Sjálfstraust ættgegnt fyrirbrigði!
6.7.2009 | 08:44
Ég les í Daily Telegraph (2. júlí) að sjálfstraust sé genabundið ekkert síður en greind. Hingað til hefur það verið almenn skoðun að sjálfstraust ráðist einkum af uppeldislegum þáttum. Þetta virðist passa. Oft ganga kynslóðir sama veg. Synir og dætur lenda á svipaðri hillu og foreldrar. Virðast setja sér svipað hátt þak.(Gjörbreyting á aðgengi að menntun og flutningur úr sveit í borg gerir íslensku myndina á síðustu öld flókna) Synir og dætur alþingismanna verða t.d. oft alþingismenn (samkvæmt þessu urðu Guðni Ágústsson, Björn Bjarnason og Árni Matthiesen ekki alþingismenn vegna ættartengsla heldur vegna þess að þeir höfðu erft svipað sjálfstraust og feðurnir).
Sé þetta rétt ætti árangur af sjálshjálparbatteríinu sem byggir einkum á því að auka sjálfstraust að vera takmarkaður. Flestir þeir sem stunda lestur slíkra bóka (og hlusta á spólur) þekkja það að árangur er enginn, aðeins tímaeyðsla. Því hefur meira að segja verið haldið fram að þetta virki öfugt (svartsýnt og niðurdregið fólk þurfi á svartsýnum og niðurdregnum hugsunum sínum að halda til að þrífast almennilega, sjálfstraust manns minnki hreint og beint við það að lesa stöðugt að hann sé frábær og geti flest).
Það sama gildir þá um raus okkar prestanna í sömu veru. Það eykur þá bara á vanda fólks.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Einhvern tímann las ég hins vegar mjög merka könnun gerða í Svíþjóð sem leiddi í ljós að börn úr efri lögum samfélagsins með lága eða meðalgreindarvísitölu einsog synir alþingismanna td ættu greiðari aðgang að langri menntun og góðum embættum en þeir sem væru með með háa greindarvísitölu meðal pöbulsins. Svo er það líka þetta sem Frakkar kalla menningar"auðmagn" og gengur að erfðum líkt og beinir peningar og fjárfestingar!
María Kristjánsdóttir, 6.7.2009 kl. 10:45
Þetta hlýtur að vera samspil margra þátta, erfða og umhverfis. Ekki eitthvað einfalt. En reyndar er það ekki alveg það sama, persónulegt sjálfstraust einstaklinganna og aðgengi þeirra að menntun og góðum embættum. Velgengni í ýmsum atriðum er heldur ekki sama og sjálfstraust. Þess eru mörg dæmi t.d. um listamenn (svo sem Bruckner) að sjálfstraust þeirra almennt talað var í engu samræmi við getu þeirra í því sem þeir voru bestir í. Sjálfstraust er marghliða fyrirbæri.
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.7.2009 kl. 13:47
Skortur þeirra á sjálfstrausti var í engu samræmi við getu þeirra vildi ég sagt hafa.
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.7.2009 kl. 13:48
Þetta var nú gott að heyra. Útrásarsvínin geta nú kennt feðrunum um sjúklega óbilanlegt sjálfstraust sitt. Það er bara í genunum. Var eitthvað í greininni um hvort loddaraháttur gengur í ættir? Mér sýnist að það geti verið tilfellið.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 6.7.2009 kl. 14:51
Þetta flókna samspil erfða og umhverfis er sístætt. Ég held það sé mikið til í þessu með genin og félagslega væntingar og stuðning umhverfisins. Held að mikið sé til í því að fjórðungi bregði til fósturs.
Svo veltur mikið á þeim ákvörðunum sem einstaklingurinn tekur í samræmi við forgangsröðun hans.
Sumir setja það í forgang að verða ríkir, aðrir að ráða miklu. Við erum líka mörg sem viljum ekki taka þátt í baráttunni um völdin og auðinn því þá þurfum við að nota aðferðir sem okkur líka ekki. (tala af reynslu og ekki meira um það)
Ástandið núna er líka því að kenna að við nenntum ekki að rýna í ástandið og gera athugasemdir við það, nógu mörg, á þann hátt að áhrif hefði.
Það er þægilegast njót góðæris meðan það stendur með sínu fólki og skítt með alla skynsemi og þetta reddast.
Hólmfríður Pétursdóttir, 6.7.2009 kl. 19:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.