Hættu að bíða eftir því að þú sláir í gegn
21.12.2006 | 19:45
Ég held að skaparinn hljóti að hafa gert ráð fyrir því, ef menn á annað borð lifðu svona norðanlega á hnettinum, að það yrði snjór yfir háveturinn. Snjólaust er þetta svo dimmt. Og mannskepnan þarf ljós til að þrífast. Svo er um mig að minnsta kosti og marga sem ég þekki. Sem betur fer koma jólin inn í þetta, og það var kannski ætlunin. Vegna þeirra er rafmagnsljós í hverjum glugga, á hverjum svölum og ljósaskreytingar á hverri þúfu. Og svo lýsir boðskapur jólanna, sem ekki þarf að tíunda sérstaklega fyrir vel upplýstum lesendum, upp sálartetrið því að boðskapur jólanna er ljós í myrkrinu, von í vonleysinu e.k. land fyrir stafni í lífsins ólgusjó.
Ég rakst á heilræði á dögunum, það var í lítilli bók sem góður kunningi minn tók saman fyrir jólin og gaf mér. Bókarkornið er um lífið og tilveruna og hún endar á hugleiðingu um það hvernig við höndlum hamingjuna. Ég ætla að deila með ykkur þessum ráðleggingum:
Hættu að bíða eftir því að þú ljúkir námi, farir aftur í nám, að þú léttist um 10 kíló eða þyngist um annað eins, að þú gangir í hjónaband, að þú fáir skilnað, nýjan bíl eða nýja íbúð, að þú eignist börn, að börnin fari að heiman, að þú byrjir að vinna, að þú hættir að vinna. Hættu að bíða eftir föstudagskvöldinu, að fjárhagurinn komist í lag, að útborgunardagur launa renni upp, að vorið gangi í garð, að sumarið banki upp á, að snjórinn byrji að falla. Hættu að bíða eftir því að þú sláir í gegn. Minnstu þess að núna er stundin til að vera hamingjusamur, hættu að drepa tímann því tíminn er þitt eigið líf. Lifðu lífinu. Njóttu augnabliksins. Þú átt bara þetta eina líf.
Jamm, byrjum á því að njóta jólanna, slökum á og njótum þessara yndislegu daga eða réttara sagt gerum þá yndislega með því að njóta þeirra. Njótum þess sem er. Sjáum: blikið í auga barnsins, alúðina sem Stína frænka hefur lagt í jólakortið, ástina í auga maka þíns, stolt ömmunnar, fegurð smákökunnar.........
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.