Og þá er bara Lónið eftir!

Svo heitir sveitin á milli Vestra-Horns og  Eystra- Horns í A-Skaftafellssýslu. Hún hét áður formlega Bæjarhreppur en tilheyrir nú sveitafélaginu Hornafirði. Þetta er fámenn sveit núorðið en áður fyrri (hornfirska) bjuggu þar milli 2 og 300 manns frá bænum Hvalnesi í austri sem stendur undir Eystra – Horni að Syðra Firði í vestri sem stendur Vestra Horns megin. Þar er sólargangur styðstur á Íslandi.

Vísa um Syðra-Fjörð eftir Eirík Guðmundsson er svona:

Mikaels frá messudegi

miðrar góu til

í Syðra- Firði sólin eigi

sést það tímabil.

Lengi að þreyja í þessum skugga

þykir mörgum hart.

Samt er á mínum sálarglugga

sæmilega bjart.

Bær í Lóni er landnámsbærinn.  Landnámsmaður samkvæmt Landnámu  var Þórður Skeggi Hrafnsson en hann seldi síðan Úlfljóti  sem var fyrsti lögsögumaður á Íslandi eftir að bróðir hans Grímur geitskór hafði fundið upp á Þingvöllum.

Skammt austan Reyðaár sem er býli undir Reyðarártindi fyrir miðjum austurhluta sveitarinnar er minnisvarði um Úlfljót.

Jökulsá í Lóni, stórfljót, skiptir sveitinni í tvo nokkuð jafna hluta.  Í austurhlutanum má ennfremur nefna Hraunkot.  Þar bjó Sigurlaug Árnadóttir kennd við Hraunkot ásamt Skafta Benediktssyni  manni sínum og Guðlaugu systur hans sem var skyggn.  Sigurlaug  var menningarfrömuður og blómaræktarkona.  Bæjarstæðið í Hraunkoti er frábært, bærinn kúrir undir hraunhólum  og blómagarðurinn var óviðjafnanlegur en hefur látið á sjá eftir að gamla fólkið dó.  Það er alveg þess virði að skreppa þarna niðureftir ef maður er á lítilli rútu eða þaðan af minna farartæki.  Þarna niðurfrá, á landi sem er auðvitað framburður Jökulsárinnar er einnig gamalt félagsheimili sveitarinnar, nýuppgert, fallegt.

Stafafell í Lóni er bær og fyrrum prestsetur og höfuðból.  Þaðan er mjög vísýnt. Bræðurnir Gunnlaugur, Bergsteinn og Sigurður Ólafssynir reka þar ferðaþjónustu. Inn af Stafafelli í Stafafellsfjöllum er sumarbústaðabyggð og inn af hin víðkunnu  Lónsöræfi þar sem steinanrnir glitra og náttúrufegurð er engu lík.  Margir kannast við Illakamb, Kollumnúla (þar er göngubrú yfir Jökulsá) og Víðidal sem er nyrst í Lónshálendinu og menn freistuðust til að reyna búskap þar fyrr á öldum en þeim tilraunum lauk 1949 er snjóflóð féll á bæinn með hörmulegum afleiðingum.

Í Suður Lóni er helst að nefna Papós.  Þar varð verslun og vísir að kaupstað á 19. öld en húsin flutt á Höfn 1897.  Verslunarstjóri var afi Guðmundar Túliníusar skipaverkfræðings og leiðsögumanns. Við Papós er talið að minjar séu frá pöpum, írskum einsetumönnum fyrir landnám norrænna manna.

Heimildir

Þorsteinn Jósepsson/Steindór Steindórsson 1980 Landið þitt Ísland. Örn og Örlygur Reykjavík

Tómas Einarsson og Helgi Magnússon (1989) Íslandshandbókin. Örn og Örlygur Reykjavík

Siugurður Björnsson 1989. Skaftfellingur.  Samkoma á Papós 1963 A-Skaftafellssýsla Höfn 1989


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Alli

Sæll Baldur.

Það er ekki rétt hjá þér að búsetu í Víðidal hafi lokið 1894 því 1883 eða 84 flutti Sigfús Jónsson með fjölskyldu sína frá Hvannavöllum í Múladal (Geithellnadal) að Grund í Víðidal og bjó þar í sambýli með Jóni syni sínum til ársins 1897.  Þaðan fluttu þau að Bragðavöllum í Hamarsdal.

Kveðja frá Höfn,

Alli

Alli, 9.6.2010 kl. 15:58

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Þetta er hárrétt.  Það á reyndar að standa þarna 1849 hjá mér.  Í heimild minni var aðeins getið um snjóflóðið og hörmulegar afleiðingar þess og ég dró ranga álykrtun af því en hefði átt að muna betur því ég hef fjallað um þetta einhvers staðar áður. Kv. B

Baldur Kristjánsson, 9.6.2010 kl. 16:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband