Á verði gegn misrétti - Evrópuráðið og mannréttindi
15.10.2009 | 21:16
Undirritaður heldur smá innlegg um einn legg Evrópuráðsins í Öskju, sem er hús uppí Háskóla á morgun föstudag um, Þetta:
Um miðja síðustu öld, upp úr stríðslokum, verður til margt það sem hefur gagnast okkur vel. Á þessum tíma verða til Alþjóðasamtök og alþjóðlegir sáttmálar. Evrópuráðið er eitt af þessum samtökum og er 60 ára á þessu ári, stofnað 5. maí 1949. Íslendingar hafa verið með frá 7. mars 1950.
Tæpast er ofsagt að Evrópuráðið hafi undanfarna áratugi verið einn helsti útvörður mannréttinda í veröldinni. Eitt af verkfærum Evrópuráðsins í Evrópu er The European Commission against Racism and Intolerance (ECRI) eða Evrópunefndin gegn kynþáttafordómum eins og hún hefur verið kölluð á íslensku. ECRI er sjálfstæð eftirlitsstofnun (monitoring body) innan Evrópuráðsins sem sérstaklega er ætlað að berjast gegn kynþáttahatri/kynþáttafordómum í Evrópu og mismunun af þeim sökum.
ECRI var sett á laggirnar á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Vín í október 1993 og trúað fyrir því verkefni að berjast gegn kynþáttafordómum, kynþáttamisrétti, útlendingaótta, gyðingaandúð, og skorti á umburðarlyndi í Evrópu frá sjónarmiði mannréttinda í ljósi Mannréttindasáttmála Evrópu, viðauka við hann og dóma Mannréttindadómstólsins.
Með stofnun ECRI var mörkuð sú stefna að baráttan gegn kynþáttafordómum stæði djúpum rótum í mannréttindabaráttu Evrópuráðsins. Vernd gegn kynþáttamismunun væri grundvallarréttur.
ECRI fæst ekki aðeins við augljós form kynþáttahyggju svo sem aðskilnaðarstefnu eða nasisma. ECRI fæst einng við það form af kynþáttafordómum, sem felur í sér mismunun í daglegu lífi. Það getur falið í sér mismunun gagnvart hópum vegna kynþáttar, uppruna, trúarbragða, þjóðernis eða tungumáls eða samspils þessara þátta.
ECRI skoðar alla þessa þætti frá því sjónarhorni að vernda og efla mannréttindi.
ECRI á að gefa aðildarríkjum Evrópuráðsins raunhæf og hagnýt ráð um það hvernig eigi að fást við vandamál sem stafa af kynþáttafordómum og óumburðarlyndi. Í þeim tilgangi rannsakar ECRI lagarammann í hverju landi að þessu leytinu til, hvernig lögum og reglum er framfylgt, hvort að stofnanir séu til staðar til að aðstoða fórnarlömb kynþáttafordóma, hvernig búið er að minnihlutahópum á sviði menntunar, atvinnu, húsnæðis. Og hlustar eftir tóninum í pólitískri og almennri um ræðu um málefni er snerta þessa hópa.
Tilhneigingar koma og fara. Misjafnt er eftir tímabilum hvað kallar á athygli og aðgerðir. Eitt hefur þó ekki breyst í gegnum árin: Kynþáttamismunun er fyrirbrigði sem ekki hefur horfið og ástæðan er m.a. sú, að dómi ECRI, að löggjöf í aðildarríkjunum þar sem tekið er á kynþáttamismunun, er ekki virkjuð nægilega vel og nýtist því ekki þeim nægilega, sem verða, með einum eða öðrum hætti, fyrir barðinu á kynþáttafordómum eða kynþáttamismunun.
Viðfangsefnið er að útrýma kynþáttahyggju og kynþáttamismunun í öllum ríkjum Evrópuráðsins. Góð lög eru mikilvæg í þeim tilgangi. Þess vegna mælir ECRI með því að ríkin setji sér lög í þessum efnum sem líkleg séu til að virka.
Meginstarf ECRI felst í skýrslum um einstök ríki. Sú síðasta um Ísland var gefin út 2006 þar sem íslensk stjórnvöld fá margar nauðsynlegar ábendingar. Næsta skýrsla er fyrirhuguð 2011.
Fyrir utan skýrslur um einstök lönd hefur ECRI gefið frá sér leibeiningar um hin ýmsu birtingarforn kynþáttafordóma. Nú síðast leiðbeiningar sem gætu gagnast lögreglu í störfum sínum annars vegar og hins vegar um kynþáttafordóma í íþróttum og hvernig bregðast eigi við þeim. Þessar leiðbeiningar mætti að skaðlausu þýða yfir á íslensku.
Í mörgum ríkjum Evrópu eru til og endurskoðaðar reglulega aðgerðaráætlanir gegn kynþáttafordómum. Við ættum að taka það til fyrirmyndar.
Þróun fólksflutninga til Íslands hefur verið mjög hröð á undanförnum áratug. Reynsla annarra þjóða sýnir að við verðum að vera vel á verði til þess að misrétti festist ekki í sessi. Við eigum að fylgjast með því og gæta þess að gæði og réttindi skiptist ekki eftir því hvaðan fólk er, á hvað það trúir eða hver litarháttur þess er. Þjóðfélag án misréttis, þar sem á engan er hallað, hlýtur að vera markmið okkar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ef ákveðið hefði verið að fjölga stjörnunum á fána Evrópuráðsins úr 12 þá hefði Ísland verið 13. stjarnan, en við vorum fyrsta þjóðin til að ganga í ráðið utan stofnaðila.
Axel Þór Kolbeinsson, 16.10.2009 kl. 09:43
Íslensk stjórnvöld ættu tafarlaust að hætta mannréttindabrotum gegn sjómönnum. Ef þú Baldur minnist þess í næstu prédikun kem ég til messu.Stjórnarflokkarnir lofuðu að draga úr þessum mannréttindabrotum um 5% á ári en hafa frestað því um óákveðinn tíma að þatta komi til framkvæmda.
Sigurður Þórðarson, 16.10.2009 kl. 12:43
Ég er búinn að tala um það. Þú ert of seinn. Nú bíður þín ekkert nema brennheitur hreinsunareldurinn. MBkv. baldur
Baldur Kristjánsson, 16.10.2009 kl. 21:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.