Njála lifir á Sögusetrinu!

Við fengum boð um að vera viðstödd opnun sýningarinnar með myndum af sögupersónum Njálu í Sögusetrinu á Hvolsvelli.  Þar átti að opinbera fyrir okkur hvernig helstu persónur Njálu hefðu litið út.   Þórhildur Jónsdóttir myndlistarkona, dóttur dóttir Sveinbjörns Högnasonar, væri höfundur myndanna.   Frumkvæðið væri  Bjarna Eiríks Sigurðssonar sem er einhver allra merkilegasti Sunnlendingur allra tíma, skólastjóri, hestamaður, reyndar margháttaður frumkvöðull á því sviði, uppstoppunarbúðareigandi og sjarmör og í seinni tíma sérfróður um Njálu enda býr hann í Fljótshlíðinni.  Hann er eigandi myndanna og meðhöfundur í þeim skilningi að hann lýsti hugmyndum sínum fyrir listakonunni um það hvernig persónur Njálu hefðu litið út í lifanda lífi. Myndirnar eru unnar með hjálp tölvutækni  einherskonar grafísk hönnun.  Með penna eða pensli dregur listamaður upp drætti á flöt og birtist jafnóðum á tölvuskermi þar sem hægt er að vinna áfram með efnið.

Það er kominn alveg nýr maður þarna í Njálusafnið, Sigurður Hróarsson bókmenntafræðingur, eitt sinn leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu ef mér skjöplast ekki.  Sigurður virðist falla alveg að landslagi þarna, stingur ekki á nokkurn hátt í stúf við annað sem sem er í þessu merka safni, fróður vel um hina fornu sögu, frásagnargóður og áhugasamur.  Hann leiðbeindi okkur hjónum um sýninguna sem er hin forvitnilegasta.

Það er þannig að mér finnst upphaf Njálu lang skemmtilegast og merkilegast.  Risið er þegar Gunnar Hámundarson  fer dulbúinn vestur í Dali til þess að blekkja þá hálfbræður Höskuld og Hrút og liðsinna þar með Unni Marðardóttur frændkonu sinni.  Þetta er auðvitað skemmtilegasti og merkasti hluti sögunnar því þarna koma Dalamenn við sögu. Enda er það svo  að þeir eru lang myndarlegastir á sýningunni Höskuldur og Hrútur ásamt með Dalakonunni Hallgerði Höskuldsdóttur.  Að vísu er Gunnar firna flottur, en hann var líka aðalhetjan, ljóshærður, fagureygður, sviphreinn og myndarlegur , minnir þannig á írsk ættaða Dalamennina,  en alls ólíkur öllum öðrum Rangæingum þess tíma og til þessa dags.

Ekki var ég alveg ánægður með alla. Mér fannst Njáll líta út eins og venjulegur Sunnlendingur, bræður Gunnars frekar álappalegir svo og Njálssynir nema þá Skarphéðinn. Ég sá tvær myndir af honum. Á Hópmynd þar sem hann er nokkuð líkur sjálfum sér en síður á hinni myndinni þar sem hann er ekki nógu sköruglega flottljótur.  Og þar er ég kominn að kjarna málsins:  Öll höfum við í huga okkar nokkuð fastmótaðar útgáfur af því Njálufólki sem hefur lifað með okkur öll þessi ár og nú er ég að tala um okkur reynsluboltana sem komnir eru af barnsaldri. Þannig eru Njálurnar jafn margar og við sem höfum  tekið ástfóstri við söguna.  Þessi sýning breytir engu um það en gaman er að sjá hvernig aðrir, í þessu tilviki þau Bjarni Eiríkur og listakonan Þórhildur Jónsdóttir hafa séð þetta fyrir sér.

Ef eitthvað er finnst mér konurnar of fríðar til dæmis Þorgerður Þráinsdóttir og Unnur Marðardóttir. Ef eitthvað er að marka nýjustu vísindakenningar um að konur verði ,,fríðari“ með hverri kynslóð ættu núlifandi dömur að vera ennþá fallegri en þær þó eru miðað við fegurð þessara fornaaldarkvenna.  Nema Bergþóra sé formóðirin en hún er höfð forljót og það er ég alls ekki sáttur við.

Ég skoðaði alls yfir þrjátíu myndir og vil hrósa listkonunni fyrir listaverkin og henni og Bjarna Eiríki fyrir tiltækið.  Sumar myndirnar eru þegar farnar að hafa áhrif á hugmynd mína um sögupersónur.  Þeir sem vilja að heimsmynd þeirra verði fyrir áhrifum ættu að bregða sér á sýninguna en þeir sem vilja lifa við óbreytta hugmynd sína um heiminn ættu að halda sig heima.

Njála í máli og myndum. Myndlistarsýning í Gallerí Ormi í Sögusetrinu á Hvolsvelli

Myndverk Þórhildar Jónsdóttur af persónum í Njálssögu

Sýningin er opin fram í miðjan apríl og er opin á opnunartíma  setursins

Ókeypis aðgangur

Baldur Kristjánsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband