Þetta var fín messa......

Núpsstaður 31. juli 2010 083Ég var allt í einu staddur á langbekk í smálítilli torfkirkju með timburbitum ásamt sjö öðrum, sex fallega klæddum konum og karlmanni og innaf var girtur af með skreyttu betrekki maður sem spilaði á orgel, nokkrir aðrir sem sungu úr sálmabókum og einn fagulega skreyttur í rauðri mussu hárlaus, nokkuð mikill um sig, augljóslega foringinn og hann hóf upp raust sína öðru hvoru og hinir svöruðu, sungu stundum eins en stundum öðruvísi. Stundum lét sá rauði sér það vel líka og sneri sér að öðru en stundum svaraði hann aftur og þá lengur og átti síðasta orðið nema hinir svöruðu þá sneypulega  amen og stundum amen, amen, amen og virtist mér það þýða vertu góður, vertu góður. Á milli hófu allir upp raust sína og konurnar fallega klæddu líka og sungu eitthvað sem greinilega hafði verið samræmt fyrirfram, tók það mislanga stund og virtist mér að sami tónninn væri sunginn aftur og aftur en með nýjum orðum. Sálmur held ég að sá rauði hafi sagt.

Um miðbik steig sá rauði fram og mælti einn lengi.  Talaði hann um Guð og útrásarvíkinga og ráðsmann.  Fólkið kinkaði gáfulega kolli af og til.  Var þetta svipuð ræða og ég hafði heyrt í útvarpinu um morguninn, bara ekki síðri. Hef ég heyrt að þeir rauðu verði ef eitthvað er ágætari því lengra sem dregur frá sveitabýli Ingólfs Arnarssonar en þar í kring býr nú múgur og margmenni og þar er útvarpið sem fer aldrei langt.

Þegar maður sem hafði verið kynntur sem Bergur á Kálfafelli  hafði bak við útidyr togað í spotta svo bjölluhljómur mikill barst fóru allir út.  Tók ég eftir að fólk sat í grasi nálægt eða sat á grjóti og hafði hlustað.  Sumir höðfu setið svo lengi að þeir gátu ekki staðið upp sjálfir.  Fóru allir þeir sem inni höfðu verið og þeir sem úti höfðu verið að borði úti og var búið að stabla brauði og kökum  og fólkið fékk sér og settist og spjallaði.  Sá mikli hafði nú afklæðst rauðu mussunni og virist enginn lengur hræddur við hann og ræddi hann við hvern mann.

Við erum stödd á Núpsstað í sumarmessu, prestur var séra Haraldur M. Kristjánsson kenndur við Vík, lengi prófastur.  Þetta var fín messa.  Eins og prestur benti á í prýðilegri ræðu þá þarf ekki ávallt skuldsett glæsihýsi til þess að þjóna Drottni í.  Sannaðist það á þessum glæsilega degi á hinum fagra stað, Núpsstað.

Á mynd sjáum við embættimenn messunnar, prest, hringjara, organista og söngfólk. Meðal söngfólks má kenna fyrrverandi ráðherra og forseta kirkjuþings Jón Helgason.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Býsna skemmtilegur pistill síra Baldur, og dáltið svona í stíl Eiríks frá Brúnum. -- Hefurðu nokkuð verið að lesa hann upp á síðkastið?

Haltu svona áfram og ég enda með að slæðast í messu hjá sjálfum þér. Hef verið að hugsa um það annað veifið síðustu vikurnar en ekki orðið alvara út.

Sigurður Hreiðar, 2.8.2010 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband