Kynþáttafordómar á Íslandi!

Í gær voru allir sammála að leikmaður frá Afríku hefði orðið fyrir kynþáttafordómum. Áhorfendur hefðu æpt að honum m.a. að hann skyldi hunskast til baka til Afríku. Blaðamenn skýrðu frá því að grófyrði hefðu verið æpt að honum þar sem m.a. var vísað til uppruna hans. KSÍ tekur málið fyrir og velur að sekta knattspyrnufélag fyrir kjafthátt stuðningsmanna -30 þúsund krónur, svipað og ferð til tannlæknis kostar. KSÍ aftekur ekki kynþáttafordóma en ósæmilegur kjaftháttur er orðinn aðalatriðið. Félagið dæmda stekkur til og leggur áherslu á að um ósæmilegan kjjafthátt hafi verið að ræða.  Kynþáttafordómar –Nei, ekkert svoleiðis.

Ekki var ég staddur þarna en hneigist til að leggja trúnað á vitnisburð þeirra fréttamanna sem fyrstir sögðu frá.  Það leyndi sér ekki að um var að ræða kynþáttafordóma. Það er hins vegar gömul saga og ný að menn reyna að breiða yfir þá, sjá þá ekki, gera lítið úr þeim. Mér virðist það að hluta gilda um KSÍ sem má þó eiga það að taka málið upp en einkum og sérílagi knattspyrnufélagið sem auðvitað skammast sín fyrir stuðningsmenn sína.

Á vegum Knattspyrnusambands Evrópu fer nú fram mikil vinna sem beinist að því að koma í veg fyrir eða slá á kynþáttafordóma meðal áhorfenda og leikmanna í komandi Evrópumótum í Austurríki og Sviss(man ég þetta ekki rétt) 2008 og Ukraínu og Póllandi 2012.  Ýmsar nefndir Evrópuráðsins (þar á meðal ECRÍ) hafa komið inn í þetta starf og vinna að leiðbeiningum í þessu efni. Það er viðurkennt að kynþáttafordómar hafi aukist í boltanum og því sé mjög þýðingarmikið að taka á þeim af fullri einurð og festu. Það á auðvitað einnig að eiga við um Ísland.  Þess vegna er þýðingarmikið að við stingum ekki höfðinu í sandinn þegar ráðist er að mönnum, leikmönnum sem öðrum, á grundvelli þjóðernis, litarháttar eða kynþáttar þeirra.

Og það má svo sem geta þess að í 233 grein almennra hegningarlaga er mælt svo fyrir að hver sá maður sem með háði, rógi, móðgun, ógnun eða með öðrum hætti ræðst opinberlega á einstakling eða hóp manna á grundvelli þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar kuli sæta sektum eða fangelsi í allt að tvö ár.

Spurningin er því hvort að þeir sem verða berir að ofangreindri hegðun ættu það skilið að fara niður á stöð í skýrslutöku í það minnsta.  Það má vel vera að nægilegt hafi verið að KSÍ skoðaði þetta tiltekna mál en allt í lagi er að minna á að kynþáttafordómar sem látnir eru í té eru í eðli sínu lögreglumál –þetta er refsiverð háttsemi enda leiðir hún til ofbeldis og úlfúðar fyrr en seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolgrima

Þetta er fáránlegt, sorglegt og með algjörum ólíkindum. Undarlegustu tilhneigingar virðast koma fram hjá mönnum þegar þeir geta falið sig í fjöldanum - dreift ábyrgðinni - og segja þá hluti sem þeir segðu aldrei augliti til auglitis við nokkurn mann.

Kolgrima, 19.7.2007 kl. 18:11

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Að mínu mati er alveg sama hvaða nafn menn vilja setja á þetta svona hegðun er óþolandi og maður hélt að kynþáttafordómar þekktust ekki hjá sæmilega upplýstu fólki.  Svona lágar sektir, skipta engu, á öllum svona brotum á að taka á með festu, þannig að það skipti einhverju máli fyrir félögin að svona lagað endurtaki sig ekki.

Jóhann Elíasson, 19.7.2007 kl. 18:36

3 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það er á hreinu, að svona hegðun á að taka á af mikilli festu og einhver sekt uppá 30 þúsund er náttúrulega bara grín, hefur engan raunverulegan fælingarmátt. Þarna þarf að spyrna við fótum strax og stöðva alla svona tilhneigingu strax í upphafi.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 19.7.2007 kl. 20:26

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þú ert minn maður Hafsteinn.

Jóhann Elíasson, 19.7.2007 kl. 20:41

5 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

...takk fyrir það Jóhann...en sem betur fer held ég að við eigum marga skoðanabræður í þessu máli, eins og fleirum...

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 19.7.2007 kl. 21:11

6 Smámynd: Rögnvaldur Hreiðarsson

Engin spurning að enginn mun mæla rasimsa bót hvernig og hvar sem hann birtist. En ég er ósammála því að upphæðin sé of lág. Í starfi íþróttafélaga munar um allt og þetta líka. Og þessi upphæð dugar þessu félagi örugglega til þess að fylgjast betur með og fræða sitt fólk. Reyndar er það nú bara þannig að alls ekki er víst að félögin eigi neitt í þessu fólki því eins og menn vita er frjáls aðgangur að svona viðburðum. Spurning um að hringja í lögregluna og láta fjarlægja dónana svo hægt sé að láta þá taka út skömmina sem þeir sannarlega eiga. Ég er ekki Fjölnismaður en finnst viðbrögð félagsins hafa verið til fyrirmyndar.

Rögnvaldur Hreiðarsson, 19.7.2007 kl. 23:02

7 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Já, ég var einmitt að velta þessu fyrir mér með ábyrgð félaganna eins og þú segir. Þetta þurfa ekki einu sinni að vera stuðningsmenn (gætu meira að segja verið óprúttnir óvildarmenn). kv.  B

Baldur Kristjánsson, 19.7.2007 kl. 23:09

8 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það eru nú svo litlar líkur á því að þetta séu ekki stuðningsmenn þessa félags að það er ekki einu sinni mælanlegt og þetta er þekkt aðferð og viðurkennd um allan heim, held ég, að heimavellinum er refsað fyrir dólgshátt stuðningsmanna. Enda kemur það fram í þessum úrskurði að ef þetta endurtekur sig kemur til heimaleikjabanns. Það kemur til af framansögðu, ekki vafi á því í mínum huga.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 19.7.2007 kl. 23:56

9 Smámynd: Steinar Örn

Það sem skiptir mestu er að þessum mönnum var ekki vísað burt af leikstað. Fjölnismenn ákváðu að leyfa þessum mönnum að hrópa ókvæðisorð allan leikinn og því erfitt að segja að ábyrgðin sé ekki hjá félaginu.

KSÍ þarf líka að endurskoða þessar sektir sínar, 30þús hámarkssekt er auðvitað bara tímaskekkja. Segir sig sjálft að sekt sé allt of lág þegar ágætis leikmenn í 1.deild eru með svipuð laun fyrir hvern leik.

Steinar Örn, 20.7.2007 kl. 09:14

10 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

...hefðann ekki sagt "I'm black"...? En djöfull á maður nú erfitt með að trúa að það sé að virka á sektina og ef það er, er vandamálið mun stærra en ég er að halda.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 20.7.2007 kl. 10:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband