Hvernig fóru þeir að því að klúðra þessu svona svakalega?
10.4.2009 | 11:54
Hvernig tókst flokki Bjarna Benediktssonar, Ólafs Thors og Jóhanns Hafstein að fara svona með arfleifðina? Vissulega nutu þeir Bjarni, Ólafur og Jóhann vilvildar og stuðnings kaupmanna og á fyrstu áratugum flokkins (stofnaður 1929) þróast járnbundin tengsl við atvinnulífið sem stóð því síðar fyrir þrifum. Fræjum ófarnaðar var náttúrulega sáð þar. Það mega ekki þrífast krosseignatengsl milli atvinnulífs og stjórnmála- það býður spillingunni heim. En af hverju var grunntónninn um lítið ríkisvald svikið. Af hverju þandist það út á tíma Flokksins? Það er höfuðsynd hægri flokks sem byggir á Adam Smith og Milton Friedman. Skýringin er einfaldlega sú að á skemmri tíma en átján árum hætta menn að gera greinarmun á flokki og ríkisvaldi sem hættir þá til að þenjast út. Það má auðveldlega greina í ræðum á landsfundi síðasta. Það var líka meðvirkandi ástæða fyrir því hvað allt fór verulega illa. Menn hættu að gera greinarmun á því hvort þeir voru að tala saman sem flokksbræður eða sem fulltrúar almennings á ákveðnum póstum. Þetta sést berlega á samskiptum forsætisráðherra og seðlabankastjóra. Í þessu ástandi og í uppsveiflu geta menn gleymt grunngildum eins og þeim að halda ríkisvaldi í skefjum.
Allir helstu foringjar útrásarinnar voru Sjálfstæðismenn þ.m.t. Jón Ásgeir og Jóhannes í Bónus. Af hverju eru menn flokksbundir? Svari hver fyrir sig? Þeir sem högnuðust á kvótaframsalinu fylgdu margir hverjir Framsókn fram yfir kosningarnar 2002 (þegar Framsókn auglýsti sem mest) en hölluðu sér að Sjálfstæðisflokknum fyrir kosningarnarnar 2006 (þegar Framsókn hafði ekki efni á að auglýsa). Af einhverjum ástæðum líður auðmönnum best í Sjálfstæðisflokknum.
Það kemst einginn til valda í svona flóknu fyrirbrigði eins og Sjálfstæðisflokknum nema hann sé klár og harðskeyttur (Guðlaugur Þór) eða njóti velvildar vegna ættar (Bjarni Ben) eða ættartengsla (Illugi). Sennilega er tilkoma Bjarna Ben happ fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ættarlaukar er alls ekki verstu laukarnir. Þeir komast oft á toppinn án þess að hafa þurft að óhreinka sig.
Vonandi fer Sjálfstæðisflokkurinn ekki upp fyrir 25% í næstu kosningum. Hann hefur haft óheilbrigð tök á íslensku samfélagi alveg frá millistríðsárunum. Vonandi minnkar hann ekki mikið umfram það líkt og Framsókn (sem hefur sungið lokasönginn) því að það sem hann ætti að standa fyrir sparsemi í ríkisrekstri og heilbrigð samvinna við aðrar þjóðir á stöðugt erindi. Í báðum þessum efnum hefur hann hins vegar brugðist. Ríkisvaldið hefur þanist út í tíð hans og flokkurinn með Evrópuafstöðu sinni kýs leið einangrunar. Afstaða flokks Bjarna Benediktssonar, Ólafs Thors og Jóhanns Hafstein sem leiddu okkur í NATO og EFTA eru söguleg mistök sem mögulega geta leitt til einangrunar íslensku þjóðarinnar og í öllu falli skerðir lífskjör okkar verulega á næstu árum og áratugum gangi einangrunarstefnan eftir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:27 | Facebook
Athugasemdir
Ég hef aldrei skilið hvernig þessi sögufölsun Sjálfstæðismanna, að Hannes Hafsteinn hafi verið Sjálfstæðismaður, hefur náð að skjóta rótum.
Hannes sat síðast á Alþingi fyrir Heimastjórnarflokkinn 1917. Hannes dó 13. des 1922, 7 árum áður en Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 1929 með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslindaflokksins.
Ætli þeir Ingólfur Arnarson, Jón Arason, Snorri Sturluson og fleiri slíkir gengnir kappar séu ekki líka skráðir í félagaskrá flokksins í Valhöll?
Axel Jóhann Hallgrímsson, 10.4.2009 kl. 12:39
Takk Axel. Kippri Hannesi út. Svona getur maður orðið fyrir barðinu á lúmskum áróðri. Kveðja Baldur
Baldur Kristjánsson, 10.4.2009 kl. 12:56
Var spillingin á dögum þeirra Ólafs Thors, Bjarna Ben (eldri) og Jóhanns Hafstein - ekki bara nákvæmlega eins og etv. ennþá meiri en það sem við erum nú að sjá frá dögum Davíðs og Geirs . . . . . . . . ?
Ég held það: - - það voru alltaf sérhagsmuna-öflin sem fjármögnuðu gamla Sjálfstæðisflokkinn . . . . . . það er ekki nýtt . . .
. . . hrun Frjálshyggjunnar og íslenska-græðgislíkansins er bara afleiðing af langstæðum áróðri Eykons gegn samvinnuhreyfingunni, og Péturs Blöndal gegn sparisjóðum, sjálfseignarstofnunum og gagnkvæmum félögum . . . . sem Viðskiptaráðið hefur síðan rekið út á þennan enda . . . einkavæðing kvótans og síðan tilraunir til að einkvavæða orkufyrirtækin og auðlindir í jörð . . . . allt keyrt áfram með spillingunni
Benedikt Sigurðarson, 10.4.2009 kl. 13:36
Sæll Baldur!
Sagan segi, að þeir Ólafur Thors og Jónas frá Hriflu hafi náð sögulegum sáttum á fjórða áratugnum, um að láta Kveldúlfsmálið sofna í Landsbankanum, gegn því að SÍS nyti sömu fyrirgreiðslu í bönkum, innflutningsleyfum osfrv.. Þetta eru sögð fyrstu helmingaskipti þessara flokka en ekki stjórnin sem við þau er kennd og skipti hermanginu bróðurlega. Æ síðan hafa þessir tveir flokkar skipt því með sér sem völdin hafa skaffað. Síðasta dæmið er hin svokallaða "einkavæðing". Það gefur auga leið að fyrirkomulag af þessu tæi leiðir til djúprættrar spillingar, sem ekki verður kveðin niður nema með allsherjar endurnýjun.Það má kalla pólitíska hundahreinsun.
Sigurður G. Tómasson, 10.4.2009 kl. 13:37
Ég óska þér gleðilegra páska bloggvinur góður. Hafðu það sem best um hátíðarnar.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.4.2009 kl. 11:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.