Af sneypuför minni á Selfoss!

Ég kom á Selfoss áðan sem ekki er í frásögur færandi, frekar sviplaus maður kemur í sviplaust þorp á Suðurlandsundirlendinu þar sem brúin fer yfir ána á móts við hús Guðna Ágústssonar en gott fólk býr þar, uppflosnaðir bændur af Suðurlandsundirlendinu og bændabörn sem voru aftarlega í systkinaröðinni, fólk að austan sem komst ekki alla leið til Reykjavíkur og svo auðvitað fólk sem fylgir þéttbýli og kemur að hvaðanæfa: rakarar, búðarmenn, löggur og kennarar og bóksali sem kom ofanúr Tungum.

 Engin frægðarför

 Þetta var engin frægðarför.  Ég ætlaði að fara að mæla ESB bót á rakastofunni þar sem Björn og Kjartan ráða bæði skærum og umræðum.  Mér varð ekki kápan úr því klæðinu – kom út aftur eins og halaklipptur hundur margjarðaður í umræðunni og lofaði sjálfum mér því að minnast aldrei á þetta meir enda að eðlisfari friðsamur maður og gæfur. Þótti mér ráð að bregða mér í bókakaffi, róa taugarnar yfir kaffi og góðri bók og jafnvel súkkulaðitertu. Ég var þó ekki búinn að vera þar inni nema fimm mínútur þegar búið var að pakka mér saman í ESB umræðu sem hafði byrjað sem ósköp sakleysislegt tal um nýja ríkisstjórn og Framsóknarflokkinn og þess háttar sem hefur stytt margan langan veturinn.

 Eins og að hitta Guð almáttugan

 Skyndilega, eins og stormviðri, við ógætilegt orð af minni hálfu stóð á mig rökflaumur hins gáfaða og kjarnyrta bóksala.  Á rakarastofunni varð ég svolítið smeykur við þetta ESB en bara svolítið því þetta eru gæðamenn en nú varð ég skelfinu lostinn og skilur sá einn sem mætt hefur Bjarna Harðarsyni í mótESB ham. Hefði ég samstundis lagt niður skottið ef ekki hefði verið halaklipptur fyrir muldraði eitthvað og forðaði mér út frá hálfdrukknu kaffinu og vissi ekki fyrr en ég var staddur yfir Evrópskum ávöxtum í Krónunni (sem mun þá heita Evran seinna meir) og gekk þar beint í flasið á Guðna Ágústssyni.  Og það var eins og að hitta Guð almáttugan eftir það sem á undan hafði gengið.  Umræða okkar hlý og notaleg, yfirveguð, jarðbundin, gamall höfðingi hitti gamlan prest og þeir gengu saman um búðina og dásömuðu tilveruna og vöruúrvalið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Þetta hafa verið talsverðar raunir. En það er alltaf gott að hitta Guðna svo þú sefur rólegur í nótt. Sem innfæddur Selfyssingur mótmæli ég því hinsvegar harðlega að bærinn minn sé sviplaust þorp. Þorp er ágætt og mér finnst þetta enn vera þorpið mitt. Við höfum Ölfusá, brúna og Ingólfsfjall. Því miður hafið þið Ölfusingar reyndar gefið á það skotleyfi og hryðjuverkin prýða ekki þetta fallega fjall. Héðan er líka mikil og góð fjallasýn og þorpið er gróðursælt og snyrtilegt. Þegar við verðum búin að sprengja Hótel Selfoss, ljótustu byggingu norðan Alpafjalla, í loft upp þá  eykst fegurðin hér enn frekar. Góðar stundir, séra minn.

Sigurður Sveinsson, 12.5.2009 kl. 16:24

2 Smámynd: Héðinn Björnsson

Þú ert fyndinn

Héðinn Björnsson, 12.5.2009 kl. 16:43

3 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Ekki veitir af skemmtisögum (fyrst hún endaði vel) á þessum tímum þegar margir eru orðnir uppgefnir af krepputali og því að reyna að koma auga á markvissar aðgerðir.

Ég er að komast að sömu niðurstöðu og þú að það sé okkar hagur að ganga í ESB og þá er ekki óeðlilegt að það verði líka hagur sambandsins að einhverju leyti. Ekki er ég þó til í að lenda í  mannraunum fyrir málstaðinn.

Hafðu það gott séra minn.

Hólmfríður Pétursdóttir, 12.5.2009 kl. 16:58

4 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ég kannast við allt þetta fólk á Selfossi, sem þú nefnir nema þá, sem ekki komust alla leið til Reykjavíkur. Þá hef ég aldrei hitt. Ég þarf greinilega að koma oftar á Selfoss.

Sigurbjörn Sveinsson, 12.5.2009 kl. 17:35

5 identicon

Þetta eru Selfyssingar!

Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 12.5.2009 kl. 19:06

6 Smámynd: Hulduheimar

Ekki voru nú gáfurnar Bjarna Harðar sem þú nefnir hér að þvælast fyrir honum þegar hann sat á þingi. Síst af öllu þegar kom að tölvupóst notkun

Hulduheimar, 12.5.2009 kl. 19:39

7 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Guðni er alltaf sjálfum sér líkur  - - nema þessa fáu mánuði sem hann var formaður í Framsókn á niðurleiðinni. 

Það  er háttur höfðingja að temja sér hóf og göfuglyndi.  Gæti samt ekki verið að þú hefðir borið það með þér að þú værir orðinn "minnipokamaður" - þegar þú mættir Guðna?   Að góðra bænda hætti sparka menn ekki í "barinn rakkann" ,. . . . eða eins og þú lýsir meðferð rakaranna og bóksalans á þér.

Þú ferð líklega ekki í klippingu á næstunni; - upp á Selfoss? (Eg nota núorðið alltaf hundaklippur og snoða mig sjálfur - - það sparar stórfé . . . .  frú Helga yfirfer þetta að aftan og ég slepp alveg við að þurfa að verja ESB-aðildarumsóknina á meðan.)

Benedikt Sigurðarson, 12.5.2009 kl. 21:29

8 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Þú hefur aldeilis lent í úlfahöndum. Hvernig datt þér í hug að fara á landsþekkta íhaldsrakarastofu til að ræða ESB? Veistu ekki að ESB andstæðingar taka ekki rökum? Núna eru svo litlu íhaldsskinnin að gleðjast yfir árangri sinna manna við að koma þjóðinni á vonarvöl; þar á ég við 30 ára dæmið sem fjármálaráðuneytið upplýsti í dag. Líklega vissi Steingrímur hverju væri von á og flúði þess vegna með allt liðið til Akureyrar!

Ekki kemur á óvart að þú hafir haft gott af að hitta Guðna, hann er einn af þessum höfðingjum sem flestum hlýtur að þykja vænt um og svo virkar hann sem frammúrstefnu, nútímamaður miðað við nýja landbúnaðarráðherrann!

Ingimundur Bergmann, 12.5.2009 kl. 22:07

9 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Heima er best Baldur minn og þér líður vitanlega best með Guðna og þeirri Evrópupólitík sem hann rak, enda er uppruni þinn úr þeim ranni.  Láttu því af þessari ESB villu og haltu þig þar sem þér líður best....!!!

Ómar Bjarki Smárason, 13.5.2009 kl. 00:15

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góð og lifandi var frásagan, síra Baldur, og gott á þig!

Maður sér ykkur alveg fyrir sér og ekkert síður stemminguna á rakarastofunni. Þetta eru greinilega þjóðernissinnar í beztu merkingu þess orðs, sveitungar mínir á Selfossi, ef mér leyfist að komast svo að orði (ég er Árnesingur í móðurætt).

En kallarðu Selfoss í alvöru þorp?! – Ciao, heimsmaður.

Jón Valur Jensson, 13.5.2009 kl. 01:19

11 Smámynd: Helgi Kr. Sigmundsson

Frábær frásögn og vel skrifuð.  Takk fyrir þetta.  Þetta er nú stemningin ansi víða á landsbyggðinni.  Sem færir okkur sönnur heim um hversu mikið hugur fylgir máli hjá ríkisstjórninni, þegar hún segist ætla að gæta hagsmuna landsbyggðarinnar. 

Væri ekki nær lagi að sannfæra þetta fólk um að hagur þeirra verði ekki fyrir borð borinn í þessum hrossakaupum?

Helgi Kr. Sigmundsson, 13.5.2009 kl. 01:44

12 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Þeir feðgar, Björn og Kjartan, eru miklir heiðursmenn. Þeir hafa ekki enn sýkst af ESB veirunni sem hrjáir nú allt of marga. Vonandi hafa þeir rótað ærlega upp í hugskoti þínu. Og Bjarni hefur heldur ekki slegið slöku við. Þeir hafa allir reynt sitt besta til að koma vitinu fyrir þig. Einu sinni var Bjössi rak staddur á Hótel Sögu. Þar voru ihaldsmenn að skemmta sér. Geir Hallgrímsson var þá forsætisráðherra. Hann var með alvarleg augu og vel brýndur. Björn vildi snyrta brúnirnar. Draga frá eins og hárskerarnir orða það. Konu Geirs leist mjög vel á hugmyndina en Geir harðneitaði. Björn varð að una við kláðann í fingrunum og Geir var áfram í hálfgerðu myrkri. Það er afleitt fyrir forsætisráðherra.

Sigurður Sveinsson, 13.5.2009 kl. 06:47

13 Smámynd: Alli

Ég held að það hafi ekki bara verið gamall höfðingi og gamall prestur sem hittust þarna,  það voru tveir gamlir framsóknarmenn.

Hvenær kemurðu aftur heim í flokkinn þinn, séra Baldur?

Alli, 13.5.2009 kl. 08:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband