Menningarsögulegt viðbragð Kjartans Magnússonar

Fyrr í vetur ritaði ég inn á þessa síðu smá pistil um Skáldastíg sem er mér hugleikinn bæði af persónulegum ástæðum og menningarsögulegum.  Þessi pistil birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins daginn eftir kosningar.  Strax á Þriðjudegi hafði Kjartan Magnússon formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar samband og hafði þá þegar lagt fram eftirfarandi tillögu í nefndinni sem var samhljóða samþykkt.  Á daginn kom að Kjartani er stígur þessi einnig mjög hugleikinn bæði af persónulegum og menningarsögulegum ástæðum.  Þá hafði samband Þórarinn Eldjárn og minnti mig kvæði Halldórs Laxness um stíginn og Stein Steinarr sem ég mun birta hér ef Þórarinn verður ekki búinn að því á sinni síðu strax að lokinni næstu bæjarferð minni en kvæðið er ekki í þeirri útgáfu sem ég á af kvæðum skáldsins.

Menningarsögulegt viðbragð Kjartans er mjög lofsvert.  Þar fer greinileg borgarfulltrúi með eyrað í grasrótinni og hendur sem ná  fram úr ermum.  Tillagan fer hér á eftir og þar fyrir neðan pistill minn.


Á fundi menningar- og ferðamálaráðs  14. maí 2007 lagði Kjartan Magnússon fram svohljóðandi tillögu:


Skáldastígur.
Menningar- og ferðamálaráð felur skrifstofustjóra menningarmála að koma með tillögur um framtíðarfyrirkomulag Skáldastígs, sem liggur upp að Unuhúsi og uppsetningu skiltis/skilta þar sem sögu stígsins og Unuhúss eru gerð góð skil.

og hér kemur hinn ágæti pistill sem kviknaði upp úr lestri vanvitans á ofvitanum: 

Í Ofvitanum lýsir Þórbergur því þegar Erlendur í Unuhúsi sótti hann þar sem hann var að dauða kominn vegna hungurs og næringarskorts og lá fyrir í herberginu sínu í húsi Þorsteins Erlingssonar í Bergstaðastræti.  Hann lýsir leiðinni í þaula og síðasta spölnum að Unuhúsi lýsir hann svo: ,,Úr Fischersundi gengum við suðvestur yfir Mjóstræti og þaðan í vestur móti hægum halla upp dálítið sund, sem fyrst var milli tveggja húsa, síðan milli geymslukofa og rimlagirðingar á hægri hönd og bárujárnsgirðingar til vinstri.  Þetta sund lá upp að lóðarbletti, sem líktist að útliti hálfgrónum hlaðvarpa.  En inni á lóðinni, nokkra faðma fyrir vestan og suðvestan sundið, stóð rautt timburhús tvílyft, líkast kassa að lögun með örlitlu hallandi þaki. Á norðurenda hússins sem  náði norður á móts við sundið, voru dyr með litlum palli fyrir framan.  Á lóðinni upp á pallinn voru þrjár tröppur........”  þeir eru komnir í Unuhús sem nú er Garðastræti 15.

Nú geri ég ráð fyrir því að Grjótaþorp sé með einum eða öðrum hætti friðað a.m.k. megi ekki hrófla við húsum nema með leyfi. En hvernig er með þennan stíg?  Er hann friðaður?  Það vill nefnilega svo til að hann er í meginatriðum óbreyttur frá þessum tíma þegar Erlendur í Unuhúsi reisir ofvitann upp hálfdauðan, ég hygg að það hafi verið 1911. Þegar maður stingur sér upp úr Mjóstrætinu er enn á vinstri hönd húsið sem hann Snæbjörn Aðalsteinsson lögreglumaður ólst upp í og húsið hinum megin, geymslukofinn er enn á hægri hönd og gamlar girðingar frammeð beggja vegna og tröppur upp að Unuhúsi. Jarðvegur er sá sami.  Stígurinn hefur í meginatriðum haldið sér, í öllu falli er hann nokkurn veginn eins og hann var um miðja síðustu öld.

Mér er málið hugstætt. þannig er að upp úr 1950 fór ég að fara þennan stíg fyrst með móður minni og síðan einsamall í heimsókn til ömmu minnar Ingunnar Einarsdóttur og Kristínar Ermenreksdóttur dóttur hennar sem þá bjuggu á efri hæðinni í Unuhúsi. Ýmis skáld og listamenn bjuggu á neðri hæðinni og man ég lengst eftir Einari Braga sem var ljúfur maður og yndislegur.

Öll sú leið sem þeir Þórbergur og Erlendur fóru, nema þetta stígkorn, er nú farin veg allrar veraldar og ég hef áhyggjur af stígnum. Hann er farinn að ganga svolítið til, bárujárnið á hægri hönd þegar gengið er uppeftir er rifið.  Einhver hefur fyrir mörgum árum sett sprekhrúgu á stíginn. 

Ef þessu stígur er ekki friðaður þá á að friða hann ásamt Unuhúsi sem er örugglega friðað og í í góðri hirðu.  En það er ekki nóg.  Það þarf að vernda hann, halda honum við og það sem meira er:  það þarf að setja upp skilti um þennan stíg og það þarf að setja upp skilti um Unuhús. Þetta eru hvort tveggja sögulegar minjar.  Við Reykvíkingar þurfum að hugsa meira um miðbæinn okkar. Um leið og hann á að vera lifandi miðbær á hann að geta verið sögusafn með merktum gönguleiðum t.d. Þórbergs og skiltum sem rekja sögu gatna og húsa. Eitthvað er nú af þessu sjálfsagt en ekki næstum því nóg og ekki næstum því nógu skilmerkilegt.

En ég hef áhyggjur af stígnum.  Svona stíga á að nota til þess að minna okkur á það hefur verið lifað áður og það verður lifað áfram.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Vel að verki staðið hjá ykkur Kjartani, takk fyrir það.

Pétur Gunnarsson, 16.5.2007 kl. 10:38

2 Smámynd: María Kristjánsdóttir

já, það finnst mér líka.

María Kristjánsdóttir, 16.5.2007 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband