Hitti því miður ekki Dalai Lama!
2.6.2009 | 10:32
Ég hef því miður ekki átt þess kost að hitta Dalai Lama og enginn á hans vegum hefur heldur haft samaband við mig. Ég er í raun og veru hálf feginn því að þar með losna ég við óþægindi af hálfu kínverska stjórnvalda. Annars er mér hlýtt til Tíbetska búddans og kann að meta kenningar hans um þýðingu jákvæðs hugarfars. Þær hafa ratað inn í aðra hverja sjálfshjálparbók í veröldinni. Ég fylgdist grannt með flótta hans frá Tíbet yfir til Nepals held ég í fréttum Ríkisútvarpsins árið 1959 minnir mig sem sagt fyrir sléttum 50 árum. Dalai Lama var þá á flótta í fjallaskörðum milli Tíbets og Nepal dögum og jafnvel vikum saman með kínversk stjórnvöld á hælunum. Það spurðist ekki til hans dögum saman. Ríkisútvarpið gerði þessu mjög góð skil. Þessi fréttaflutningur höfðaði mjög til barnsins og sennilega hámark þeirrar spennu sem ég upplifði sem barn fyrir tíma tölvuleikja. Hvort sem þetta hefur orðið til þess að ég er sá andlegi leiðtogi sem ég er skal ósagt látið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.