Í tilefni jólanna: Öll heimsins börn fái að ......

Það er að bresta á besta og fegursta kvöldið á árinu og veðrið meira að segja dottið niður. Og alltaf er jólaguðspjallið jafn sjálfsagt og kærkomið eins og jólin sjálf. Ljósið vitjar mannanna í raun og veru. Heimurinn breytist, batnar meira en við nokkurn annan atburð eða dagamun. Lestur helgra texta, sálmasöngur, allt sem heyrir til komu jólanna er á sínum stað - og stund. Gleði barnanna, þys eftirvæntingarinnar, innileiki fullorðinna, - hamingjan í hjartanu. Þetta er allt svo ósegjanlega gott og fallegt. Varla er hægt að ímynda sér hvernig líf okkar væri ef ekki væru jól. Ekkert sérstakt um að vera í desember. Og við förum að með jólahald eins og í fyrra og þar áður bæði í kirkjunni og líka heimavið. Það er endurtekningin sem er svo dýrmæt. Fátt breytist nema við sjálf. Bernskujólinn eru jól eftirvæntingar, síðar gleðjumst við yfir gleði barnanna og eftir því sem árunum fjölgar gleðjumst við áfram en gleðin verður tregablandnari.

Jólagfuðspjallið er alltaf eins. ”En það bar til um þesar mundir...Við erum stödd meðal fólks sem lifði fyrir 2000 árum.  María var til. Jósep var til.  Þau einhvern veginn þvælast inn í helstu trúarbrögð sögunnar án þess að hafa ætlað sér það með þeim hætti að Guð almáttugur gerir kröfu til þessa barns sem hlaut nafnið Jesú sem hún bar undir belti, fæðir, og þau ala upp. Þessir krakkar, þetta voru náttúrulega bara krakkar eins og unga fólkið sem er að eiga börn hér, ég held að María hafi verið 19 vita auðvitað ekki hvaðan á þá stendur veðrið en voru að því leytinu til ólíkir unglingum í dag að skilin á þeirri tíð milli himins og jarðar voru óljósari. Fyrir ofan skýin var Guð með sitt englalið og undir fótunum sá skakki djöfull með sína púka sem stöðugt reyndu að ná tangarhaldi á mönnunum og englarnir feitir og pattaralegir eins og þeir eru sýndir á myndum reyndu að toga í manninn ofanfrá.(Reyndar togast hið góða og illa alltaf á um okkur ekki síst unglingana en hlutgervingin en sögusviðið var afmarkaðara þá)

Þessi hugdetta að byrja heil trúarbrögð með fæðingu barns er auðvitað hrein snilld.  Banið fæðist í fjárhúsi af því að ekki er rúm fyrir þetta fátæka fólk sem ekki  hafði pantað á gistihúsinu.  Það er jata,hey, skepnur einhverjar, englar og yfir Betlehemsstjarnan, stjarna Guðs og englarnir vitja hirðanna sem gættu um nóttina hjarðar sinnar.  Þetta er hrein snilld fæðingarfrásagan því að öll þekkjum við þær tilfinningar sem fylgja komu barns í heiminn –þekkjum eftirvæntinguna, gleðina og vonirnar. Þetta eru sammannlegar tilfinningar. Við erum með á nótunum frá upphafi.  Barn er oss fætt.  Sonur eða dóttir er oss gefin.Hvílíkur léttir, hvílíkur fögnuður sem gagntekur sérhvern mann.  Það er óþarfi að tala um boðskap eða hvað þetta merki.  Barnsfæðingu fylgir fögnuður og gleði eins og segir í söngtexta englanna. (Jafnframt svolítill kvíði um að eitthvað fari nú úrskeiðis nú eða síðar).

Eins og hendir okkur öll þá vissu María og Jósef ekkert um það hvað þau höfðu í höndunum, hvílíka gersemi, það sýnir best sagan af því þegar Jesú er 12 ára og týnist í musterinu og þau ávíta hann.  Það er svo sjaldan að við áttum okkur á því hvað gæti búið í börum okkar. Í skírninni biðjum við þó heilagan anda að vekja og glæða allt gott sem Guð hefur fólgið í sálu barnsins okkar. Svo sannarlega vakti heilagur andi upp mest af því góða sem Guð hafði fólgið í sálu Jesúsar enda hlaut hann tignarheitið sonur Guðs en öll vitum við að þetta gerist ekki alltaf. Við hér búum vel að börnum okkar bæði með fæði og klæði og höldum að þeim góðum og gagnlegum hlutum í skólum allt frá tveggja ára aldri, veitum þeim aðgang að hágæða bókasafni og veraldarvef  en við mættum kannski öll veita þeim meiri persónulega þjónustu vera meira með þeim, tala meira við þau, miða líf okkar betur við þau, þetta þekkjum við öll margt má betur fara en það eru því miður allt of mörg börn í þessari veröld sem búa við langtum verra atlæti en þetta, fá aldrei tækifæri til þess að þroska hæfileika sína og þeirra bíður ekkert annað en fátækt og jafnvel dauði.  Við þetta getum við kristnir menn aldrei orðið sáttir.

Það leit ekki vel út með Jesú. Ekki var annaðað sjá en hann væri enn einn misheppnaður spámaður. En hann reis upp til hins fullkomna sigurs. Við eigum víst með honum eilíft líf –um það skulum við ekki efast, en á meðan við erum hér skulum við reyna að rísa af djörfung og hug upp til hvers nýs dags, til hverra nýrrar tíðar, og við skulum leggja okkar af mörkum til þess að heimurinn, þessi grái heimur megi rísa upp til þess réttlætis að öll börn sem inn í hann fæðast fái gott tækifæri til þess að þroska og efla allt gott sem almáttugur Guð faðir Drottins vors Jesú Krists hefur fólgið í sálu þeirra.  Megi sú verða okkar stóra bæn á þessum jólum.

Vitringarnir fylgdu stjörnunni unz hún staðnæmdist fyrir ofan fjárhúsið. Fari

hver um sig  og finni sína stjörnu og fylgi henni að því verki sem er best og mest í hans lífi og hans fólks og fari það saman við það sem er mest og best fyrir veröldina alla.

Við viljum að öll heimsins börn fái að vaxa og dafna laus við hungur og örbirgð. Með einum eða öðrum hætti ætti Betlehemsstjarnan að leiða okkur að vöggu hvers einasta barns. Okkur dreymir um réttlátan og góðan heim.  Heim sem tekur vel á móti hverju og einu einasta barni, hverju einasta Jesúbarni.

 

Gleðileg jól

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband