Heitum á heilagan Þorlák!
23.12.2008 | 09:52
Í dag er Þorláksmessa heitin eftir Þorláki biskupi Þórhallssyni sem var biskup í Skálholti á 12. öld og Þorlákshöfn heitir eftir, en Þorlákshöfn er lítill en fallegur bær við suðurströnd Íslands. Sagan segir að Þorlákshöfn sem þá var útróðrabýli, hafi heitið Elliðahöfn en bóndinn og áhöfn hans hafi heitið því að nefna bæinn eftir Þorláki helga næðu þeir landi en vegna landnyrðings hrakti þá fjær landi með hverju áratogi (minnir á þá sem eru að borga af húsnæðislánum, fólk færist fjær því að greiða þau upp með hverri afborgun, hvernig væri að heita á Þorlák helga?). Ekki þarf að botna söguna því bærinn heitir nú Þorlákshöfn.
Þorlákur var sem sagt góður til áheita og varð enda dýrlingur. Skemmtilegasta áheitasagan af honum er sú er hann var á vísitasíuferð fyrir Austurlandi á bátskektu og gekk ferðin seint vegna mótvinds. Þeir húskarlar biskups réru þó eins og þeir gátu. Rennir þá fram úr þeim bátur á mikilli ferð mót öldum og vindi og skilja þeir biskup og biskupsmenn ekki hverju sætir og kalla til þeirra: Hvernig farið þið að þessu og svarið greindu þeir með naumindum þegar bátur skreiðaði hjá: Við hétum á Þorlák helga - hvað annað?
Heita má á heilagan Þorlák t.d. með því að heita á Þorlákskirkju.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:21 | Facebook
Athugasemdir
Ertu að segja að fólk eigi að gefa Þorlákskirkju pening svo því farnist betur í lífinu? Finnst þér það ekkert vafasamt?
Matthías Ásgeirsson, 23.12.2008 kl. 10:07
Gott að heita á Þorlák, dýrðling bruggarans ekki satt? Jóla og hátíðarkveðjur Baldur. gb
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 10:29
Þetta er bara ósvífið.
Ertu að hvetja fólk til að gefa kirkjunni þinni pening til þess að óskir þeirra rætist?
Þú ættir frekar að heita á heilaga Dymphönu frekar en brugg-dýrðlinginn Þorlák. Hún er verndardýrðlingur þeirra sem þjást af ranghugmyndum.
Teitur Atlason (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 11:19
úgga búgga... er ríkið nú farið að selja óskir
DoctorE (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 13:54
Takk fyrir fallega hugvekju, síra Baldur. María mey er líka góð til áheita og hún stingur aldrei neinum tilmælum undir stól eins og sumir skriffinnar gera. Mér hefur líka reynst vel að ræða við vin minn Heilagan Hieronymus. Þurfir þú að ráðast í erfitt og viðamikið ritverk þá er hann rétti dýrlingurinn. Þorlákur er auðvitað mjög góður og það er sagt að hann bregðist fljótt við - en hann hefur þótt dálítið dýr.
Baldur Hermannsson, 23.12.2008 kl. 14:30
Fyrir um einu ári lauk listakonan Sigga á Grund við gerð útskorinnar styttu af Þorláki helga. Styttan er um 47 sm. há og skorin út úr sérvöldum kjörviði. Þeir sem þekkja til Siggu á Grund vita að hún er útskurðarmeistari sem hefur gert marga kosta- og kjörgripi sem bera vitni nákvæmni, einstöku handbragði og listrænu innsæi. Við Sigga erum fyrrum sveitungar og nágrannar og hún féllst góðfúslega á að taka þetta verkefni að sér að minni beiðni. Ástæða þess að ég réðst í þetta framtak var sú að mér þótti vanta styttu af Þorláki helga sem hægt væri að gera afsteypur af. Þó til sé stytta af Þorláki helga í Kristskirkju í Landakoti þá er hún of stór til að hún henti sem frummynd fyrir afsteypu. Sjá nánar hér: [Tengill]
Einnig má geta þess að í anddyri Þorlákskirkju er myndverk af Þorláki helga sem Ágústa Gunnarsdóttir gerði og vígt var við hátíðlega athöfn af Ólafi Skúlasyni biskupi og að viðstöddum kirkjumálaráðherra hinn 17. október 1993.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 23.12.2008 kl. 21:17
Styttan af heilögum Þorláki í Kristskirkju er í rauninni alls ekki stytta af honum heldur bara svona klisja sem getur verið hver sem er. Ertu með mynd af styttu Grundar-Siggu?
Baldur Hermannsson, 23.12.2008 kl. 21:29
Já, það eru myndir af styttunni til sölu í verslun Karmelsystra í klaustrinu við Ölduslóð í Hafnarfirði, í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi og í Safnaðarheimili Maríukirkju í Raufarseli.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 23.12.2008 kl. 22:08
Það er misjafn skilningurinn á áheitum og heitjöfum til kirkna og dýrlinga meðal presta. Ég kalla eftir skýingu kenningarvalds íslensku þjóðkirkjunnar um þessa hluti. Höfum við tekið dýrlingana inn sem fjárþúfu eða er til djúp kenningarleg staðfæring á tilveru þeirra í kirkjusýn okkar?
Baldur Gautur Baldursson, 26.12.2008 kl. 20:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.