesú og myndi bara labba í burtu?
Hjalti Rúnar Ómarsson, 23.12.2008 kl. 15:53
Það er erfitt að svara þessu með fæðingarfrásöguna öðruvísi en svo að hún lýsi eflaust atburðum sem hafa gerst. Jesúbarnið fæddist og ég sé enga ástæðu til að draga það í efa að það hafi gerst í Betlehem. Ég sé enga ástæðu til að efast um að að barnamorðin hafi átt sér stað. Við vitum einnig frá upphafi Lúkasarguðspjalls að Lúkas guðspjallamaður ,,athugaði þetta gaumgæfilega allt frá upphafi" sem hefur m.a. falist í því að hann hefur rætt við þá sem nær stóðu atburðum um hann. Við vitum líka að aðferðir sagnfræðinnar eins og við þekkjum þær í dag voru ekki til enda sjáum við á frásögninni að Lúkas hefur metið fegurð og innihald þess sem hann var að segja umfram það sem við í dag myndum kalla að leggja áherslu á sagnfræðilega nákvæmni. Um þetta allt saman hafa verið ritaðir miklir og vísindalegir doðrantar sem allir hefðu gott af að kynna sér en breyta þó engu um aðalatriðið...að Jesú Kristur frelsari mannanna kom í heimninn.
þeim sem ekki vilja heita á heilagan Þorlák skal bent á Strandarkirkju. það hefur gefist vel að heita á hana enda Maríukirkja að fornu. Kristnir menn urðu þess fljótt áskynja að ekki dugði alltaf að heita á Guð og Jesú - ekki að furða- þeir hlutu að vera uppteknir. Því var brugðið á það ráð að heita á guðsmóðurina - hún hlyti að eiga greiða leið að syninum.
Ég ráðlegg þó fólki að leysa úr sínum málum með veraldlegum aðferðum ef kostur er, þó ekki væri nú.
Baldur Kristjánsson, 23.12.2008 kl. 16:42
Tek undir með JVJ í anda jólanna "að ég svara aðeins þeim, sem svaraverðir eru.
Baldur, sendi innilegar hátíðarkveðjur til þín og fjölskyldu!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 23.12.2008 kl. 19:33
Anna, minnumst þess að þeir sem eru síðastir skulu koma fyrstir. Þess vegna ættir þú einkum og sér í lagi að svara þeim sem eigi eru svarsins verðugir.
Baldur Hermannsson, 23.12.2008 kl. 19:58
BH...þetta kallast "írónía"!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 23.12.2008 kl. 20:21
Anna, þetta hljómaði vissulega eins og írónía, og er kannski írónía - en ertu til í að taka íróníuna alvarlega, þótt ekki sé nema í gamni? Hvernig lítur dæmið út þá?
Baldur Hermannsson, 23.12.2008 kl. 20:55
Já, mér tókst ekki í fljótu bragði að finna könnuni sjálfa - en nóg af fréttum um hana.
Oft með svona kannanir, erfitt að festa fingur á þeim sérstaklega er blöðin fara að velja úr og setja efnið í umbúðir.
"Most Britons do not believe the Biblical story of the birth of Jesus, a study has found"
"Young people were particularly doubtful about the nativity, with 78 per cent of 16-24-year-olds saying they were not convinced of its historical reliability."
"Overall, 70 per cent were sceptical of the baby's birth in a manger to a virgin mother, according to the poll of 1,000 people by the British Marketing Research Bureau.
"Almost a quarter of those questioned who described themselves as Christians admitted they did not believe certain aspects of the Bible's teaching about Jesus."
Ha ? 1/4 kristinna trúir ekki vissum atriðum er biblían segir um Jesú.
Þarna vekur athygli hve mikil lækkun er frá að trúa ekki meyfæðingunni og til hlutfalls þeirra sem telja sig kristna en trúa ekki vissum atriðum. 70%-25%
http://www.telegraph.co.uk/topics/christmas/3868265/Most-Britons-do-not-believe-in-the-nativity-survey-shows.html
Þarna verður held eg að hafa í huga að samkv. opinberri statistik eru um 70% breta kristnir en aðrar kannanir hafa gefið til kynna að hlutfallið sé mun lærra. Jafnvel um 50%.
Þá er náttúrulega eðlilegt að þeir spekúleri lítið í fæðingu Jesú.
Annars sýndi önnur könnun að 27% vissu ekki að Betlehem var fæðingarstaður Jesú og 36% 18-24 ára.
(Annars er ég persónulega mjög efins um sagnfræðilegan áræðanleika fæðingarsögunnar. Mér finnst sumt benda til að um sé að ræða einhverskonar trúarlega tákn eða líkingasögu. Einhverja hefð í trúarlegum frásögnum sem er löngu gleymd (en þó etv hægt að rekja sig eftir handahófskenndum vísbendingum til að öðlast skilning á, hvað þeir sem skrifuðu voru virkilega að fara með sögunni. En það breytir því ekki að sagan er góð. Alveg mögnuð náttúrulega og gefur mann blástur bæði innra og ytra.)
Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.12.2008 kl. 23:55
Baldur, er eitthvað í frásögnunum í Mt og Lk af fæðingu Jesú sem þú heldur að hafi ekki átt sér stað?
Hjalti Rúnar Ómarsson, 24.12.2008 kl. 03:09
Sæll Hjalti! Ég held að þetta hafi allt gerst með einum eða öðrum hætti. Annars er frásögn aldrei það sama og atburður eins og við vitum. Bestu kveðjur. B
Baldur Kristjánsson, 24.12.2008 kl. 09:54
Trúirðu þá því að allt það sem höfundar Mt og Lk segi að hafi gerst við fæðingu Jesú hafi í raun og veru gerst? Ég á bara afskaplega bágt með að trúa því.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 25.12.2008 kl. 15:02
Heil og sæl öll, og gleðileg jól.
Ég lenti í alvarlegri tölvubilun og hef ekki getað bloggað síðan, eins og sjá má á vefsíðu minni, en þetta er 1. athugasemd mín á netinu eftir þá bilun og get ekki enn skrifað nýjar vefgreinar.
Þakka vil ég umræðuna (öllum nema D...E sem getur ekki hætt að guðlasta af sjálfsdáðum; bæn og fasta mun það eina, sem rekið fær þann anda úr honum – já, bæn fyrir honum).
Hjalti Rúnar: "Þannig að viðbrögð víxlaranna og sölumannanna við þessum skemmdarverkum Jesú voru bara þau að labba kurteisislega í burtu frá sölubásunum sínum? – Maður ætti kannski að prófa að gera þetta inn í einhverri verslunarmiðstöð, velta búðarborðum og henda peningakössum á gólfið. Ætli afgreiðslufólkið yrði ekki jafn almennilegt og það var við Jesú og myndi bara labba í burtu?
SVAR: Musteri Guðs var ekki "verzlunarmiðstöð" nema fyrir þá, sem voru að misnota það, og margir munu hafa verið eða orðið sér meðvitandi um það, þegar Jesús benti á þá misnotkun, enda studdi hann harða gagnrýni sína með rökum frá spámönnunum. "... Og hann kenndi þeim og sagði: "Er ekki ritað: "Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir" [= Jesaja 56.7: "Því að hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir"]. En þér hafið gjört það að ræningjabæli" (Mk. 11.17).
Þá er einnig á framhald þessa vers að líta: "Æðstu prestarnir og fræðimennirnir heyrðu þetta og leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum. Þeim stóð ótti af honum, því að allur lýðurinn hreifst mjög af kenningu hans." – Af þessu má ráða, að hafi sölumangararnir í musterinu viljað beita sér gegn Kristi, hafi þeir ekki átt stuðning hjá alþýðu og ekkert megnað vegna fylgis hennar við kenningu Jesú, en hins vegar hafi þeir átt "skilningi" að mæta hjá Faríseum og fræðimönnum, þeim sem að endingu tókst að láta dæma hann til dauða – í alræmdasta dómsorði mannkynssögunnar.
Um annað, sem Hjalti hefur innt mig eftir á vefslóð þessari, mun ég síðar skrifa hér eða á eigin vefsetri, enda er ég að skrifa þetta við óviðunandi aðstæður.
Með kveðju til þín, séra Baldur – mér lízt vel á seinni svör þín líka!
Jón Valur Jensson (IP-tala skráð) 26.12.2008 kl. 03:02
Jón Valur:
Ég minntist á verslunarmiðstöð eingöngu til þess að reyna að koma með sambærilegt dæmi úr nútímanum.
Þannig að þeir fóru af því að þeim fannst þessi "rök" Jesú vera svo sterk?
Þannig að kaupmennirnir og víxlararnir þorðu ekki að stöðva Jesú í því að rústa markaðinum af því að þeir voru hræddir við fólksfjöldann?
Hjalti Rúnar Ómarsson, 27.12.2008 kl. 19:16
Já, meðal annars, Hjalti, er nokkuð erfitt að skilja það? En gleymdu því ekki, að þess er getið um Krist, að hann "talaði eins og sá, sem valdið hafði," og svo sannarlega gerði hann það í þessum kringumstæðum.
Svo þarftu að átta þig á því, að nútíma-stórmarkaður er ekki "sambærilegt dæmi" við það, sem þarna var um að ræða. Réttur samanburður væri að tala um markað inni í íslenzku kirkjurými. Kaupmennirnir voru ekki þarna á sínum rétta leikvangi, heldur yfirtroðslumenn gegn heilagleik musterisins.
Jón Valur Jensson (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 02:33
Það er alls ekki erfitt að skilja það að Jesús hafi haft þurft (vopnaðan?) múg til þess að geta framkvæmt þetta. En ég efast stórlega um að musterisverðirnir og Rómverjarnir hefðu bara leyft honum að stöðva alla verslun þarna. Það er bara mjög fjarstæðukennt.
Jújú, það er sagt í áróðursriti kristinna manna. En heldurðu virkilega að hann hafi verið svo mælskur eða virst vera svo mikill maður að kaupmennirnir hafi bara farið í burtu.
Stórmarkaður er auðvitað ekki fullkomlega sambærilegt dæmi, en nógu líkt til þess að bera saman. Réttur samanburður væri að tala um markað inní risastóru íslensku kirkjurými, hliðin á aðalstöðvum innrásarhers sem kærir sig ekki um læti.
Og ég bíð enn eftir því að þú útskýrir þetta:
Hjalti Rúnar Ómarsson, 30.12.2008 kl. 21:56
Þú gengur fram hjá því, sem ég sagði, Hjalti, um að fjöldinn (lýðurinn) hafi fylgt Jesú að málum – sem merkir þarna trúlega: í þessu efni, varðandi þá verzlunarvæðingu musterisins, sem vel að merkja hefur sennilega aukið tilhneigingu manna til sýndarmennsku í fórnargjöfum, sbr. orð Jesú sem snerta það mál beint og benda mönnum (ekki sízt fátækri alþýðu) á, að eyrir ekkjunnar, gefinn af hennar örbirgð, sé verðmætari í augum Guðs en fórnargjafir hinna, sem vaða í auðæfum. Gagnrýni Jesú á sölumangið er ennfremur mjög sterkt vegna tilhöfðunar hennar til trúarafstöðu manna – og þetta var trúarvettvangur – og vegna þess að orð hans náðu líka greinilega eyrum manna (ekkert minna en slík merking liggur sennilega í orðunum: "hann talaði eins og sá, sem valdið hafði"). En hvergi hef ég haldið því fram, að verzlunarprangið hafi hætt gersamlega í musterinu upp frá þessu vegna íhlutunar Jesú. Svo sannarlega gerðu Gyðingar ekki þær gagntæku umbætur í trúarlífi sínu og Guðsdýrkun, að þær kæmu í veg fyrir þá eyðingu musterisins um fjórum áratugum síðar, sem Jesús spáði fyrir um.
Lítill umgangur mun um þessa vefsíðu nú orðið, og sjálfur er ég að blogga hér við erfiðar aðstæður á gamaldags tölvu. Mun skrifa um hitt málið, sem þú talar um í lokin, eftir að ég hef aftur komizt í stjórnborð Moggabloggs míns.
Og gleðilegt ár, Hjalti sem aðrir!
Jón Valur Jensson, 1.1.2009 kl. 22:17
Nei, ég geng ekkert fram hjá því.
Ég sagði það heldur ekki.
Ég bíð spenntur, en er ekki bjartsýnn á að þú munir hafa tíma til þess að skrifa þessa færslu.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 2.1.2009 kl. 02:56
Ég sé, að þú spyrð í 3. síðasta innleggi þínu: "Þannig að kaupmennirnir og víxlararnir þorðu ekki að stöðva Jesú í því að rústa markaðinum af því að þeir voru hræddir við fólksfjöldann?" – Svarið er líklega játandi, sem og vegna annarra hluta sem ég hef tekið fram, en ekki þannig, að þessir sérdrægu menn hafi ekki vogað sér að troða sölumennsku sinni aftur inn í musterið síðar.
Færsluna umspurðu hyggst ég setja á eigin vefsetur, Hjalti, þegar ég kemst til þess (tölva mín er biluð); efast um, að þá verði opið hér lengur.
Jón Valur Jensson, 2.1.2009 kl. 13:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.