Ísland, eins og bátur í brælu!?

Ísland á heima í samstarfi með öðrum löndum Evrópu

Ég hef þá skoðun, og hef lengi haft, að Ísland eigi heima meðal þjóða Evrópu.  Félagslega, menningarlega, sögulega eigum við þar heima.  Þess vegna eigum við að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga inn ef góður samningur næst.  Evrópusambandið er samstarfsvettvangur þjóða Evrópu.  Við eigum, að mínum dómi, að verða þar fullgildir aðilar með tíð og tíma.

Í gangi er skelfilegur hræðsluáróður mestan part frá sama fólki sem barðist með oddi og egg gegn þáttöku okkar í EFTA og Evrópska Efnahagssvæðinu.  Það eina sem gerist við inngöngu í ESB og upptöku Evru er að kjör alls almennings taka hægt og sígandi að batna og verða stöðugri og  réttindi neytenda og launafólks aukast.  Þá fáum við betra verð fyrir útflutningsafurðir okkar.

Með umsókn horfum við fram á veginn. Efnahagslega séð er upptaka evru ásamt inngöngu í ESB eina raunhæfa lausnin. Engin önnur lausn hefur staðist umræðu. Við eigum því í raun og  veru ekkert val nema við ætlum okkar að verða um ókomna tíð fórnarlömb þeirra sem braska með krónuna. Þá verður íslenska þjóðin eins og bátur í brælu um ókomna tíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

1) Evra verður ekki tekin upp án þess að Maastrichtskilyrðin verðu uppfyllt fyrst. M.ö.o þá þarf að ná niður vöxtum og verðbólgu, fjárlagahallanum, skuldum ríkisins og koma á stöðugu flotgengi áður en sú "lausn" verður möguleg.

2) ESB er hvorki EES né EFTA heldur er það pólitískt bandalag sem felur í sér að gríðarmikið vald flyst til Brussel. Mér verður hugsað til Nýfundnalands.

Auk þess má efast um að Íslendingar séu í raun mikil Evrópuþjóð í menningalegu, sögulegu, efnahagslegu eða landfræðilegu tilliti. Menningarleg áhrif frá Bandaríkjunum eru svipað sterk og áhrif frá meginlandinu, Ísland hefur að mestu upplifað Evrópusöguna á ólíkan hátt en meginlandslöndin, við erum mjög háð nýtingu náttúruauðlinda og við erum ekki með evrópskar stórþjóðir í túnfætinum.

Ég myndi segja að við séum frekar lík Kanada... eða Nýfundnalandi.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 15:20

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Við skulum heldur ekki gleyma því hvaðan bæði bandarísk og kandadísk menning kemur öðru fremur, einmitt frá Evrópu! Ég held þess utan einhvern veginn að við eigum meiri samleið með ríkjum sem eitt sinn voru nýlendur en gömlu nýlenduveldunum.

Þess utan Baldur:

"Það eina sem gerist við inngöngu í ESB og upptöku Evru er að kjör alls almennings taka hægt og sígandi að batna og verða stöðugri og  réttindi neytenda og launafólks aukast."

Þetta er með betri brandörum sem ég hef heyrt! :)

Hjörtur J. Guðmundsson, 20.5.2009 kl. 18:39

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég verð nú bara að spyrja þig, séra Baldur: Hefurðu leyfi sem prestur til að tala svona? Ég á t.d. við þessa fullyrðingu þína (lbr. mínar):

Það eina sem gerist við inngöngu í ESB og upptöku Evru er að kjör alls almennings taka hægt og sígandi að batna og verða stöðugri og réttindi neytenda og launafólks aukast. Þá fáum við betra verð fyrir útflutningsafurðir okkar."

Heldurðu þetta í alvöru? Veiztu ekki betur? Breytist það t.d. ekki, að lög Evrópubandalagsins fá allan forgang fram yfir okkar lög, þar sem í milli ber og hvað rekur sig á annars horn? Telurðu þetta í alvöru engu skipta, m.ö.o. að þetta sé svo ómerkilegt eða lítilfjörlegt, að það geti ekki einu sinni talizt með því "sem gerist" við inngöngu/innlimun í bandalagið? Eða ertu bara einhvers staðar úti á þekju? Til hver þá að vera að blogga svona bull um þessi mál?

Svo hef ég áður skorað á þig að upplýsa, hversu mikið "betra verð fyrir útflutningsafurðir okkar" þú telur okkur myndu fá. Þú talaðir hér áður um verulega innflutningstolla á fisk frá okkur sem falla myndu niður hjá EB, en varst svo eitthvað klumsa, þegar ég gagnrýndi þær staðlausu fullyrðingar þínar.

Og hvaða "kjör alls almennings" telur þú að muni "taka hægt og sígandi að batna og verða stöðugri" (sic). Áttu við launakjör eða verðlag á matvælum og öðrum innfluttum varningi? Naumast það fyrstnefnda, og hvað hitt snertir, af hverju berstu ekki fyrir því, að við tökum upp tollfrelsisamning við Bandaríkin (eins og kominn er milli okkar og Kanada og telur gildi 1. júlí nk.)? Í USA er mun lægra verðlag á matvælum en í NV-Evrópu. Þar að auki borgar EB ekki flutningsgjöld okkar og bætir okkur ekki upp smæð markaðarins með því að láta útflytjendur lækka verð til okkar.

Og þegar þú talar þarna um "kjör alls almennings," áttu þá í alvöru líka við stóran hluta þess fólks, sem starfar við landbúnað og afleiddar greinar (um 10.000 manns), þ.e. þann stóra hluta, sem missa myndi vinnuna vegna innlimunar í EB?

Hvernig dettur þér í hug að segja, að EB-innlimun hafi engin áhrif á bændafólk hér, þegar hún hefur haft gríðarleg áhrif í Finnlandi?

Og hver hefur tjáð þér (ekki brezkir sjómenn, það er víst), að þessi grundvallarbreyting á stöðu okkar þjóðríkis og réttindum hefði ekki slæm áhrif á einkarétt okkar til fiskveiða hér við land?

Er kannski reglan um "hlutfallslegan stöugleika" fiskveiða hvers ríkis komin inn í trúarjátningu þína? ... þótt þetta reglugerðarákvæði hjá EB geti vel verið á útleið þaðan, skv. tillögum nýrrar Grænbókar þess sama bandalags!

Og þú segir hér: "Í gangi er skelfilegur hræðsluáróður mestan part frá sama fólki sem barðist með oddi og egg gegn þáttöku okkar í EFTA og Evrópska Efnahagssvæðinu," en ég er nú fæddur 1949 og man ekki einu sinni eftir þessari miklu baráttu gegn inngöngu í EFTA, og ekki tók ég þátt í henni fremur en fjöldinn allur af EB-innlimunar-andstæðingum, enda hafði stærsti hluti þeirra ekki einu sinni aldur til!

Svo talarðu óvenju-ábúðarmikill af presti af vera um mál, sem hann er enginn sérfræðingur í: "Efnahagslega séð er upptaka evru ásamt inngöngu í ESB eina raunhæfa lausnin," en þú veizt í 1. lagi, að sú "lausn" tæki um 10–30 ár að sýna sig! Í 2. lagi er dollarinn mun auðfengnari lausn, og í 3. lagi er krónan er eitt öflugasta tækið sem við höfum og "líka besti gjaldmiðillinn fyrir Ísland til framtíðar," eins og Frosti Sigurjónsson skrifar nánar um í góðri grein, sem þú ættir að kynna þér.

Svo mætti ætla, að þú teljir okkur ekki eiga heima hér á Íslandi, heldur úti á meginlandinu. Jón Sigurðsson reyndi ekki að slíta okkur frá menningu Evrópu, og það er enginn að reyna það. Ályktun þín: "Þess vegna eigum við að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga inn ef góður samningur næst," er út í hött, menn afsala sér ekki landsréttindum til að efla eitthvert menningarsamstarf og sízt af öllu við álfu, sem stefnir að hægfara útþurrkun þjóða sinna, sbr. innlegg mín kl. 23:20 og 1:04 á þessari vefsíðu minni.

Með einlægri ósk um, að þinn bezti, innri maður fari að koma í ljós!

Jón Valur Jensson, 20.5.2009 kl. 19:41

4 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Vitanlega er þetta allt rétt hjá þér Baldur, en eins og sést á athugasemdunum þá eru menn alltaf hræddastir við það sem þeir þekkja ekki. Með öðrum orðum: Það sem við höfum, þekkjum við, það sem kemur, ef til vill, þekkjum við ekki og vitum ekki hvernig á að bregðast við: Ergo: Það sem við höfum núna: er gott, það sem kemur síðar, er vont og af því leiðir að framfarir eru af hinu illa!

Ingimundur Bergmann, 20.5.2009 kl. 21:57

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Asnalegt innleg, Ingimundur.

Við þekkjum alveg nóg til þess, hvað innifalið er í því að skrifa upp á alla sáttmála (treaties) Evrópubandalagsins (eins og ætlazt er til við inngöngu) til þess að vita, að það er gersamlega óaðgengilegt og hefði komið okkur öllum í eilífa ónáð hjá Jóni Sigurðssyni forseta, ef hann þyrfti að horfa upp á okkur skrifa undir þvílíkt gígantískt réttindaafsal.

Og af hverju berstu ekki miklu frekar fyrir því, að við sækjum um aðild að NAFTA (sem er eins og hvítt hjá svörtu miðað við EB-innlimun)?

Og hvaða "framfarir" eru fólgnar í því að ganga í bandalag, sem er á fallanda fæti í orðsins bókstaflegu merkingu?

Jón Valur Jensson, 20.5.2009 kl. 22:27

6 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

http://www.youtube.com/watch?v=rH6_i8zuffs&feature=PlayList&p=FBD7EFAE8BE4F748&index=0

Þetta er sannleikurinn um AGS í Argentínu og sama á við í ESB þeir efnameiri og kröfuhafar fá sitt sama hvað það kostar þjóðina eða hinn almenna borgara.Besta sem við gerðum fyrir okkar þjóð ef hún á að ná sér upp aftur er að rétta ESB fingurinn og skila AGS láninu,ef ekki þá verður kreppa hér næstu áratugina....

Marteinn Unnar Heiðarsson, 20.5.2009 kl. 22:32

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Auðvitað á Ísland heima í ESB.  Bara spurning um tíma hvenær landið gerist aðili.

Það er hægt að þvælast fyrir og puðrast eitthvað á móti sögulegri framvindu - en koma í veg fyrir hana ? Impossible.

Vonandi gerist Ísland aðili sem fyrst.  Vonandi verður drifið í að senda þetta bréfsnifsi fljótlega.

Þjóðin mun samþykkja aðild held eg.  Fólk sér í gegnum örfáa háreisnarseggi með hrossabresti.  Búið að fá nóg af Grýlusögum unanfarinna ára og veit betur.

Það eina sem eg hef áhyggjur af er liðið þarna á þingi.  Sumir eru með hálfskrýtna afstöðu og gætu tekið upp á einhverjum þvælingi og puðurslátum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.5.2009 kl. 00:13

8 identicon

Svei mér þá. Ég ætlaði að fara að messa yfir prestinum en Jón Valur átti fína innkomu og er mér fróðari um málið að auki.

Ég stakk við fyrirsögn klerksins um bát í brælu en hvað gerðu forfeður okkar undir ágjöf.  Þeir fóru ekki að tilmælum klerks og rifu segl eða lögðu árar í bát. Þeir spýttu í lófana, tóku á spöðunum og réru eins fast og lengi það tók þá að komast til hafnar. Og hér erum við afkomendur þeirra í fínu landi alveg sneysafullu af auðlindum sem eiga bara eftir að verða verðmætari.

Og þá kemur klerkur og segir okkur vart matvinnunga sem eigum að segja okkur til ESB sveitar sem hreppsómaga.

Ferlega hefurðu litla tiltrú á fólkinu í landinu séra minn.

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 00:27

9 Smámynd: Kristján Torfi Einarsson

Þú ert allavega hreinskilinn um ástæðuna: Ég hef þá skoðun, og hef lengi haft, að Ísland eigi heima meðal þjóða Evrópu.  Félagslega, menningarlega, sögulega eigum við þar heima.  Þess vegna eigum við að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga inn ef góður samningur næst.

"Ísland eigi heima meðal þjóða Evrópu," en eru þetta rök? Er þetta ekki frekar einhverskonar hugmynd þín um sjálfan þig sem Evrópubúa? Eigum við ekki t.d. meiri samleið með Kanada en Rúmeníu, Ungverjalandi og Eystrasaltsríkunum? 

Efnahagsleg rök fyrir inngöngu eiga ekki lengur rétt á sér í ljósi þess að hagkerfi ESB er á hraðleið í bölvuð vandræði. VLF í Þýskalandi drógst t.d. saman um 4% á 1. ársfjórðungi og hefur aldrei minnkað jafnmikið. Sjálfur hefur ég búið á Suður Spáni síðastliðin ár og við þurfum að minnsta kosti eitt hrun í viðbót til þess komast í sömu vandræði og hér ríkja. 

Kristján Torfi Einarsson, 21.5.2009 kl. 10:37

10 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það hefur borið á örlitlum misskilningi varðandi það að Íland geti bara tengst eða gerst aðili að Kanada eða BNA, Noregi eða Kína eða what ever land sem mönnum dettur í hug að nefna og það sé einhver jafnhliða kostur við aðild að esb.

Ekkert fjær sanni.

Sko, Ísland á rétt á að gerast aðili að ESB.

Það að Ísland óski aðildar að samstarfi evrópuríkja er ósköp rökrétt og eðlilegt skref miðað við aðstæður og tímanns straum.

Allt tal um Kanada og Kína er bara útí hött en að vísu dæmigert fyrir málflutning andsinna.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.5.2009 kl. 11:08

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Enginn vill gerast "aðili að Kanada eða Kína" o.s.frv., en meðan við erum utan Evrópubandalagsins, höfum við frelsi til samninga um utanríkisviðskipti og tollamál. Við fengum tollfelsissamning við Kanada, það er mjög mikilvægt skref fram á við (kemur til framkvæmda 1. júlí nk.), og þegar NV- og NA-leiðirnar opnast norður fyrir Kanada/Alaska og Rússland/Síberíu, sem búast má við innan áratugar, opnast góðar viðskiptaleiðir til landa eins og Kína, Japans og S-Kóreu, þar sem er margfalt meiri fiskneyzla heldur en nokkurn tímann í þessu EB. Innlimun í það bandalag myndi hins vegar banna okkur að gera slíka samninga! Og hver var að tala um "einangrunarhyggju"?!

Jón Valur Jensson, 21.5.2009 kl. 11:48

12 Smámynd: Kristján Torfi Einarsson

Bjarki, hvers vegna ættum við ekki að gera fríverslunarsamninga við Kanada, BNA og Kína, eða samning um frjálsa för verka- og námsmanna?

Ef við göngum í ESB þá lokast möguleikar okkar til þess að gera slíka samninga. Er það ásættanlegt? Veistu þú hvernig alþjóðleg viðskipti munu líta út eftir 10 ár 20 eða 30? Er ekki líklegt að hlutdeild og áhrif Evrópu í viðskiptum heimsins munu minnka á næstu áratugum, sér í lagi í ljósi uppgangsins Kína.

Þessi Eurocentrismi gæti auðveldlega bundið okkur í átthagafjötra. Í raun er rök aðildarsinna mjög keimlík rökum þjóðernissinna hér áður. Óljósar hugmyndir um að tilheyra einhverri heild með vísun í "félagslegar" rætur og "sögulega framvindu".       

Kristján Torfi Einarsson, 21.5.2009 kl. 12:50

13 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Fólk er bara á villigötum þarna.  Fríverlunarsmningur þetta og fríverslunarsamning við hitt.

Staðreyndin er sú, þ.e ef menn vilja horfa á þetta afmarkaða atriði, að hagsmunum íslands er lang best borgið innan ESB að þessu leiti í heildina séð.   Allt tal um annað er einfaldega rangt,

Einnig þetta tal um fríveslun við Kína, eg er á móti því - nema þá í samstarfi og gegnum ESB.

(vonandi eru íslendingar hætti að paufast í þessum samningum við þá)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.5.2009 kl. 13:38

14 identicon

Ómar, þú ertu á móti fríverslun við Kína? Upprunaland alls heita dótsins, eitt mikilvægasta framleiðsluland vestræns neysluvarnings....Mesta neytendabótin

Það er nú ekki alveg í lagi að röfla svona kallin min og svo eru þetta forsendurnar sem þú gefur þér fyrir fullveldisafsali. kommon.

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 13:52

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þar að auki myndi Evrópubandalagið aldrei gera tollfrelsissamning við Kína, af því að það myndi rústa textíliðnaði í EB og mörgum öðrum framleiðslugreinum. EB-þjóðirnar mega ekki við auknu atvinnuleysi! Þess vegna dytti herrunum í Brussel aldrei í hug að afnema tolla í viðskiptum við Kína vegna okkar Ísendinga, hversu mjög sem slíkt tollfrelsi myndi gagnast okkar fiskútflutningi.

Jón Valur Jensson, 21.5.2009 kl. 13:58

16 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Gylfi, hefurðu kynnt þér ástand mannréttindamála í Kína ?

Ísland á ekki að koma nálægt Kína.  Ekki nálægt. 

En það er þannig með ykkur andsinna, þið liggið marflatir fyrir ríkjum þar sem réttindi fólks eru fótum troðin en þegar um er að ræða samband sem er í fararbroddi mannréttinda, umhverfismál og mannlegrar reisnar - nei, þá má helst ekkert samand hafa þar.  Þá öskra menn bara: Kína, Kína !

Það er bara ekki í lagi með ykkur andsinna stundum.  Eruð ekki nógu jarðbundnir og metið ekki mál af yfirvegaðri skynsemi og þokkalegu raunsæi.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.5.2009 kl. 14:56

17 identicon

Auðvitað eru til skítlegir vinnuveitendur í Kína, og líka í Evrópu. En það vill svo til að þeir eru mikilvægasta framleiðsuland heims og reksturinn minn gæti ekki borið sig ef ég ætti að beina viðskiptum mínum til Evrópskra heildsala sem eru búnir að smyrja 2-300% á non-brand kínavörur.

Tollaívilnanir á Kínavörur myndu einfaldlega hjálpa til við að styrkja mitt starf sem felst m.a. í að kaupa í asíu og selja til Evrópu í stað þess að láta Evrópu hirða álagninguna eins og svo algengt er að íslendingar láti bjóða sér.

Að standa utan ESB er heilt fljót möguleika því eins og i öllum viðskiptum þá er ESB samþjöppunin að skapa möguleika fyrir litla spilara. Evrópa er einfaldlega háð Asíuframleiðslu eins og restin af heiminum og góður kínasamningur opnar miklu merkilegri trade gátt heldur en samningur við evrópska okrara.

Við höfum alla möguleika til að gerast mjög stór "Tradingþjóð" með inn-og útflutning sem skilur bara eftir álagningu og flutningstekjur en ESB lokar fleiri dyrum en opnar og það sér hvaða buisnessmaður sem er.

Við eigum góð fríspil í dag og getum enn bætt við þau og það síðasta sem við þurfum er að láta okkar innlima okkur í verndað viðskiptasmband.

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 15:18

18 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, við öskrum ekki, Ómar Bjarki, og segjum heldur ekki "bara: Kína, Kína!" heldur bendum við á frelsið, sem við höfum með sjálfstæðinu til að gera okkar eigin utanríkis- og viðskiptasamninga við nánast hvaða lönd sem er.

Við köllum allt eins: Japan, Indland, Brasilía, Argentína, Suður-Afrika, Marokkó, Bandaríkin, Perú, Suður-Kórea, og við bjóðum mönnum að sjá þá kosti að aðstoða þriðja heims lönd með því að brjóta niður tollmúra, sem gera þeim erfitt um vik að fá viðunandi verð fyrir hráefni sín, í stað þess að láta múrast af í þessu sjálfselska Evrópubandalagi.

"Efnahagsbandalagið verður miklu áhrifameira tæki til að halda þróunarlöndunum í skefjum en nokkurt nýlenduveldi hefur nokkru sinni haft ráð á," sagiNehru, forseti Indlands (faðir Indiru Gandhi).

"Efnahagsbandalagið er tæki til að halda óbreyttu ástandi meðal ríkra þjóða og fátækra" sagði Nkrumah, forseti Ghana.

"Með Efnahagsbandalaginu eru gömlu nýlenduveldin að reyna að ná aftur tökum á ríkjunum í Afríku" – og: "Okkur er bezt borgið með því að skipta við Evrópuríki utan Efnahagsbandalagsins." – Tom Mboya, Kenýa.

Þeir vissu, fyrir hönd þjóða sinna, hvað til þeirra friðar heyrði.

Jón Valur Jensson, 21.5.2009 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband