,,Racismi" - Fyrirlestur fluttur 21. mars á alþjóðlegum baráttudegi gegn kynþáttafordómum.
28.3.2011 | 09:52
Í hugtakinu ,,racismi“ fekst kynþáttahyggja sem er sú skoðun að kynþættir hafi ólíka eiginleika og þá erum við að tala um eiginleika eins og greind, hæfni og skapferli. Ég nota oftast kynþáttafordóma yfir hugtakið ,,racismi“ sem má útleggja sem (neikvæða) fordóma gagnvart fólki af öðrum kynþáttum. Oft/stundum er ,,racismi“ þýtt sem kynþáttahatur sem er þá fjandskapur gegnvart fólki af öðrum kynþætti sem álitinn er lakari eða óæðri. Afleiðing af ,,racisma“ og bundinn honum órjúfanlegum böndum er kynþáttamisrétti fólk nýtur ekki hæfileika sinna en er metið af stöðluðum hugmyndum um kynþátt sinn og situr því ekki við sama borð og aðrir. Í hugtakinu ,,racismi“ er nefnilega sú vitund að réttlætanlegt sé að meðhöndla fólk með misjöfnum hætti eftir kynþætti. Nú er skylt að taka fram að mannréttindastofnanir eru farnar að nota hugtakið ,,race“ eða kynþáttur í gæsalöppum vegna þeirrar hugmyndar(staðreyndar) að mannkynið sé allt einn kynstofn/kynþáttur sem það er auðvitað þegar allt kemur til alls. Náskylt ,,racisma“ er hugtakið ,,xenofóbía“ sem er útlendingaótti. Hugtakið ,,racismi“ hefur líka verið notað í stærra samhengi þ.e. að segja þegar litið er á fólk með mismunandi augum og /eða það beitt misrétti ekki bara vegna kynþáttar, heldur einnig uppruna, þjóðernis, litarháttar eða trúar. Í mannréttindasáttmálum (t.d. mannréttindasáttmála Evrópu) er bætt við kyni, fæðingarstað, tengsl við minnihlutahópa, eign eða nokkurn annan status, þegar misrétti er bannað. Í refsilöggjöf er hérlendis og víða er bætt við kynhneigð. En kyn og kynhneigð hafa ekki verið felld undir regnhlífarhugtakið ,,Racisma“.
Viðauki númer 12.
Í íslensku stjórnarskránni hljóðar mannréttindaákvæðið svo: ,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.”
Þarna er ekki inni kynhneigð.
Af því að hér eru staddir tveir fulltrúar í komandi Stjórnarskrárnefnd (Arnfríður Guðmundsdóttir og Örn Bárður Jónsson) má beina því til þeirra að hugleiða hvort að við ættum ekki að taka inn í stjórnarskrána viðbót nr. 12 við mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar fortakslaust mismunun gagnvart lögum af hvaða ástæðu sem er. (ómálefnalegri ástæðu sem er: það má t.d. ráða konu til að hafa eftirlit með kvennasturtum og tveggja metra mann ef hægt væri að sýna fram á að starfið krefðist tveggja metra manns og menntun og færni og réttindi eru auðvitað málefnalegar ástæður). Íslendingar drukku kampavínið þegar þessi viðauki var samþykktur í Róm árið 2000 og tók gildi 1. apríl 2005 en aðeins helmingur af þjóðum Evrópu hafa staðfest hann og ekki Ísland en ég tek eftir því að nýju ríkin í Evrópu eins og Montenegro hafa samþykkt samninginn og eru þar með komin lengra en mörg stofnríki Evrópuráðsins eins og Ísland. Það hefur verið fullyrt við mig að viðauki nr. 12 breytti engu vegna ákvæðisins sem er í stjórnarskránni en dómarar við Mannréttindadómstólinn segja það rangt – þessi viðauki er eitt af aðaltækjum hans og tekur af öll tvímæli í mörgum tilvikum um rétt einstaklinga í ríkjum sem hafa samþykkt viðaukann- eykur borgaraleg réttindi í þeim ríkjum, ekki síst hvað varðar kynjamisrétti sem þrífst hér en væri harðbannað samkvæmt viðauka nr. 12.
Kynþáttafordómar hérlendis!
En er mikið um kynþáttafordóma? Þó að fordómar og óvinátta sé rík meðal manna eru ekki eiginleikar eins samúð, forvitni, umburðarlyndi, samræður og samvinna enn ríkari eiginleikar í fari okkar. Vissulega, en fordómar virðast þrífast í sérhverri menningu. Ástæðan getur verið ótti við hið óþekkta og einnig þörf til að auka samheldni í hópnum. Í Þjóðríkjum eða þjóðarhópum hreinum brýst rasisminn út sem átök eða óvinátta milli hópa en í blönduðum samfélögum fyrst og fremst sem átök inna hópsins þar sem minnihlutahópar verða auðvitað undir nema eitthvað sérstakt komi til.
Svo við höldum okkur bara við Evrópu og þar með Ísland þá er eru ekki lengur hrein þjóðríki til staðar. Öll ríki Evrópu þ.m.t. Ísland eru meira og minna blönduð fólki af ýmsum uppruna sem játar mismunandi trú. Þessum samfélögum er því lífsnauðsyn að kveða niður ,,racisma” eigi þar að þrífast gott og göfugt mannlíf.
Baráttan gegn kynþáttafordómum!
Við höfum einkum tvenns konar aðferðir til þess að berjast gegn kynþáttafordómum eða ,,racisma” (og nú fer ég hratt yfir sögu tímans vegna). Það er að mennta fólk og þá first og fremst börnin og það er að hindra misretti með löggjöf, almennri löggjöf og refsilöggjöf. Mikilvægt er að börnin læri að ganga að fjölbreytileika í umhverfi sínu sem vísu og umgangist þar með hvert annað aðgreiningarlaust. Þarna held ég að gott starf sé unnið í leikskólum landsins og sunnudagaskólanámsefni kirkjunnar er til fyrirmyndar. Og ég vil einnig nefna námsgagnastofnun sem hefur unnið gott starf í þessa veru. En það er ekki nóg að mennta börnin. Það verður að segja þeim til sem kenna þeim, kennurum. Gallinn við okkur Íslendinga er að við vitum allt um allt og ég hef ekki enn hitt Íslending sem veit ekki allt um allt í þessum efnum. Og það verður líka að kenna lögreglumönnum, lögfræðingum og dómurum að þekkja kynþáttafordóma. (þessar lögstéttir halda alltaf að þeim séu sérfræðingarnir og að þeirra venja sé sú eina rétta en samanburðarrannsóknir hafa sýnt að að lögfræðingar og dómarar eru oft eins og blindar mýs þegar kemur að þessum efnum (ekkert síður en aðrir). Ofangreint hefur íslenskum stjórnvöldum verið ráðlagt. Þeim hefur einnig verið ráðlagt að setja eina löggjöf um bann við mismunun. Eins og nú er eru ákvæði dreifð í lögum t.a.m. í stjórnsýslulögum, lögum um réttindi sjúklinga, lögum um skyldunám, póstþjónustu, útvarpslögum, lögum um persónuvernd, svo helstu dæmi séu nefnd.
Það er mælt með samræmdum bálk af tveimur ástæðum: Svo að þeir sem eiga að framfylgja lögunum svo sem lögreglumenn, lögfræðingar og dómarar eigi hægara með að vita af tilvist þeirra og átta sig á þeim annarsvegar og hins vegar að þolendur misréttis – að það sé ljósara fyrir þeim - að þeir geti leitað réttar síns.
Embætti umboðsmanns
Eitt atriði vil ég nefna annað af fjöldamörgum. Að komið verði upp embætti umboðsmanns sem taki við og fáist við kvartanir er lúta að ,,racisma.” Slíkar stofnair eru í öllum öðrum ríkjum Evrópu. Við höfum umboðsmann Alþingis er sagt. Það er ekki nóg. Reynsla að þjóðanna er sú að slíkir umboðsmenn virki first í þessum efnum ef racismi er höfuðviðfangsefni þeirra, ekki aukaverkefni.
Sömuleiðis að baráttunni gegn ,,rasisma” verði gert hærra undsir höfði í stjórnsýslunni.
Birtingarmyndir ,,racisma”
En er ástæða til að hafa áhyggjur. Já. Hvert sem litið er sér maður rasisma. Týnum upp nokkrar fyrirsagnir frá umliðnum misserum: ,,Faðir og sonur flýja Ísland vegna kynáttaáreitis“
,,Fjölmenni í göngu gegn rasisma“
,,Maður handtekinn vegna kynþáttaárásar“
Mismunun kemur fram á ýmsa vegu: Fólk starir/það er snögglega búið að ráða í stöðuna þegar þú birtist/Fullir Íslendingar áreita afgreiðslustúlki á bar/tala ensku af því að hún er dökk/segja: þið eruð ágætisfólk.
.Fimm ára dóttir konu sem bloggar kvartar yfir því heima að enginn vilji leika við sig ,,af því að ég er brún“.
Rannsókn á Akureyri sýnir að börn erlendra foreldra eru tvisvar sinnum eins líkleg til þess að vera fyrir einelti en börn innfæddra.
8% af innfæddum börnum telja sig verða fyrir einelti
12% með einu foreldri erlendu
16% ef báðir foreldrar eru af erlendum uppruna
Móðir í Reykjavík hefur sagt mér frá því að svört dóttir hennar komi oft grátandi heim eftir setningar eins. ,,Hunskastu heim grýlan þín“, ,,svarta merkikertið þitt, hvað ert þú að gera hér.“ Gjarnan sagt þegar enginn annar heyrir til.
Sjálfur rakst ég bókstaflega á konu í ELCO sem var öðruvísi á hörund en ég. Við rákumst saman og ég sagði ,,sorry“ Fékk til baka á hreinni og klárri íslensku með áherslu; ,,fyrirgefðu“. Skammaðist mín, þó ég gæti alveg sett mig í mín eigin spor (og ég er búinn að fyrirgefa mér). Hæfileiki heilans til að flokka til að einfalda lífið getur komið sér vel en er varhugaverður.
Birtingarmyndir ,,racisma“ eru margar. Fólk af erlendum uppruna fær ekki eðlilegan framgang í vinnu. Fólki erlendis frá er frekar sagt upp. (Atvinnuleysi meðal Pólverja hér er nú 20%). Unglingar af erlendu bergi brotnir hætta frekar í skólum. Fólk verður fyrir einelti og ýmis konar áreiti. Fær ekki leigt. Fær ekki bestu borðin. Er niðurlægt. Allt þetta er til. Allt þetta hefur fólk upplifað. Kvörtunarleiðir eru ekki augljósar. Saksóknarar nota ekki heimildir í lögum. Yfirvöld gera lítið með leiðbeiningar virtustu stofnunar Evrópu í þessum efnum ECRI.
Afleiðingin er sú að hér þróast þjóðfélag sem verður samdauna kynþáttafordómum. Þar sem fólk af erlendum uppruna býr í ákveðnum hverfum, veður fyrir einelti, vinnur óþrifalegusti störfin. Nýjar kynslóðir vaxa upp við þetta sem sjálfsagðan hlut og finnst ekkert tiltökumál og það gildir einu hvort að menn verað lögfræpingar, dómarar, stjórnmálamenn eða eitthvað annað.
Við þurfum að taka miklu fastar á þessu svo að þetta verði ekki. Hafna mismunun. Byggja réttlátt þjóðfélag.
Fjöldi fólks af erlendum uppruna
Lengst af voru hér fáir innflytjendur svo sem á öðrum jaðarsvæðum búsetu. En þeim hefur fjölgað ört.
2004 voru innflytjendur 12.061
2006 16.689
2008 27240
2009 28644 og eru þða flestir
Og eru í dag 2011 25.693 töluvert fleiri en þeir voru 2007 þrátt fyrir kreppu.
Þetta mun vera um 8.1% mannfjöldans. Vanmetið sennilega vegna ónógra upplýsinga um eldri Íslendinga en þessi tala gæti þýtt það að fjórðungur til fimmtungur Íslendinga sé tengdur fólki erlendis frá nánum fjölskylduböndum eða sjálft með uppruna í útlandinu stóra.
Heimildir:
Orðabók menningarsjóðs
Tölur Hagstofu
Skýrslur ECRI
Rannsókn á Akureyri 2010. Unnið við Háskólann á Akureyri sem hluti af alþjóðlegri rannsókn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.