Kiev - falleg borg og markvert fólk!

kiev_2009_005_847113.jpgkiev_2009_004_847115.jpg

Ég var settur upp á elleftu hæð í gömlu háhýsi í miðborg Kiev. Minnugur bókarinnar ,,þeir sem undirbúa sig komast af – þú gætir lent í eldsvoða” rannskaði ég útgönguleiðir. Eftir nokkra athugun komast ég að þeirri niðurstöðu að best væri að horfa á hótelið brenna af svölunum sem voru við herbergið og bíða eftir súpermann- svo sofnaði ég. Morgunverðurinn var upp á sextándu hæð.

Kiev er falleg borg, víðáttumikil, hæðótt, þar er gríðarlega mikið af fallegum stórum byggingum sem hýsa ráðuneyti, stofnanir, söfn. Þessar stóru, fallegu byggingar eru málaðar í ýmsum litum en það sem kemur meira á óvart:  Hinar hefðbundnu blokkir sem risu í borgum kommúnistaríkjanna eru hér margar hverjar  fallega skreyttar með litum og tilbrigðum í arkitektúr.

Ég flutti erindi á ráðstefnu sem ECRI (sjálfstæð nefnd á vegum Evrópuráðsins) stóð fyrir. Hálftíma erindi um skýrslu ECRI um það hvernig þeir Úkraínumenn gætu bætt löggjöf sína og framkvæmd hennar til þess að koma í veg fyrir mismunun sem stafar af uppruna manna, þjóðerni, litarhætti, trúarbrögðum og þess háttar atriðum.  Ráðstefnuna sóttu um 120 manneskjur, fulltrúar yfirvalda þ.m.t. tveir ráðherrar, umboðsmaður alþingis þeirra um mismunun, hæstaréttardómarar, alþingismenn, fréttamenn, fulltrúar mannréttindasamtaka. Í umfjöllun minni var líka komið inn á umfjöllun pressunar þegar kemur að málum sem snerta útlendinga, fjallað um óábyrga stjórnmálamenn sem kynda undir elda, ólíðandi fordóma gagnvart Roma fólki, gyðingaandúð og ofbeldi sem stúdentar frá Afríku hafa mátt upplifa (nokkrir þeirra hafa reyndar ekki upplifað það heldur verið drepnir og lögreglan liggur undir því ámæli að rannsaka þau morð ekki sem kynþáttaglæpi). 

Það kom mér á óvart hvað menn voru hreinskiptir í umræðum m.a. tók umboðsmaður fullum fetum undir flest það sem við (með mér var Eva Smith Asmundssen forseti ECRI) gagnrýndum eða höfðum ráðlagt. Aðrir þ.m.t. blaðamenn voru gagnrýnir.  Engin þöggun þarna, enginn ótti.  Allar sjónvarpsstöðvar voru við upphaf fundarins.  Úkraína er flókið fjölmenningarsamfélag þar sem helmingur þingmanna hefur rússnesku að móðurmáli hinn helmingurinn Úkraínsku.  Þeir virðast þó staðráðnir í því að tileinka sér leikreglur sem fela í sér að öllum verði gert jafnhátt undir höfði hvaðan sem þeir koma, hvernig sem þeir líta út, hverju sem þeir trúa.  Þeir eiga auðvitað mikið verk fyrir höndum en hafa á undraskömmum tíma komið sér upp tækjum í þessu skyni.  Þeir hafa t.d. í samræmi við ráðleggingar ECRI undirritað og samþykkt viðauka nr. 12 við Mannréttindasáttmála Evrópu og þar með skotið okkur Íslendingum ref fyrir rass en viðauki þessi gerir fólki auðveldara fyrir að sækja rétt sinn gagnvart innlendum dómstólum og Mannréttindadómstóli Evrópu telji það sig hafa verið beitt tilefnislausu misrétti.

Þeir sem undirbúa sig vel komast vel af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Ég hef heyrt margar fallegar sögur af Kiev og væri gaman að fara þangað einhverntíman.

Það sem ECRI er að gera er nauðsynlegt og mér lýst vel á störf nefndarinnar. Því miður er hættan á mismunun mun meiri í kreppu en ella og því nauðsynlegt að efla aðhald í málefnunum.

Hér á Íslandi er því miður litið framhjá því þegar menn hvetja t.d. til þess að hælisleitendur séu skotnir. Íslensk stjórnvöld bregðast því að taka á slíkum málflutningi sem er stórhættulegur samfélaginu því hatur leiðir á endanum til ofbeldis og í verstu tilvikum til morða á saklausu fólki.

Hilmar Gunnlaugsson, 13.5.2009 kl. 10:46

2 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Getur verið að margir Íslendingar átti sig ekki á því að við erum ekki lengur einsleit þjóð?

Það er meira en kominn tími til, en vonandi ekki of seint að við undirbúum okkur vel og tökum okkur saman og vinnum að umburðarlyndi og gegn fordómum.

Lögin þurfa víst alltaf að vera í endurskoðun eftir því sem  tímarnir breytast og kjör mannanna með.

Hólmfríður Pétursdóttir, 13.5.2009 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband