Hvað með trúarjátningu Framsóknarmanna?

Ég var gjörsamlega tekinn í bakaríið í gær.  Kom inn á kaffistofu verkstæðis og til þess að halda uppi samræðum sagði ég eftir vandræðalega þögn:  ,,Þeir eru samir við sig Framsóknarmennirnir, vilja gefa öllum upp skuldir”.  Það var eins og skrattinn hefði losnað af nagla.  Það sem ég hélt vera venjulega íhaldsmenn reyndust vera grjótharðir Framsóknarmenn sem réðust á mig með kjafti og klóm, þuldu trúarjátningu formanns síns afturábak og áfram sópuðu upp dæmum um það hvað 20% niðurfelling skulda myndi glæða útbrunnið samfélag, allur tilkostnaður yrði hagnaður.  Ég var gjörsamlega kjaftaður á kaf og eftir smá útúrsnúninga að hætti Íslendings þóttist ég þurfa að hverfa til þýðingarmeiri starfa og hvarf á braut með skottið vel falið upp í frakkanum.Nú skora ég á einhvern lesanda þessarar síðu að setja svona í tíu línum þulu sem ég á að fara með við svona erfiðar kringumstæðum því að ég vil gjarna styðja það fólk af heilum hug sem tók að sér að skafa flórinn eftir ríkisstjórnir sem fylgdu hugmyndafræði nýfrjálshyggju. Ef hugmyndir Framsóknar eru hins vegar eins góðar og kaffistofan lét þá á að gefa þeim gaum.  Geta þær ekki virkað með einhverjum takmörkunum? Ég myndi útaf fyrir sig fagna því ef íbúðarlán mitt hrykki saman um 20% en enginn má hugsa um sjálfan sig þegar hann tekur afstöðu í samfélagsmálum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Baldur.

Tillögur Framsóknar, Tryggva Þórs, Marinós Njálssonar og eða afbrigði Lilju Mósesdóttur eru allar mjög áhugaverðar og raunhæfar. Tilgangurinn er sá sami, lækka greiðslubyrði almennings af húsnæði, jafnvel fyrirtækja, og með þeim hætti auka neyslufé sem svo aftur eykur veltu í samfélaginu, skapar störf og kemur "kerfinu" í gang aftur.

Vandamálið er að svo virðist sem einu naglföstu eigur gömlu/nýju bankana séu einmitt þessi sömu lán.  Banki sem á engar eigur og hefur ekkert fé er óstarfhæfur. Í stað þess að minnka bankakerfið t.d. með því að sameina eða leggja niður einn eða fleiri af bönkunum þá virðist eiga að reyna að "redda" þeim öllum.

Þegar ég áttaði mig á hve illa bankarnir standa, þ.e. að öll útrásarfyrirtækin og lánasöfn eru nánast einskis virði dofnaði áhuginn fyrir niðurfærsluleiðinni. Meðan halda á óbreyttri stefnu varðandi uppbyggingu bankakerfisins, enginn hagræðing, engar nýjar hugmyndir, þá virðist ljóst að niðurfærsluleiðin er nánast ófær. Það eru engir peningar til nema þeir sem koma beint úr vasa almennings. Þetta virðist vera hornsteinninn í áætlun fyrri og núverandi ríkisstjórnar í samstarfi við AGS.

Vonandi geta einhverjir bætt um betur við þetta innlegg eða leiðrétt ef þörf er á.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 09:06

2 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Sæll Baldur. Þú ert ekki einn um að hafa lent í því að reyna hið vonlausa, þ.e. að reyna að rökræða við framsóknarmenn um stöðu mála í þjóðfélaginu. Held helst að best sé að láta sem ekkert sé og sleppa því að ræða þjóðmálin við þá nú um stundir. Vitanlega eiga þau erfitt, hafandi borið ábyrgð á því hvernig málin þróuðust úr því sem þau trúðu að væri besti heimur allra heima í eitthvað allt annað það sem þau hefðu viljað. Þau fáu sem eftir eru í flokknum gera hvað þau geta til að koma með lausnartillögur á vandanum, sem vel að merkja, skapaðist af því umhverfi sem þau voru svo iðin við að skapa í sinni tíð. Ég er mest hissa á því að Sigmundur og co. skuli ekki leggja til algjöra niðurfellingu skulda. Það væri svolítið verklegt, framsóknarlegt og ef það næði fram að ganga: Hve glaður tæki maður ekki á móti póstinum alla daga!! 

Ingimundur Bergmann, 5.6.2009 kl. 14:51

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú veist hvað það þýðir að láta taka sig í "bakaríið"..er það ekki. Hissa á svo skinhelgum manni að nota svona orðbragð, ef þú fyrirgefur.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.6.2009 kl. 04:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband