Strandarkirkja, kirkja vonarinnar!
23.5.2009 | 09:52
Þegar Íslendingar ferðast um land sitt í sumar er upplagt að koma við í Selvoginum og heimsækja Strandarkirkju. Strandarkirkja er kirkja sjómanna, kirkja alþýðunnar, kirkja vonarinnar. Hennar er fyrst getið í Kirkjuupptalningabók Páls Jónssonar biskups í Skálholti en sá var á fótum um aldamótin 1200. Helgisögnin segir ungur bóndasonur úr uppsveitum Árnessýslu hafi ásamt skipshöfn sinni verið að koma frá Noregi með við til húsagerðar. Þegar þeir voru komnir nær landi brast á ofsave
ður, þoka og dimmviðri og þeir héldu að þeir væru að farast. Ótti manna við hafnlitla suðurströndina hefur verið mikill bæði fyrr og síðar. Þeir hétu því að byggja kirkju næðu þeir landi þar sem þeir næðu landi. Það skipti engum togum að við þeim blasti ljós, þeir réru á ljósið, skyndilega varð allt kyrrt, þegar birti af degi sáu þeir að þeir höfðu róið eftir örmjórri rennu gegnum mikinn brimgarð. Þeir reistu kirkjuna Strandarkirkju sem nú er mesta áheitakirkja á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Hægt er að fá meiri upplýsingar um kirkjuna á www.kirkjan.is/strandarkirkja
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:01 | Facebook
Athugasemdir
Ég hét einu sinni á þessa kirkju. En það gekk ekki eftir.
Sigurður Þór Guðjónsson, 23.5.2009 kl. 13:07
Samt er þetta töff kirkja sem ég held upp á.
Sigurður Þór Guðjónsson, 23.5.2009 kl. 13:08
Merkileg og falleg kirkja, og fermingarkirkjan mín. En ég heyrði eitt sinn þá sögn að alltaf skini sól á Strandakirkju, þá messað væri. Hvort eð heldur sem væri vor, sumar, haust eða dimmasti vetur. Hefur þú heyrt af þessu séra Baldur? Eða upplifað sjálfur? Var sjálf fermd á blautum og gráum vordegi af séra Tómasi fyrir...ja allmörgum árum síðan. Taldi ekki líklegt að sól færi að skína þessa stuttu stund í kirkjunni svo dimmt var yfir þá messa hófst. En viti menn sólin lét sjá sig og skein inn um kirkjuglugga, þá fermingabörn gengu til altaris í fyrsta sinn.
Kveðja frá fyrrum sóknarbarni.
Sigríður Sigurðardóttir, 23.5.2009 kl. 19:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.