Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þrasliðið í Vantrú!
15.8.2010 | 11:44
Mikið rosalegt raus er inn á Vantrú.is. Að lesa síðuna er eins og að koma inn í menningarkima sem meðlimir hafa ekki hlustað á nema hvorn annan í áratugi. Félagsfræðilega minnir þetta á stúpid sértúarsöfnuð sem gæti einn góðan veðurdag tekið upp á því að elta þrasið á sér til stjarnanna. Þeir liggja yfir skrifum presta þrasa yfir því sem þeir rita of virðast hafa lélegan lesskilning og alls engan húmor, alls ekkert vitsmunalegt svigrúm sem er eitt af einkennum menntaðs fólks og forsenda þess að rökræða skili einhverju sé a.m.k. rökræðunnar virði. Þarna greinirðu milli menntaðrar manneskju og oflátungs sem heldur að hann hafi fundið sannleikann og hangir á honum eins og hundur á spítu eða marhnútur áhandlegg. Vissulega alhæfi ég en alhæfingin er bundin við þá sem móta Vantrúarsíðuna og elta skrif um kirkju og presta eins og geltandi hvolpar.
Nú er ekkert að Vantrú eða guðleysi. Christopher Hitchens er til dæmis einn af mínum uppáhaldshöfundum, rökvís og skemmtilega kaldhæðinn (á síðu Vantrúar er fjallað um hann eins og sértúarsöfnuðir fjalla um trúarleiðtoga sína. Hann er t.d. veikur núna) enda maðurinn þroskaður og vitur. Ég efast um að hann yrði hrifinn af því að vera idol svona gerilesneyddrar klíku sem býr ekki yfir neinum af eðliskostum hans.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (151)
Kirkjan og þagnarskyldan!
13.8.2010 | 16:01
Það er engin vafi á því að kirkjan vill og telur að prestar og aðrir innan hennar eigi að hlíta landslögum þ.m.t. vitaskuld barnaverndarlögum. Í reglugerð um meðferð kynferðisafbrota innan kirkjunnar segir þannig m.a.
2. gr. Ef meint kynferðisbrot varðar barn, skal talsmaður eða sá sem hefur vitneskju um ætlað kynferðisbrot, gegna skilyrðislausri tilkynningaskyldu til hlutaðeigandi barnaverndarnefndar sbr. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Hitt er ennfremur ljóst að presta greinir á um það hvort að tilvísun í þá skyldu eigi að vera í siðareglum. Sumir ganga meira að segja það langt að halda því fram að engar mannanna kvaðir geti bundið prest. Hann sé bundinn þagnaskyldu um allt það sem hann upplifi frá skjólstæðingi sínum og eigi það með öðrum orðum aðeins við eigin samvisku hvort hann segi frá vitneskju sinni. Þeir hinir sömu benda á að þetta sé grundvöllur starfs sálusorgara. Ella sé það marklaust.
Þessa þversögn í starfi sálusorgara sjá reyndar allir sem nenna að hugsa málið.
Um þetta skapast flóknar og miklar umræður ekki bara hjá prestum heldur líka læknum, sálfræðingum og jafnvel lögfræðinum hvað varðar trúnað við skjólstæðing sinn.
Flestir, langflestir prestar sjá þó ekki vandamálið og myndu aldrei brjóta barnaverndarlög né önnur lög. Menn geta leikið sér að því að búa til dæmi þar sem samviskan og löghlýðnin gætu stangast á en í veruleikanum eru leiðir til þess að samræma þetta tvennt.
Hvorki kirkjan, né mikill meirihluti presta, telur sig hafna yfir lög í neinum skilningi. Leiðinlegt er að sjá þessa síbylju að Prestar.......telji hitt eða þetta..þegar aðeins er hugsnalega um lítinn minnihluta að ræða. Ég ætti kannski að taka Vantrú/Smuguna og aðra í tíma í því hvernig eigi að forðast alhæfingar því að alhæfingar leiða til þess að saklaust fólk er haft fyrir rangri sök og kallast rasismi þegar um fólk eða þjóðarbrot er að ræða.
Það má segja að það sé tízka í fjölheimum að ætla prestum allt illt og ég get sagt ykkur að það fer örugglega í sálartetrið á mörgum klerkum sem telja sig vera að gera góð-verk alla daga.
Það er að verða jafn erfitt að vera prestur og eins og það var að vera framsóknarmaður á meðan menn voru það.
Kirkjan: Öll leynd af hinu illa!
12.8.2010 | 13:11
Séra Gunnar Matthíasson formaður fagráðs kirkjunnar um meðferð kynferðisbrotamála tekur hlutverk sitt alvarlega svo sem fagráðið allt. Þess vegna á hann að gefa upp fjölda kynferðisbrotamála sem ráðið hefur fjallað um, afdrif þeirra og hvaða sviði kirkjustarfs viðkomandi starfaði. Ef þetta er ekki hægt verður að rekja þau rök ansi vel. Öll leynd er af hinu illa sérstakega á þessu sviði. Ég held að kirkjan sé að vinna vel á þessu sviði. Hún verður að láta það koma fram. Umburðarlyndi í hennar garð er yfirleitt lítið og alls ekki neitt þegar kemur að kynferðisbrotamálum. Þannig á það líka að vera.
Íslenskir bókaútgefendur seinir til!
11.8.2010 | 11:57
Hún er létt, læsileg. Maður getur stillt letrið og flett upp orðum með því að ýta á takka. Það tekur nokkrar sekúndur að fá heimsbókmenntir eða glæpasögu á skerminn. Evrópsku og amerísku blöðin eru komin í stólinn til þín um leið og þau koma út. Flest skástu tímaritin getur þú keypt. Sé Kyndillinn ekki í beinu rafrænu sambandi færð þú bókina, blaðið í Kyndilinn þinn um tölvu þína. Rafbókin er stökk framávið fyrir alla þá sem ekki eru fastir í liðnum tíma. Íslenskir bókaútgefendur eru enn að hugsa. Hafa alltaf verið seinir til.
Kirkjan er ekki að skorast úr leik!
8.8.2010 | 11:10
Ríkið innheimtir sóknargjöld fyrir trúfélög í landinu. Þau hafa lækkað töluvert undanfarin ár og eðlilegt að kirkjan fari fram á það að það lækki ekki frekar. Sóknargjöldin standa undir starfi safnaðanna, barnastarfi, öldrunarstarfi, kórastarfi og velferðarstarfi í kreppu. Víða, einkum út um land standa þau vart undir grunnstarfinu lengur. Þess vegna er eðlilegt að kirkjan móist við þegar hætta er á að þau lækki enn frekar.
Nær öll önnur framlög til kirkjunnar eru samningsbundin og er þar lang stærsti liðurinn laun prestanna og starfsmanna biskupsstofu, en starfsmenn þar útbúa barnaefni og annast ýmis sameiginleg verkefni fyrir kirkjuna. Kirkjan seldi jarðeignir sínar í hendur ríkisins gegn því að ríkið greiddi þessi laun. Er talið að upphæðin jafngildi 2-3%rentu af eignasafninu. Þessi samningur er lögvarinn og er talið fullvíst að standi ríkið ekki við hann myndi eignasafnið renna aftur til kirkjunnar. Þannig er það t.a.m. í Svíþjóð. Kirkjan þar afsalaði sér aldrei eignasafni sínu og byggir starf sitt af rentu á því. Það væri alveg hægt hér.
Nú kunna menn sem alast upp við sterkt ríkisvald og veikt kirkjuval d að efast um að kirkjan hafi átt tilkall til eigna sinna hér aður fyrr. En svona var það nú bara. Kirkjan eignaðist þetta og á með réttu og notar til að halda uppi kerfi um allt land sem giftir, grefur og skírir og hjálpar fátækum og boðar guðs náðina sem allir hafa heyrt um og allir sækjast eftir með einhverjum hætti.
Og kirkjan, undirritaður sat kirkjuþing, vill axla byrðar eins og allir. Starfsmönnum verður fækkað og laun verða lækkuð. En það var skoðum allra þeirra sem sóttu þingið að niðurskurður til kirkjunnar ætti að haldast í hendir við niðurskurð til veleferðarmála og sú velferðarstjórn sem nú situr reynir að halda niðurskurði til slíkra mála við fimm prósent markið. Kirkjan er því ekki að skorast úr leik heldur vill standa vörð um velferðina. Það á hún sameiginlegt með ríkisstjórninni.
Í rauninni frábær ríkisstjórn!
5.8.2010 | 11:09
Gauti B. Eggertsson hagfræðingur bendir í dag á það sama og gert hefur verið á þessari síðu að ríkisstjórn sú er nú situr er óhemju starfssöm og hefur komið meiru í verk en nokkur ríkisstjórn seinni tíma. Enda miðar okkur vel á áfram. Erum að ná okkur betur út úr kreppunni en nokkur þorði að vona. Þessum árangri hefur ríkisstjórnin ekki náð undir stöðugum húrrahrópum heldur stöðugu væli og veini úr öllum áttum bæði frá þeim sem bera höfuðábyrgð á hruninu og kannski skiljanlega frá þeim sem þjást og líða vegna hrunsins. Hagur þeirra væri þó hörmulegri ef við værum ekki á góðri leið. Lesandinn athugi það.
Möller, takk fyrir að einfalda mitt flókna líf!
4.8.2010 | 14:28
Ég kastaði hjálminum langt út á tún og vippaði mér á bak. Það var notaleg tilfinning að finna heita goluna strjúka þrýstinn vangann og vita ljósa lokkana flyksast til og frá. Ég sé aðdáunarblik úr augum franskra fagurra kvenna á Jaris. Fórstu hjálmlaus spurði ástvængur minn, ertu vitlaus maður, eitt fall og ég sit uppi með þig ennþá meira grænmeti. Þú gerir mér þetta ekki. Vertu alveg róleg svara ég að bragði. Ég er búinn að vera með þenna fjandans hjálm í tíu ár og aldrei dottið á hausinn. Ég hef að vísu dottið fjórum sinnum og einu sinni lærbrotnað segi ég og endutek: en aldrei dottið á hausinn.
Hún hristihausinn, þessi elska. Ég býð henni í Sókrates. Má ekki búast við að alþingismenn séu bærilega gefnir. Jú, segir hún með semingi. Má ekki segja að ráðherrar séu í hærri kantinum hvað greind varðar spyr ég enn. Jú, kemur enn með semingi. Má þá ekki, mín kæra, búst við því að vit sé í því sem þeir segja? Enn kemur Jú, frá þessari heiðarlegu konu. Má ekki líka búast við að þeir séu reyndir,og skynsamir, Jú, en......hún kemst ekki að því að ég held áfram: Ef ráðherra samgöngumála segir eitthvað sem snertir samgöngur. Má ekki búast við að vit sé í því? Vissulega, er svarið. Nú upplýsi ég málið. Ég gat ekki betur heyrt að haft væri eftir Samgönguráðherra að hann væri ósammála evrópuúttektinni á Hvalfjarðargöngunum. Þau væru býsna örugg. Það hefðu að vísu orðið átta árekstar í göngunum..en aldrei kviknað í!! Má ekki búast við samanber það sem að framan er sagt um gáfur að eittvað vit sé í þessari setningu. Jú, svara þessi rökvísa kona. Meinar hann ekki að brunavarnir séu eiginlega óþarfar? Það hlýtur að vera, sagði konan. Er þá hjálmur minn ekki eiginlega óþarfur þar sem ég hef aldrei dottið á hausinn? Jú elskan, sagði þessi elska. Ég er eiginlega feginn að vera laus við öryggisbeltin, bætti hún við. Við höfum ekið um í tæpan áratug og aldrei lent í árekstri.
Ég er óendanlega þakklátur Kristjáni Möller fyrir þð að einfalda mitt flókna líf. En bið hann forláts ef ég misskildi eitthvað.
Mynd. Þær eru enn með hjálma þessar elskur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þetta var fín messa......
2.8.2010 | 11:36
Ég var allt í einu staddur á langbekk í smálítilli torfkirkju með timburbitum ásamt sjö öðrum, sex fallega klæddum konum og karlmanni og innaf var girtur af með skreyttu betrekki maður sem spilaði á orgel, nokkrir aðrir sem sungu úr sálmabókum og einn fagulega skreyttur í rauðri mussu hárlaus, nokkuð mikill um sig, augljóslega foringinn og hann hóf upp raust sína öðru hvoru og hinir svöruðu, sungu stundum eins en stundum öðruvísi. Stundum lét sá rauði sér það vel líka og sneri sér að öðru en stundum svaraði hann aftur og þá lengur og átti síðasta orðið nema hinir svöruðu þá sneypulega amen og stundum amen, amen, amen og virtist mér það þýða vertu góður, vertu góður. Á milli hófu allir upp raust sína og konurnar fallega klæddu líka og sungu eitthvað sem greinilega hafði verið samræmt fyrirfram, tók það mislanga stund og virtist mér að sami tónninn væri sunginn aftur og aftur en með nýjum orðum. Sálmur held ég að sá rauði hafi sagt.
Um miðbik steig sá rauði fram og mælti einn lengi. Talaði hann um Guð og útrásarvíkinga og ráðsmann. Fólkið kinkaði gáfulega kolli af og til. Var þetta svipuð ræða og ég hafði heyrt í útvarpinu um morguninn, bara ekki síðri. Hef ég heyrt að þeir rauðu verði ef eitthvað er ágætari því lengra sem dregur frá sveitabýli Ingólfs Arnarssonar en þar í kring býr nú múgur og margmenni og þar er útvarpið sem fer aldrei langt.
Þegar maður sem hafði verið kynntur sem Bergur á Kálfafelli hafði bak við útidyr togað í spotta svo bjölluhljómur mikill barst fóru allir út. Tók ég eftir að fólk sat í grasi nálægt eða sat á grjóti og hafði hlustað. Sumir höðfu setið svo lengi að þeir gátu ekki staðið upp sjálfir. Fóru allir þeir sem inni höfðu verið og þeir sem úti höfðu verið að borði úti og var búið að stabla brauði og kökum og fólkið fékk sér og settist og spjallaði. Sá mikli hafði nú afklæðst rauðu mussunni og virist enginn lengur hræddur við hann og ræddi hann við hvern mann.
Við erum stödd á Núpsstað í sumarmessu, prestur var séra Haraldur M. Kristjánsson kenndur við Vík, lengi prófastur. Þetta var fín messa. Eins og prestur benti á í prýðilegri ræðu þá þarf ekki ávallt skuldsett glæsihýsi til þess að þjóna Drottni í. Sannaðist það á þessum glæsilega degi á hinum fagra stað, Núpsstað.
Á mynd sjáum við embættimenn messunnar, prest, hringjara, organista og söngfólk. Meðal söngfólks má kenna fyrrverandi ráðherra og forseta kirkjuþings Jón Helgason.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vatn og mannréttindi!
30.7.2010 | 18:31
Ég tek undir með þeim sem vilja betri útskýringu frá Utanríkisráðuneytinu um það hvers vegna Ísland sat hjá við afgreiðslu þingsályktunarinnar um að aðgangur að vatni teldist til grundvallarmannréttinda. (Sjá útskýringu Ben. Ax. hér að neðan) Sú skýring að ályktunin spillti þeim farvegi sem málið væri í dugir ekki. Voru þá þjóðirnar 141 sem samþykktu málið að leggja stein í götu þess að allir ættu að njóta vatns? Málið vekur athygli vegna þess að Ísland hefur allt of sjaldan veriðí farabroddi mannréttindaviðleitni í heiminum, en maður hélt að það stæði til bóta. Ísland skipar sér ennog aftur í hóp þjóða sem eru ekki þekktar fyrir mannréttindabaráttu ss. Bandaríikjana og Ísrael og Danmerkur sem færst hefur til hægri á síðustu árum. Hvað er að gerast? Er Ísland enn undir væng Bandaríkjanna? Er Össur í alþjóðlegri refskák? Þessi vonarpeningur okkar mannréttindasinna verður að útskýra þessa afstöðu betur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eins og sígauni með doktorspróf!
30.7.2010 | 09:28
Guðný Guðmundsdóttir er rosa fiðluleikari, alvörukona á alvörualdri og spilar eins og sígauni með doktorspróf í fiðlu. Peter Mate kann augljóslega mikið á píanó. Ég hlýddi á parið í sveitinni hans Þórbergs, Suðursveitinni í Kálfafellsstarkirkju ásamt 66 öðrum tónlistarunnendum . þarna var indælisfólk frá Höfn og Rangáþingi auk heimamanna og tilefnið var hátíð í minningu Ólafs helga sem eitt sinn var konungur í Noregi og kirkjan nefnda er helguð. Öllum fannst gaman nema Rúnari syni mínum sem fannst leiðinlegt. Á eftir eltum við Fjölni Torfason að leiði systur Ólafs konungs miklu neðar í landinu og heitir völvuleiði. Síðan var gestum boðið á Þórbergssafnið í kaffi þar sem Þorbjörg Arnórsdóttir flutti ávarp. Presturinn Einar Jónsson, síðasti prestur á Kálfafellsstað, en þetta menningasetur verður lagt niður, stjórnaði öllu saman með sínum humoríska, menningarlega hætti og fór með bænir af og til. Athyglisverður prestur mjög.