Enn af systkinunum á Kvískerjum!

Í þessu skrifi mínu um hringþeytingu mína hefur mér ekki tekist að móðga neinn en var hissa á sjálfum mér að setja ekki Þórbergssafnið í flokk með steinasafni Petru, Fuglasafni Sigurgeirs og Byggðasafninu á Skógum. Það ætti enginn að fara hring um eyjuna án þess að reka út álkuna á þessum fjórum stöðum.  Þá tókst mér að gleyma Ara Björnssyni þegar ég taldi upp hin merku systkini á Kvískerjum.  Að ég skyldi ekki fletta þessu upp sýnir bara hvað ég held að ég sé vel að mér en er ekki..  með sama hætti misnefndi ég Benedikt bróður þeirra Steinþórs  og Þórbergs og kallaði Stein sem var afi þeirra bræðra.  Sváfnir Sveinbjarnarson sem var lengi sóknarprestur á Kálfafellsstað  í Suðursveit (og síðar á Breiðabólstað í Fljótshlíð) benti mér á þessi glöp.  Ég leyfi mér að taka upp úr óprentuðum minningum hans þar sem hann talar um systkinin á Kvískerjum.

 

,,Öll voru systkinin vel að sér um almenna þekkingu - og þá alveg sérstaklega í því sem

sneri að jarðfræði og gróðurfari umhverfisins. En það sem sérstaka athygli vakti var

sú verkaskipting eða sérhæfing sem ríkti á flestum sviðum heimilisstarfa, fræða og verk-

mennta.  Systurnar, Guðrún eldri og Guðrún yngri, kunnu svo til allra verka í matar-

gerð og geymslu, sem og í móttöku og viðurgjörningi við gesti og ferðafólk, að uppfyllt

hefði ýtrustu kröfur sem seinni tíma ferðaþjónusta gerir til stjórnenda og starfsfólks.

Létt var þeim einnig um að fræða ferðafólk, svara spurningum og leysa úr hverjum

helst vanda sem að höndum bar. Gestrisni og umhyggjusemi var þessu fólki inngróin.

Flosi var elstur bræðranna og sérgrein hans var kunnátta og færni í tungumálum flestra

nágrannaþjóða. Auk norðurlandamála, ensku og þýsku, las hann einnig frönsku og

finnsku. Hann mun hafa annast bréfaskipti við erlenda fræði- og vísindamenn, auk þess   sem eftir hann liggja einnig vandaðar ritgerðir, m.a. um jökla- og jarðfræði.

Ari var næstelstur og hafði með höndum stjórn búskaparins á Kvískerjum. Hann var

vel lesinn í búvísindum hvers konar og átti góðan bókakost um þau efni, enda fræða-

sjór um málefni bænda og búskapar. Hinir bræðurnir unnu að búskapnum undir hans

stjórn eftir því sem þörfin kallaði.

Sigurður var næstur í aldursröð og hann var sagnfræðingurinn og fræðagrúskarinn í hópnum. Hafði aflað sér mikillar þekkingar á sögu héraðsins allt frá landnámi, svo og

persónusögu og ættfræði sveitunga sinna og héraðsbúa. Hann hafði og stundað atvinnu

sem ýtustjóri, einnig í öðrum landshlutum, - og einnig grafið eftir heimildum, bæði af fornmenjum í  jörðu og á skjalasöfnum í höfuðborginni og víðar. Hann var einnig mjög virkur í félagsmálum sveitar og héraðs.

Ingimundur var veiðimaðurinn í hópnum, kunni vel að fara með skotvopn, sem og

veiðitæki í vötnum, bæði fyrir fisk og sel. Þau störf voru stunduð af hófsemd og virð- ingu fyrir lífríki náttúrunnar, hvort sem matfanga var aflað eða vargi haldið í skefjum.

Helgi var smiður og tæknimaður heimilisins. Lagtækur vel og útsjónarsamur, enda full þörf á slíkum hæfileikum, þar sem ekki var til annarra að leita sökum fjarlægða og tor-

leiðis. Hann smíðaði jafnvel heimilistæki, svo sem þvottavél, eftir eigin uppdráttum og útreikningum.

Hálfdan var fugla- og skordýrafræðingur og safnari, talinn standa í fremstu röð hér-

lendra vísindamanna á því sviði. M.a. fenginn til að taka þátt í leiðangri til Grænlands

til að rannsaka lífríkið á þeim slóðum, auk mikilvægra starfa og rannsókna á þessu

sviði hérlendis.

Páll bróðir þeirra á Fagurhólsmýri var tónlistarmaðurinn í fjölskyldunni. Hann var

organisti og söngstjóri í Hofskirkju og hélt uppi söngmenningu í sveitinni, einnig á

öðrum samkomum og gleðimótum.”

 

Frásögnin er öll í þátíð því að Sváfnir er að lýsa liðnum tíma en Hálfdán og Helgi eru lifandi og búa á Kvískerjum.  Já, þetta var og er indæl tíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband