Vagn tímans (gömul grein með endurskoðað niðurlag - birtist í Smugunni)
30.3.2009 | 11:49
Það þarf ekki annað en að hafa fylgst með þróun mála á Íslandi og í Evrópu með öðru auganu til þess að sjá að aðild Íslands að Evrópusambandinu er óhjákvæmileg. Og það mun verða mikið gæfuspor fyrir íslenska þjóð sem á samleið með öðrum þjóðum Evrópu. Lífskjör munu stórbatna við inngöngu í ESB og mannréttindaumhverfi verða betra og öruggara. Ýmsir sérhópar berjast með oddi og egg gegn aðild þar á meðal bændaforystan. Barátta hennar gegn aðild er hún í raun og veru barátta gegn því að við lögum okkur að framtíðinni því að ofurtollar á innfluttar landbúnaðarvörur munu hverfa á næstu misserum m.a. að kröfu sjávarútvegisins sem mun að óbreyttu missa aðgengi sitt að mörkuðum í Evrópu. Náist góðir samningar við inngöngu gæti byggð eflst víða um land sérstaklega á landssvæðum fjarri Reykjavík.
Auðlindir áfram á sínum stað
Andstæðingar hafa afvegaleitt umræðuna og útbreitt þann misskilning að við aðild töpuðum við yfirráðum yfir auðlindum okkar. Ekkert slíkt mun gerast þetta er ekki sameignarbandalag. Við munum ekki eignast neitt í ánni Rín og þjóðverjar ekkert í Þjórsá. Við munum engan jarðhita eignast á meginlandinu og íbúar þar engan hér ekkert frekar en nú er. Við verðum auðvitað að passa upp á sjávarútveginn eins og annað en svo gæti farið í aðildarviðræðum að raunverulegt eignarhald á auðlindinni kæmist nær íslensku þjóðinni en nú er.
Sjálfstæðisflokkurinn virtist vera að skynja kall tímans í Bjarna Benediktssyni og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Með landsfundarályktun sinni virðist mér hins vegar að flokkurinn sé að mála sig út í horn. Þjóðernissinnuð rök virðast hafa orðin ofaná og sennilega óttinn við að missa tökin á íslensku samfélagi.
Valkosturinn er framtíðin
Með stífan taum í Evrópumálum verður Sjálfstæðisflokkurinn enginn valkostur fyrir Samfylkinguna sem mun fá Vinstri græna til þess að fara a. m.k. í þjóðaratkvæði um hvort semja skuli. Innan Vinstri grænna eru stöðugt fleirri mannréttindasinnar að koma auga á það (að mínu mati) að með þátttöku munu mannréttindaumhverfi hér verða betra og öruggara og regluverk í sambandi við náttúruvernd öruggara og betra. Þetta eru þættir sem Sjálfstæðismenn hafa engan áhuga á. Innganga í ESB er að mínu mati farsælasta leiðin fyrir íslenska þjóð til þess að tryggja sjálfstæði hennar og velferð og aðeins þeir sem gera sér að einhverju leyti grein fyrir því munu halda um stjórnartaumana í náinni framtíð.
Hinn kosturinn að standa utanvið á einfaldlega enga framtíð fyrir sér. Við verðum að hafa vit á því að stökkva á vagn tímans.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.