Húsið góða á Höfn!
23.6.2009 | 20:38
Gauti Árnason sendi mér þessa mynd af fundarhúsi Kaupfélags Austur- Skaftfellinga (KASK) sem hýsir nú Cafe Tuliníus kaffihúsið góða. Var ekki þetta hús flutt frá Papósi um næstliðin aldamót ásamt Gömlu Búð sem stóð andspænis en svolítið austar og hýsti verslunina en stendur nú upp í Byggðasafni sem Byggðasafnshús? Þessi flutningur markar upphaf Hafnarkauptúns þ.e. Hafnar í Hornafirði. Þetta hús er með fallegri húsum. E.t.v. er þetta fallegasta húsið á Höfn? Þarna bjuggu sem sagt kaupfélagsstjórarnir þ.m.t. Ásgrímur Halldórsson ásamt konu sinni Guðrúnu Ingólfsdóttur og þarna ólust því upp Halldór og Ingólfur Ásgrímsynir og Katrín systir þeirra. Þetta var sem sagt eins og fram kom í fyrri færslu minni á þeim tíma þegar hagnaður af versluninni varð eftir í byggðinni en það var einn helsti akkurinn í kaupfélögunum. Komment sem bæta við þessa færslu eða leiðrétta hana eru vel þegin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Baldur. Húsið var byggt árið 1897 hér á Höfn, það stóð aldrei á Papós. Þegar húsin á Papós voru rifin var efnið úr þeim flutt bæði sjóleiðis, þá á prömmum sem voru dregnir út úm Papós og inn um Hornafjarðarós, mikið afrek það. Einnig voru stærstu bitarnir dregnir upp Skarðsdalinn og skutlað framaf Almannaskarði, enda vegurinn ekki nema slóði þá og engin voru nú göngin.
Eina húsið sem var reist aftur í fyrr mynd var Gamlabúð, þó var þakinu breytt. Það er rétt hjá þér að Gamlabúð stóð svolítið austar, milli Kaupmannshússins, eins og það var kallað í upphafi, og pakkhússins.
Í seinni tíð, eftir 1920 þegar KASK varð til, gekk húsið og gengur enn undir nafninu Kaupfélagshúsið. Þetta hús var heimili kaupmannsins, Ottós Tuliniusar, svo Þórhalls Daníelssonar, sem seldi svo KASK húsið. Eftir það bjuggu alltaf kaupfélagsstjórnarnir í húsinu allt að því að Hermann tók við af Ásgrími. Hans fjölskylda var síðst í röð kaupfélagsstjóra sem áttu þarna heimili.
Þetta er glæsilegasta hús á Höfn og jafnvel víðar. Ég er svo hægveskur, enda skaftfellingur, að ég get ekki sagt að þetta sé fallegast hús á landinu, en það er það samt kanski.
Lengi vel voru þarna fullt af vinnufólki, búinn að fá í heimsókn konur sem voru í vist hjá kaupfélagsstjórunum, sem eru búnar að segja mér sögur. þetta voru mikil hefðar heimili, öll gólf voru skúrðu á hverjum degi þegar Jón Ívarssson, stundum kallaður Jón grimmi, bjó þarna, og margt eftir þessu.
En það er gríðarlega góður andi í þessu húsi og forréttindi að fá að starfa í því. Bestu kveðjur frá Höfn Gauti Árnason
Gauti Árnason, 23.6.2009 kl. 21:29
Þakka þér fyrir Gauti. Ég hefði betur flett þessu upp en með þessari leiðréttingu og áréttingu ætti þetta að vera orðið sæmilega rétt. Kv. B
Baldur Kristjánsson, 23.6.2009 kl. 23:22
Mér brast bréf frá Hermanni Hansyni sem fyllir enn betur upp í myndina og set ég það hér með hans leyfi svo að feliri megi njóta og til þess að vitneskju sé haldið til haga:
,,Þakka þér fyrir vinsamleg skrif um hús og mannvirki á Höfn þ.e.nýju glæsilegu sundlaugina okkar, Kaupfélagshúsið við Hafnarbraut 2 , elsta íbúðarhús á Höfn, þar sem nú er rekið myndarlegt kaffihús Cafe Túliníus - og Hafnarbraut 4, sem áratugum saman hýsti verslun og skrifstofur Kaupfélags Austur-Skaftfellinga, en nú hefur verið breytt í veitingahúsið Humarhöfnina. Eins og komið hefur fram í fyrri skrifum þínum og ágætri viðbót Gauta Árnasonar, lét Ottó Túliníus kaupmaður byggja húsið að Hafnarbraut 2 árið 1897, þegar hann flutti verslunina í Austur-Skaftafellssýslu frá Papósi í Lóni til Hafnar í Hornafirði. Það var síðan íbúðarhús kaupmannanna á Höfn á árinum 1897 til 1920 en kaupfélagsstjóranna hjá Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga frá 1920 til 1975. Upp úr 1980 var húsinu breytt þannig að íbúð var einungis á efri hæð svo er enn en á neðri hæð var fundaaðstaða kaupfélagsins. Lítið einkahlutafélag, sem einfaldlega heitir Kaupfélagshúsið ehf. hefur verið eigandi hússins frá árinu 2005. Við sem að því félagi stöndum höfum undanfarin ár unnið að því að láta gera húsið upp með það fyrir augum að tryggja varðveislu þess og notkun til framtíðar. Til þessa verkefnis höfum við notið fjárhagslegs stuðnings frá Húsafriðunarnefnd og frá fyrirtækjum bæði hér heima og á landsvísu auk lánsfjár og fjármuna sem eigendur hafa lagt fram. Árangurinn af þessu verkefni sést nú í glæsilegu útliti hússins en ber auðvitað líka hornfirskum iðnaðarmönnum fagurt vitni.Það er ef til vil tímanna tákn, að þessi tvö hús við Hafnarbrautina, sem áður voru höfuðstöðvar Kaupfélags Austur-Skaftfellinga, skuli nú hafa fengið nýtt og gjörbreytt hlutverk. Persónulega er ég sannfærður um að þar hafa verið teknar ákvarðanir sem haft hafa umtalsverð áhrif á þá miklu og jákvæðu þróun sem varð í atvinnulífi, byggð og lífskjörum í Austur-Skaftafellssýslu mestan hluta síðustu aldar. Jafnframt er ég sannfærður um að í nýju hlutverki munu þessi hús áfram setja svip sinn á sitt umhverfi og starfsemin vonandi verða til heilla fyrir land og lýð."Baldur Kristjánsson, 24.6.2009 kl. 12:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.