Af hverju taka Norðurlöndin sig ekki saman?

Einn maður situr við tölvuna sína. Getur ekki sofið. Myrkur úti.  Vindur gnauðar.  Í mínu húsi heyrist alltaf hátt í roki, eins og allt sé að farast. Kirkjugarðurinn blasir við, ljósum skreyttur og kirkjan, þessi fræga Þorlákskirkja. Hún er óneitanlega sérstök. Engin kirkja sem ég man eftir alveg eins.  Ekki einu sinni svipuð, nema ef vara skyldi kappella Jóns Steingrímssonar á Klaustri. Varla þó meira en

svipur með þeim.

Það er von að það sé dimmt úti.  Enginn sólmyrkvi eða svoleiðis heldur lengsta nótt ársins ásamt með síðustu nótt., sem sagt vetrarsólstöður, langt í sólina. Nóttin er dimm þegar ég horfi frá bænum og framhjá kirkjunni, niðadimm. Ég sé því ekki neitt, ekki spönn út í ómælisdjúp geimsins sem er svo stór að það hrapar að óendanleika. EF heimurinn væri óendanlegur þá kæmi að því –hafiði hugsað út í það – að það fyndist samskonar hnöttur og okkar – nema að eitthvað eitt atriði væri öðruvísi.  Allt eins nema það vantaði einn ljósastaur, eða eitt grjót eða einn mann, skrítið, já óendanleikann er eiginlega erfitt að tileinka sér enda ekki hægt að sanna óendanleika stærðfræðilega hef ég fyrir satt, en svona fast að því.

Gaman væri nú ef til væri hnöttur eins og okkar nema að það vantaði malaíu. En þá væri hann ekki eins og okkar hnöttur. Það væri miklu meira um gleðihlátra barna, miklu minni grátur. Kannski sá hnöttur hefði bara annan djöful að draga?  Það væri líka gaman ef til væri hnöttur eins og okkar nema að þar væri engin HIV veira.  En þá væru hann ekkert eins og okkar. Þar væru miklu færri munaðarlaus börn til dæmis.  En kannski sá hnöttur hefði þá bara einhvern annan djöful að draga?

Hví skyldi ég nú hugsa svona.  Má ekki hugsa sér hnött þar sem allt er í himna lagi á.  Engin munaðarlaus börn, engin vannæring, engin fátækt, engar ömurlegar aðstæður eða þá stríð, engir harðstjórar, engin fúlmenni eða illmenni sem komast upp með að kvelja, pynda og meiða aðra.

Heimspeki samtímans þ.m.t. kristin heimspeki segir okkur að maðurinn sé fallvölt vera og þess vegna hjóti heimurinn alltaf að vera ófullkomin. Þetta sé og verði syndsamur, óréttlátur heimur. Allar tilraunir til að skapa algóðan heim hafa snúist upp í andhverfu sína og við sem nú erum þekkjum og munum kommúnuismann og kinkum kolli.

En eigum við að gefast upp þess vegna eða halda bara áfram af hálfgerðri sýndarmennsku að leggja smávegis að mörkum. Af hverju er ekki fyrir langa löngu búið að grafa 1.000.000 brunna í Afríku? Af hverju er ekki löngu búið að fella niður alla tolla af landbúnaðarvörum frá álfu þeirri?  Af hverju eru fremstu hagfræðiheilar samtímans ekki hafðir til þess að finna ráð til að brauðfæða allt fólk í veröldinni?  Af hverju? Af hverju? Af hverju?

Það er sennilega vegna þess að mannskepnan er ekkert sérlega vel gefin þó hún sé heldur betur gefin en t.d. hestar sem eru þó ratvísari og hugsanlega minnugri á sumt og greina betur bragðgæði heys.  Maðurinn er ekki nógu stór í heilasniðum til þess að geta litið á allan heiminn sem vettvang sinn. Hans svæði er bara brot af heiminum og innan þess svæðis þarf hann að tilheyra ennþá minni einingum. Svo er hann upptekinn við að hafa í sig og á.  Hjá flestum jarðarbúum er það fullt dagsverk, dag eftir dag, ár eftir ár, stanslaust puð sem er að mestu leyti fólgið í því að færa til hluti á yfirborði jarðar í þeim tilgangi að stífla ár, byggja brýr og rækta korn.

Af hverju taka Norðurlöndin sig ekki saman. Þessi fimm eða sex ríku lönd, af hverju taka þau sig ekki saman og skera upp herör gegn hungri, vannæringu, barnadauða, fátækt og misrétti í heiminum.  Af hverju láta þau ekki sameiginlega heyra í sér á alþjóðavettvangi.  Evróðuráðið  hugsar fyrst og fremst um mannréttindi í Evrópu. Evrópusambandið er að reyna að hugsa um mannréttindi en þá fyrst og fremst i Evrópu en er fyrst og fremst tolla- og viðskiptabandalag.  Sameinuðu Þjóðirnar virka ekki sem skyldi af margvíslegum ástæðum.  Það vantar afl sem lætur að sér kveða í heiminum í þessu tilliti.  Á Norðurlöndunum býr tiltölulega vel upplýst og vel menntað fólk sem myndi styðja forystumenn sína í því frumkvæði sem ég áðan  nefndi.  Þessi ríkjahópur er þokkalga virtur í veröldinni og hefur afl langt umfram það sem  ætla mætti af fólksfjölda og stærð.

Þessi ríki ættu að nýta sér þann vettvang sem Norðurlandaráð er og skera í sameiningu upp herör gegn hungri, vannæringu, barnadauða, fátækt og misrétti í heiminum. Þá væri til einhvers lifað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband