Thor væri óskiljanlegur.....
8.3.2011 | 15:13
Ég fór að kíkja og ég sé að ég á margar bækur Thors. Ég man hvernig því víkur við. Á þrítugsaldri var mér umhugað um að upptrekkja bókmenntasmekk ættarinnar og gaf nánum ættingjum bók eftir Thor Vilhálmsson á jólum. Oftar en ekki hélt ég á gjöfinni heim með þeim orðum þiggjanda að hún væri betur komin hjá mér Thor væri óskiljanlegur.
Samt las ég þær fæstar og er ef til vill einbeitingaskorti um að kenna. Og þó, Grámosinn lifir í huga mér, andblær hans settist þar að. Það er þannig að maður man göngu yfir úfið hraun betur en rölt yfir sléttan mel. Og í nótt rifjaði ég upp Turnleikhúsið. Ég var sendur með það heim aftur og sofnaði út frá því á jólanótt og síðan hefur mannþröngin í við leikhúsið og í andyrinu og uppgangan í turninn fylgt mér með sínum þröngu göngum, veggmyndum og ólíkinda andrúmslofti. En ég kláraði bókina aldrei. Nú skal hún kláruð og endurútgáfu á verkum Thors beðið svo ég geti gefið nýrri kynslóð ættmenna gjafir sem gætu útvíkkað innra rými heilans og gert hann að notalegri stað til að vera á. Því að Thor var og er snillingur.
Mér finnst leitt að hafa aldrei kynnst Thor persónulega. Sem blaðamaður tók ég aldrei viðtal við hann. Mér var aldrei trúað fyrir neinu öðru en pólitík á meðan gáfumenn á borð við Egil Helgason sáu um aðra gáfumenn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.