Ólafur Ragnar langbesti forsetinn?

Hallgrímur Helgason stórsnillingur kveður upp úr með það að Ólafur
Ragnar Grímsson sé lang besti forsetinn sem við höfum átt. Sennilega
verða fleiri á þeirri skoðun eftir því sem líður á og þeir sem vöndust
við að hata Ólaf týna sér í þögnina. Ólafur er einn af frambærilegustu
mönnum lýðveldisins, harðduglegur og þar með ólatur, hefur mótað
embættið, skapað því stíl (sem hæfir glysgjörnum nútíma) og formfestu.
Ekki síst verður hann metinn fyrir það að hafa hjálpað til með að koma
íslenskum viðskiptaviðfangsefnum, þar með talið íslenskri list, á
framfæri erlendis. Að undanskilinni einni ræðu hans í New York fyrir
nokkrum árum þar sem hann fór um of með himinskautum þegar Íslendingum
og Íslandi var lýst hafa ræður hans á erlendri grund verið Íslandi og
Íslendingum til sóma. Þá hafa báðir makar hans Guðrún Katrín heitin og
síðan Dorrit staðið vakt sína með miklum ágætum.
Ég man þrjá forseta. Kristján Eldjárn var mjög farsæll forseti sem
þjóðin elskaði. Heimurinn var í hans tíð ennþá harðlæstur í fjötrum
eftirstríðsáranna. Kristján var eftir því heimakær, þjóðlegur, fróður
og fræðandi. Vigdís lendir eiginlega milli tímabila. Heimurinn hafði
ekki opnast á hennar tíma en Kína var þó farið að bjóða forystufólki á
Vesturlöndum í heimsókn. Vigdís var vissulega sögulegur forseti sem
heillaði alla með framkomu sinni. Ólafur er við embætti á tímum
alþjóðavæðingar. Á þeim tólf árum sem hann hefur verið forseti hefur
heimurinn opnast og samskipti og samvinna milli þjóða stóraukist. Gömul
bandalög hafa gliðnað og ný tekið að myndast.
Í þessu umróti hefur Ólafur Ragnar verið réttur maður á réttum stað.
Það er hins vegar erfitt að tilnefna þann langbesta. þessir þrír hafa
allir verið til mikils sóma. Og án efa þeir sem á undan fóru.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Algerlega sammála þér varðandi Ólaf Ragnar Grímsson forseta og forsetatíð hans. Ég var svo heppinn að lenda í slagtogi með hópi Íslendinga sem ferðuðust með þeim hjónum til Kína fyrir nokkrum árum og það var mikil sigurför fyrir Íslendinga að flestra dómi sem þar voru.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 10.5.2008 kl. 21:48

2 Smámynd: Víðir Benediktsson

Tek nú ekki svo stórt upp í mig að segja að hann sé bestur en hann er fínn. Það sama má segja um öll hin sem hafa gegnd þessu embætti. Að vísu man ég ekki eftir Sveini Björnssyni eðli málsins samkvæmt  en þau sem ég man hafa öll staðið sig með prýði, hver á sinn hátt. Var 9 ára Þegar Ásgeir Ásgeirsson lét af embætti og man að mér fannst mikið til þess manns koma.

Víðir Benediktsson, 10.5.2008 kl. 22:10

3 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Þar er ég bæði þér og Hallgrími Helgasyni ósammála.   Vissulega hefur Ólafur staðið sig betur en þeir svartsýnustu bjuggust við enda maðurinn góðum gáfum gæddur auk þess sem hann hefur notið langrar reynslu úr stjórnmálastörfum.  Ólafur hefur í fyrsta lagi verið mjög umdeildur og fortíð hans fylgir honum eins og skuggi hvert sem hann fer.  Bara hennar vegna hefur hann aldrei náð þeim trúverðugleika sem sem embætti forseta þarfnast.

Forverar Ólafs í embætti sinntu því af virðuleika og hófstillingu.  Bæði Kristján Eldjárn og ekki síst Vigdís Finnbogadóttir nutu ómældrar virðingar og þjóðin leit á þau sem sameiningartákn.  Þessu hefur Ólafur breytt.  Hann hefur stokkið inn í glys og gjálífi þotuliðsins sem er viðs fjarri kjörum og lífsmáta hins íslenska almúgamanns.  Sumir kalla þetta "séð og heyrt" væðingu og um það eru einfaldlega skiptar skoðanir.  Mörgum finnst Ólafur hafa breytt embættinu til þess horfs sem líkist helst lífstíl aðals og kóngafólks sem margir evrópskir skattgreiðendur sitja uppi með.  Ræður hans þykja heldur innihaldsrýrar en fullar af skrúðmælgi og fagurgala.  Ég reyndi t.d. að hlusta á áramótaávörp hans en gafst gjarnan upp í miðjum klíðum.  Þar stóðu forverar hans feti eða tveim framar.  Töluðu mál sem almenningur skildi og lagði við hlustir.

Tvennt er það sem telja má Ólafi sérstaklega til tekna.  Í fyrsta lagi hefur hann sýnt einstaka smekkvísi við makaval.  Margir telja að Ólafur hefði aldrei náð kjöri ef eiginkonu hans, Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, hafi ekki notið við.   Hún hafði einstakan þokka, alþýðleg og náði beint til kjósenda með talanda og heillandi framkomu.  Þessu er ég sammála.  Ekki tókst Ólafi síður upp þegar hann tók upp samband við Dorriet Moussaieff.  Hún hefur gengið í spor Guðrúnar og náð að heilla fólk með skemmtilegri óþvingaðri framkomu, auk þeirrar reisnar og glæsileika sem ekki spillir fyrir.  Á meðan hún nýtur samvista við fólk virkar Ólafur eins og hálfgerður spýtukall sem er lítt við alþýðuskap.

Í öðru lagi tókst honum einstaklega vel upp þegar hann beitti ákvæðum 26. gr. stjórnarskrárinnar þegar hann vísaði hinum illræmdu fjölmiðlalögum til þjóðaratkvæðis.   Þetta var svona upplifum eins og á brunaæfingu.  Slökkvitækið virkaði.  Svo einfalt var það.  Þarna las Ólafur hug almennings rétt auk þess grundvallarréttar til prentfrelsis sem þarna var varinn.  Líklega væri fjölmiðlaumhverfi okkar í dag öðru vísi hefðu þess ólög náð fram að ganga.

Ég hefði talið rétt af honum að stíga af stóli núna og leyfa öðrum að komast að.  Þrjú körtímabil er meir en nóg.  Þetta er svona með marga stjórnmálamenn, þeir þekkja yfirleitt sinn vitjunartíma og telja sig ómissandi.  Benda má á í því sambandi að allir kirkjugarðar eru fullir af jarðneskum leifum þess fólks sem eitt sinn taldi sig ómissandi. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 11.5.2008 kl. 09:23

4 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll Sveinn!Gaman að fá svona ítarlega og vandaða umfjöllun í framhaldi af skrifum sínum. Held því til haga að ég tek ekki af skarið þó ég grípi spurningu Hallgríms á lofti. Hef álit á  Ólafi og tel að hann verði minna umdeildur eftir því sem tímar líða.  Kristján Eldjárn verður mér alltaf hugstæður. Allir hafa forsetar vorir verið ágætir og allir börn síns tíma að sjálfsögðu.

Guðlaug Helga:  Hverju ertu ósammála?

Víðir: Ég man Ásgeir svipað og þú! Hvernig hefði séra Bjarni orðið?

Hafsteinn hittir naglann á höfuðið. Ólafur er ekki hvað síst góður með íslenskum sveitamönnum erlendis. 

Baldur Kristjánsson, 11.5.2008 kl. 09:58

5 Smámynd: Einar Þór Strand

Hver er bestur forseta lýðveldisins er ekki gott að dæma um.  Sveinn Björnsson og Ásgeir Ásgeisrsson voru báðir góðir og höfðu sennilega meiri áhrif en almennt er vitað enda báðir með stjórnmálaleg tengsl og höfðu þann virðuleika sem embættið þurfti en voru samt alþýðlegir.  Kristján Eldjárn og Vigdís Finnborgadóttir vantaði pólitísku reynsluna en voru bæði frambærileg sem forsetar, Vigdís naut einnig mikillar athygli vegna þess að hún ver kona, en í þeirra tíð varð embættið pólitískt valdalaust.  Ólafur aftur á mótu hefur náð að gera embætið aftur að þeim öryggisventli sem það var hugsað til að vera sem ein af þremur undirstöðum hins þrískipta valds.  Á tímum Kristjáns og Vigdísar má segja að þær hafi verið orðanar bara tvær og Alþingi og ríkisstjórn farin að fá að vaða of mikið uppi.  Sagan segir að bæði Sveinn og Ásgeir hafi stöðvað lagafrumvörp ríkisstjórna meðan þau voru enn í smíðum vegna þess að þeir töldu þau ekki þörf eða óréttlát og þeir kunnu að tala tæpitungulaust.  Þetta hefur Ólafur þurft að vinna upp aftur og sennilega tekist nokkru eða öllu leyti.  Hinns vegar er hann ekkert óumdeildur en á forseti að vera það?

Einar Þór Strand, 11.5.2008 kl. 14:36

6 Smámynd: Lýður Pálsson

Ólafur Ragnar Grímsson er afskaplega góður forseti. Það að bera saman forsetatímabil þessara fimm forseta held ég að sé ekki sanngjarnt. Þeim hefur öllum tekist með sínum hætti að vera forseti í takt við þjóðfélagið hverju sinni. Þjóðinni hefur tekist nokkuð vel upp við að velja sér forseta.  Vonandi verður það áfram um ókomna framtíð.

Lýður Pálsson, 11.5.2008 kl. 22:36

7 Smámynd: Lýður Pálsson

Stórsnilling á Bessastaði 2012?

Lýður Pálsson, 11.5.2008 kl. 22:38

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Eigi er auðvelt matið þegar taka þarf afstöðu til erfiðrar spurningar. Allir hafa forsetarnir haft góða mannkosti sem erfitt er að gera upp á milli. Sporin eru misjafnlega djúp sem hver þeirra hefur skilið eftir sig og misfljótt fennir í þau. Persónulega finnst mér Vigdís hafa lyft Grettistaki, jafnvel mörgum með sinni alkunnu alþýðlegu yfirvegaðri framkomu. Hún átti mikinn þátt í að gjörbreyta viðhorfum til skógræktar og náttúruverndar en fram á tíma hennar í embætti vorum við Íslendingar áratugum á eftir öðrum þjóðum. Kannski við erum það enn.

Ólafur hins vegar hefur með gríðarlegri reynslu sinni og afburðaþekkingu á sviði stjórnmála einnig lyft Grettistaki. Við Íslendingar erum oft ansi forpokaðir, teljum alltof oft að við séum bestir í allt of mörgu þó svo við erum í landi sem er á við meðalstórt kálfskinn í heimi alþjóðastjórnmála. Ætli það sé ekki mikilvægast að fljóta með straumnum og aðlaga okkur sem best lífinu eins og það er kringum okkur, en auðvitað eigum við að hlúa sem best að séreinkennum okkar: tungu, bókmenntum og náttúru landsins.

Bestu kveðjur

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 13.5.2008 kl. 08:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband