Óskað eftir bakhjarli

Hver vill vera bakhjarl minn ef ég reyni að kaupa Tottenham Hotspur?  Ég er eins og gaurinn sem keypti West Ham aðdáandi Spurs allt frá því að þeir unnu tvöfalt árið 1961 og Jimmy Greaves bar af öðrum framherjum í heiminum.  Ekki horfði ég á þetta í sjónvarpi en ég heyrði pabba minn tala um það. Það dugði.  Síðan verður Tottenham eins konar ættarfylgja eins og hver annar íslenskur draugur eða skotta. Kemst ekkert frá manni, fylgir mér og börnunum mínum og væntanlega þeirra börnum eins og hver annar Þorgeirsboli.

Þó að Tottenham sé eitt af ríkustu liðum veraldar og sé yfirleitt í efti hluta ensku úrvalsdeildarinnar hefur því ekki tekist að halda sér í allra fremstu röð félagsliða í heiminum.  Liðið er ákjósanlega í sveit sett nálægt miðju Lundúna en svo einnkennilegt sem það kann að virðast hefur liðum úr dreifbýlinu svo sem Manchester og Liverpool gengið betur inn á vellinum. Þetta hefur nú haft þann augljósa kost fyrir mig að ég hef haft tóm til að sinna öðrum áhugamálum því að þegar illa gengur fylgist maður minna með. Það hefur og hjálpað í þessum efnum að hitt liðið mitt er Fram á Íslandi og gengi þess hefur einnig verið dapurt yfirleitt.

Kveikja þessarar skrifa er sú að ég gæti vel hugsað mér að kaupa liðið mitt þ.e.a.s. Tottenham, hætta prestskap, setjast að í London og koma því í allra fremstu röð.  Það eina sem mig vantar er bakahjarl. Þar hlýt ég að renna hýru auga til KB banka.  Bæði er það að ég á í bankanum og svo hitt að bankinn og ég erum upprunnir úr svipuðu umhverfi.  Raunar erum við Sigurður Einarsson báðir synir mætra Framsóknarmanna.

Ég yrði ekkert hræddur við þessa fjárfestingu.  Ég hef reynslu af því að reka trúarsöfnuði og alveg haldið mér í miðri deild í þeim efnum.  Þetta er svipað. Maður reynir að fylla leikvanginn á hverjum sunnudegi. Það er miklu auðveldara sýnist mér í fótboltanum en í kirkjunni.  Lykilatriðið í sambandi við fótboltann er að kaupa góða leikmenn og láta þá æfa á hverjum degi.  Maður þarf ekki að hafa áhyggjur af því að auglýsa því að íþróttafréttamenn virðast vera áfjáðir í að segja frá því hvað er á seyði.

Og nú bíð ég bara eftir símtali. Áhugasamir bakhjarlar hringi í síma 8980971.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband