Íslenska og ríkisborgararéttur

Í ráðleggingum Evrópuráðsins til íslenskra stjórnvalda frá 13. febrúar 2007 er fyrirkomulag íslenskukennslu fyrir útlendinga gagnrýnt. Sumir fái námskeiðin endurgreidd, aðrir ekki.  Sumir ekki aðrir fái að taka námskeiðin í vinnutíma, misjafnt aðgengi sé að námskeiðum eftir landshlutum, gæði kennslunnar séu misjöfn.  Mjög mikilvægt segir í skýrslunni sé að kippa þessu í liðinn þar sem íslenskunám sé forsenda fyrir búsetuleyfi.  Ekki er síður ástæða til þess nú eftir að íslenskupróf er orðið forsenda fyrir ríkisborgararétti.Mikilvægt er auðvitað að þeir sem búa hér varanlega hafi eitthvert vald á íslensku þó ekki væri nema vegna þess að umburðarlyndi í garð þeirra sem tala litla íslensku er af skornum skammti. Hins vegar verður að gera ríka kröfu til jafnræðis að námskeiðum eins og Evrópuráðið hefur bent á. Þar eigum við enn töluvert langt í land.Víða í Evrópu fer nú fram mikið endurmat á þeim kröfum sem rétt er að gera til þeirra sem sækjast eftir því að búa í nýju landi. Flestir virðast á því að eðlilegt sé að gera þátttöku í tungumálanámskeiðum að forsendu fyrir búsetuleyfi eða ríkisborgararétti en skiptari skoðanir eru um hvort rétt sé að gera prófkröfur. Þá fer það í vöxt að þekking á helstu grunnþáttum hins nýja samfélags sé gerð að skilyrði (t.d. í Þýskalandi). Í okkar tilfelli væri sennilega spurt að því hvað átt væri við með aðskilnaði löggjafavalds, framkvæmdavalds og dómsvalds og hvað hétu þeir forsetinn og seðlabankastjórinn. Undirrituðum finnst sjálfsagt að fólk sitji námskeið um hvort tveggja en hæpið að gera prófkröfur. Það ætti að vera nægilegt að gera þátttökukröfur. Þegar öllu er á botninn hvolft er það nefnilega þátttakan sem skiptir máli þegar kemur að því að búa í nýju samfélagi. Og tungumál hins nýja lands kemur hvort sem er fyrst og fremst með börnunum. Undanþáguákvæðin eru þröng eins og bent er á í leiðara Morgunblaðisins(29/12). Miðast við 65 ára gamalt fólk og börn á grunnskólaaldri. Mér finnst 65 ára aldurinn full hár (við sendum ráðherra á eftirlaun miklu yngri) og það þarf auðvitað að vera undanþáguákvæði fyrir þá sem ganga ekki heilir til skógar.En mikilvægast er að jafna aðgengi að íslenskunámskeiðum þannig að konur og karlar um allt land í öllum atvinnugreinum á öllum tekjustigum sitji við sama borð. Og helst ætti þátttakan í námskeiðum að nægja.

(Undirritaður heldur því fram að óhætt sé að tala um aðra hluti en hrunið. þessi athyglisverða grein skrifuð af sjálfum mér birtist í Morgunblaðinu í dag 6/1 09)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tungumálakunnáttu á ekki að tengja við ríkisfang. Þetta er enn eitt útspil einhverra í stjórnkerfinu sem eru á móti innflytjendum. Algerlega út í hött - Betra væri að banna bara fólki að fá ríkisborgarrétt ef það er frá löndum sem eiga erfitt með að læra íslensku. Hvað með mállausa innflytjendur?

Guðjón Atlason (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 11:34

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sæll Baldur.  Hérna fjallar þú um stórt hagsmunamál nýbúa, sem setja sig hér niður með fjölskyldum sínum.  Sérstaklega snýr það að börnunum, eða 2. kynslóðinni. 

Íslensk börn hafa mikið forskot, ekki bara hvað varðar tungumálið og uppeldið heldur líka nærveru stórfjölskyldunnar.  Foreldrar eru hvattir til þess að  fylgjast með og styðja við nám barna sinna því sannað þykir að vanrækt börn muni gjalda fyrir hvað varðar námsárangur og oft þar af leiðandi félagslega líka.

Því er augljóst að íslensku- og menningarþekking foreldranna getur skipt sköpum um velferð aðfluttu barnanna.  Þeirra vegna þykir mér í góðu lagi að gera nokkrar kröfur til foreldranna.

Kolbrún Hilmars, 6.1.2009 kl. 15:15

3 Smámynd: Jóhann G. Frímann

Það er sjálfsögð krafa að þeir sem dvelja hér á landi til lengri tíma læri íslensku. Það er öllum til hagsbóta. Um það þarf að setja sanngjarnt regluverk. En svo virðist um þetta eins og margt annað á síðustu árum, að hraðinn og hroðvirknin hefur borið skynsemina ofurliði. Við einblínum á birtuna við ystu sjónarrönd.

Mig langar einnig að vekja máls á því að íslenskukunnáttu yngra fólks virðist mjög ábótavant og hef sannast sagna vissar áhyggjur af því.

Jóhann G. Frímann, 6.1.2009 kl. 21:18

4 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þetta mál er rugl frá upphafi til enda.  Það er vissulega jákvætt ef innflytjendur læra íslensku, bæði fyrir þá sjálfa og samfélagið.  En að gera það að skilyrði fyrir ríkisfangi er ekkert nema dröga að fasisma.

Matthías Ásgeirsson, 7.1.2009 kl. 00:24

5 Smámynd: Jóhann G. Frímann

Auðvitað væri það skynsamlegast og í anda frjálshyggjunnar að leggja íslenskuna af og taka upp ensku. Það myndu sparast stórar upphæðir. Ekki veitir af til þess að borga skuldirnar sem auðmennirnir lögðu á þjóðina.

Jóhann G. Frímann, 7.1.2009 kl. 12:34

6 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Alltaf er hægt að réttlæta fordóma með þjóðerniskennd.  Ekki hætti ég að tala íslensku þó einhver annar læri hana ekki.

Matthías Ásgeirsson, 7.1.2009 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband