ESB leiðin til farsældar!
16.4.2009 | 11:44
Það er furðulegt og undarlegt að aðeins einn stjórnmálaflokkur, Samfylkingin, hafi það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að ESB. (Ég tel ekki Framsókn með sem vill sækja um með skilyrðum. Sú úrelta maddama er orðin vaklandi í þessu máli sem öðrum. Bændaforystan og kaupfélag Skagafjarðar að ná yfirhöndinni). Allir hinir stefna að því að halda okkur utan bandalagsins og þar með (þó það sé ekki ætlun þeirra) í heljargreipum fátæktar og einangrunar um ókomna tíð. Undarleg er afstaða Vinstri grænna sem virðast hafa erft úrelta og upphafna þjóðernishyggju frá hinum alþjóðasinnuðu sósíalistum fortíðar. ESB er bandalag sjálfstæðra þjóða í Evrópu. Nútíma birtingarmynd samstarfs sjálfstæðra þjóða í Evrópu. Við erum þegar í forstofunni og höfum verið þar síðan á sjöunda áratugnum þegar við gengum í EFTA. Aðeins óframfærnir aular hanga í forstofunni í stað þess að ganga til stofu. Benedikt Jóhannesson ritar um þetta ágæta grein í Morgunblaðið í dag og hvetur hann þá sem vilja rísa úr öskustó og sækja um aðild að undirrita áskorun til stjórnvalda á vefsvæðinu www.sammala.is
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er engin tilviljun að Samfylkingin skuli vera pólitískt einangruð í áhuga sínum á að koma okkur undir yfirráð Evrópusambandsins. Eins og Jónas Kristjánsson orðaði það réttilega er sambandið einfaldlega ekki vænlega söluvara.
Evrópusambandið er á engan hátt nútímalegt. Þetta er að stofninum til gamaldags tollabandalag sem stefnir að því að verða stórríki á brauðfótum. Ef ríki sambandsins væru raunverulega sjálfstæð er deginum ljósara að stofnanir þess væru meira eða minna valdalausar.
Evrópusambandið er einfaldlega risaeðla og sem slík sennilega deyjandi þó dauðastríðið kunni að taka talsverðan tíma. Við höfum ekkert að gera inn í slíkt fyrirbæri.
Hjörtur J. Guðmundsson, 16.4.2009 kl. 11:56
Sæll Baldur.
Það sem er í senn "undarlegt og furðulegt" er að þú, sem ég hafði haldið að hefðir augun opin, skulir taka undir háskalega stefnu Samfylkingarinnar og helstu frjálshyggjupostula Sjálfstæðisflokksins um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Í stað upphrópana og slagorðavaðals hvet ég þig til að setja þig inn í efnisþætti málsins. Bendi þér m.a. á að lesa grein frá í morgun á heimasíðu minni www.eldhorn.is/hjorleifur þar sem ég geri grein fyrir fjölmörgum þáttum sem mæla gegn aðild Íslands að sambandinu.
Hjörleifur Guttormsson, 16.4.2009 kl. 13:22
Hvað er farsæld?
Evran er þungamiðjan í ESB stefnu Samfylkingarinnar, eins og glöggt kom fram á fundinum í morgun. Hún á að leiða til stöðugleika og lægri vaxta. (Það er stundum eins og Samfylkingin líti á ESB sem gjaldmiðil.)
Ég er viss um að Grikkir eru himinlifandi yfir að vextir þar í landi lækkuðu um 2/3 eða meira eftir upptöku evrunnar. Almenningur myndi örugglega nýta sér lægri vexti ef kaupmátturinn væri ekki svona rýr og atvinnuleysi viðvarandi.
Ungir Grikkir, nýútskrifaðir, geta átt von á launum sem eru svipuð og atvinnuleysisbætur á Íslandi, þ.e. þeir sem á annað borð fá vinnu. En vextirnir lækkuðu svo það er allt í lagi.
Ferðaþjónustan gríska sér fram á hrikalegan samdrátt, m.a. af því að Grikkland er ekki lengur með eigin gjaldmiðil. En það hlýtur að vera í lagi, þeir hafa evruna til að hugga sig við og það skiptir öllu máli.
Svona í alvöru talað, þá fer þetta ESB trúboð að verða svolítið þreytandi.
Haraldur Hansson, 16.4.2009 kl. 14:09
Sæll Baldur.
Enn furðulegra er að einn stjórnmálaflokkur sem kallar sig Samfylkingin virðist vilja inní Stórríki ESB og það alveg nákvæmlega sama hvað það myndi kosta land og þjóð.
Nú hamast þeir á því að það skuli farið í aðildarviðræður við ESB nú strax að loknum kosningum, hvað sem tautar og raular.
Þetta vilja þeir gera skilyrðislaust og án þess að hafa sett fram nein samningsmarkmið eða skilyrði fyrir slíkri aðild. Semsagt þeir vilja innlimun í Stórríki ESB án nokkurra krafna af okkar hálfu.
Þessu úrtöluliði er alls ekki treystandi og mjög ótrúverðugt til þess að gæta hagsmuna lands og þjóðar.
Gunnlaugur I., 16.4.2009 kl. 16:17
Jú, þetta er aveg rétt hjá pistlahöfundi.
Maður skilur ekki hvað sumir stjórnmálaflokkanna eru eiginlega að hugsa. Líklega eru þeir alls ekkert að hugsa. Bulla bara.
Það er líka umhugsunarvert hve ranghumyndir og fáfræði hreinlega virðist vera ríkjandi meðal íslendinga varðandi ESB.
En að vísu á það sér að hluta til sögulegar skýringar. Aldalöng einangrun og einkennileg söguskoðun sem haldið hefur verið að landsmönnum svo það er auðvelt að ala á hræðslu og ranghugmyndum.
Sjallar virðast vera búnir að stimpla sig sjálfa úr leik og ákveða að þeir munu engu stjórna á næstunni (kannski skiljanlega) svo þeir hafa auðvitað ekkert af viti að leggja í umræðuna.
Framsókn eins og hún er.
VG verður bara að fara að taka sig á þarna. Það er eina vonin. Ja, nema SF fái bara uppí 40% fylgi. þá yrði erfitt að standa á móti aðildaviðræðum held eg.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 17.4.2009 kl. 01:01
Tek hjartanlega undir með Hirti, Hjörleifi, Haraldi og Gunnlaugi.
Bendi einnig pistilshöfundi á þessa grein mína:
Minnt á grundvallaratriði um "hvað býðst í aðildarviðræðum" við Evrópubandalagið.
Jón Valur Jensson, 17.4.2009 kl. 01:53
Evrópusambandið er leiðin til farsældar segir bloggarinn og á sama tíma berast fréttir af því að enn eitt Evrópusambandsríkið, Pólland, hafi þurft að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Hvers vegna gat sambandið ekki reddað Pólverjum?? Vandamálin eru því miður bara að byrja þar á bænum og Austur-Evrópa á sérstaklega eftir að verða baggi á Evrópusambandinu eins og t.d. AGS hefur nú spáð.
Að ganga í Evrópusambandið væri eins og að fara um borð í Titanic áður en það lagði af stað í jómfrúarferðina örlagaríku árið 1912.
Hjörtur J. Guðmundsson, 17.4.2009 kl. 09:07
Bændaforystan og Kaupfélag Skagfirðinga!! Góður. Kannski að þeir séu að ná þessu úr höndum Óla í Sambó og Finns frækna?
Tek undir þetta með þér og bæði þessi grein Benedikts og viðtalið við ritstjórana á Markaðnum hjá Birni Inga eru að segja okkur hverslags reköld við erum að verða í flestum okkar málum og hvað við höfum raunverulega lítinn tíma með krónuræfilinn ef ekki á illa að fara.
Þeir sem verst eiga með að skilja það virðast vera ríkisstarfsmenn, (sem sennilega trúa að þeir geti bullað endalaust og séu í einhverju öruggu umhverfi) eftirlaunaþegar hjá ríkinu, (m.a. fyrrverandi þingmenn og ráðherrar sem við erum búin að tryggja langt framyfir andlát, verðtryggt, hinir eru auðvitað allir að horfa uppá að eiga lítinn eða engan lífeyri og þurfa auk þess að borga undir ríkisstarfsmennina) og síðan einstaka námsmenn á lánum, sem ekki virðast halda að þeir þurfi nokkurntíman að vinna með höndum eða fótum, hvað þá hausnum.
Ég gef ekkert fyrir bullið frá þessu liði, en við hin verðum að standa saman núna, ef ekki á að láta draga sig útí mitt fenið, því þar tekst þeim endanlega að drekkja okkur.
Það verður bara að viðurkenna það að við erum svo gott sem gjaldþrota, eftir 18 ára samfellda stjórn FLokksins með einkavinavæðingu og öllu tilheyrandi. Og við höfum bara ekki meira lánstraust úta sjávarauðlindina.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 18.4.2009 kl. 07:19
En Evrópubandalagið er engin björg í þessu efni, jafnvel ekki þótt við í skiptum gefum þeim æðstu löggjafarréttindi yfir okkur og yfir auðlindalögsögunni.
Samfylkingin veit það m.a.s., að bandalagið myndi EKKI geta tryggt okkur neina EBé-meðalvexti hér og heldur ekki EBé-meðal-matvælaverð, enda myndu þau aldrei þora að setja slíkt fram sem skilyrði fyrir inngöngu í þetta meinta sæluríkjasamband sitt.
Við fengjum ekki sjálfkrafa einhverja EBé-vexti né heldur (eftir ca. 10 ára bið eftir evru) sjálfkrafa einhverja evrusvæðis-vexti, enda eru engir samræmdir vextir á því svæði, löndin þar eru með misháa vexti.
Við fengjum heldur ekkert samræmt EBé-verðlag, enda er það ekki til. Grikkland er með langtum lægra matvælaverð en Bretland, Svíþjóð og Finnland með langtum hærra en Slóvakía og Portúgal. Við myndum áfram gjalda það nokkru verði að vera hér í fámenni og að yfir úthaf er að sækja vörurnar. EBé-borgar ekki farmgjöld skipafélaga, og evran lækkar ekki álagninguna, sem að hluta til stafar af smáum markaði hér og óhagkvæmni þess vegna.
Hátt matvælaverð hér er heldur ekki umfram allt íslenzkum landbúnaði að kenna, því að hann vegur ekki nema um 15-16% af þeim vörum, sem í matarkörfunni eru.
Ef Samfylkingin telur lágt (eða "Evrópubandalags-") matvælaverð munu sjálfkrafa fylgja svokallaðri aðild (um "aðild", sjá kaflann Innlimun er rétta orðið, ekki "aðild" neðarlega í þessari grein), af hverju er hún þá feimin við að setja það fram sem skilyrði fyrir aðild, að Evrópubandalagið veiti okkur það lága meðal-matvælaverð sitt?
Og ef hún telur einhverja samræmda vexti fylgja sjálfkrafa aðild, af hverju hefur hún þá ekki sagt það sama um hið gríðarlega viðvarandi atvinnuleysi í Evrópubandalaginu? Ætli Jóhanna að háma í sig freistandi tertusneiðina, verður hún að éta hana med alle ingredienser.
Jón Valur Jensson, 18.4.2009 kl. 10:57
Við þurfum ekki ESB, við höfum fornsögurnar og handritin a.m.k. þau sem við ekki átum upp á sínum tíma. Stórþjóðin í norðri getur staðið eins og óstudd.
Finnur Bárðarson, 18.4.2009 kl. 19:47
Sæll Baldur.
Athyglisvert þetta með VG, þau hafa greinilega erft þjóðernishyggju Alþýðubandalagsins. Í þessu er þversögn, þar sem sósíalisminn er byggður á alþjóðahyggju.
Ég tek eftir að ESB- öfgaandstæðingar liggja yfir pistlum á blogginu til að fá útrás fyrir fjasþörf sína og er það vel. Það gæti nefnilega farið svo að með tímanum sæju þeir ljósið!
Ingimundur Bergmann, 19.4.2009 kl. 09:26
Merkilegt, hvað sumum nægir að bera lítið sem ekkert fram af rökum fyrir máli sínu.
Ég á hér við hann Ingimund.
Evrópubandalagið er EKKI merkisberi alþjóðahyggjunnar. Nú getum við gert samninga við öll ríki heims, en myndum missa réttinn til viðskipta- og fiskveiðisamninga við önnur ríki, ef við gengjum í Evrópubandalagið. Þá hafa raddir frá 3. heiminum verið á þá lund, að Evrópubandalagið sé sérhagsmunabandalag, sem vinni gegn hagsmunum fátækra í öðrum heimsálfum, sjá hér neðar!
Prófessor Ragnar Frisch, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, skrifaði (áður en farið var að kalla bandalagið Evrópusambandið): "Efnahagsbandalagið er og verður þröngsýn Evrópuhyggja. Sameinuðu þjóðirnar og Norðurlönd – eins og þau hafa hagað sér hingað til – eru fulltrúar sannrar alþjóðahyggju."
Þetta ritaði hann með hliðsjón af þróunarhjálp Norðurlanda annars vegar og Evrópubandalagsins hins vegar.
Landbúnaðarstefna EBé (ESB) var grundvölluð á sérhyggju, ekki alþjóðahyggju. Um hana ritaði Frisch, þegar þessi landbúnaðarstefna var að fá á sig fast form:
"Hana á [þ.e. stendur til að] samræma, og landbúnaður bandalagsins á að komast á hagkvæmari grundvöll. Til þess þarf fé, og það hyggst bandalagið fá með því að leggja álitlegan toll á búvöru frá löndum utan bandalagsins. Þar á að slá tvær flugur í einu höggi. Landbúnaður innan bandalagsins verður samkeppnishæfari, og um leið stendur landbúnaður utan bandalagsins verr að vígi í samkeppni." (Aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu er óhyggileg og hættuleg, þýðandi dr. Björn Stefánsson, s. 27.)
Það er með hliðsjón af þessu, sem ég vek athygli lesenda á eftirfarandi ummælum leiðtoga í þriðja heiminum:
"Efnahagsbandalagið verður miklu áhrifameira tæki til að halda þróunarlöndunum í skefjum en nokkurt nýlenduveldi hefur nokkru sinni haft ráð á." – Nehru, forseti Indlands (faðir Indiru Gandhi, móður Rajivs Gandhi).
"Efnahagsbandalagið er tæki til að halda óbreyttu ástandi meðal ríkra þjóða og fátækra." – Nkrumah, Ghana.
"Með Efnahagsbandalaginu eru gömlu nýlenduveldin að reyna að ná aftur tökum á ríkjunum í Afríku" – og: "Okkur er bezt borgið með því að skipta við Evrópuríki utan Efnahagsbandalagsins." – Tom Mboya, Kenýa.
Þeir vissu, fyrir hönd þjóða sinna, hvað til þeirra friðar heyrði.
Jón Valur Jensson, 19.4.2009 kl. 14:11
Sæll Jón Valur.
Þú hefur eitthvað misskilið athugasemd mína, ég var að fjalla um sósíalismann en ekki ESB þar sem ég nefndi alþjóðahyggju.
Ingimundur Bergmann, 19.4.2009 kl. 17:53
Takk fyrir þetta, Ingimundur, og vel vissi ég af þessu með sósialismann, en ég skildi þig líka sem svo, að þú teldir EBé-innlimun færa okkur nær, en ekki fjær alþjóðahyggjunni.
Með beztu óskum,
Jón Valur Jensson, 19.4.2009 kl. 18:43
Ég er verulega þreyttur á að fólk sem vill sækja um aðild að ESB lætur eins og þeir sem eru þeim ósammála hafi ekki kynnt sér málin. Að halda því til dæmis fram að Hjörleifur Guttormsson hafi ekki kynnt sér ESB-málin er bara alveg út í hött. Það er varla til maður á landinu sem hefur sett sig jafn vel inn í ESB og stöðu þess.
Getum við ekki bráðum náð á þann stað þar sem við erum ósammála um hvort sækja eigi um aðild að ESB án þess að ganga út frá því að hinn aðilinn hafi annarlegar kvatir á bak við afstöðu sína eða sé illa upplýstur.
Héðinn Björnsson, 19.4.2009 kl. 23:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.