Alþjóðahús á heimsmælikvarða
2.6.2007 | 15:30
Var að koma af Þjóðahátíð í Hafnarfirði, haldin í íþróttahúsinu við Strandgötu. Þjóðahátíðin er á vegum Alþjóðahússins og haldin að þessu sinni í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ. Í þessari gömlu FH gryfju kynntu fjölmargir aðilar frá um 40 löndum er mér sagt menningu sína og mat, matarmenningu og barnkórar, magadansmeyjar, flamengó dansarar og breakdansarar svo fátt eitt sé nefnt báru list sína fram á stórum palli og Bryndís Schram var kynnir og Kolfinna Baldvinsdóttir verkefnisstjóri hátíðarinnar. Var þarna með tvö yngstu börn mín og við eigruðum um húsið í tvo tíma og komum pakksödd út og ég fullur hátíðleika innan í mér yfir allri þeirri gleði og öllum þeim fjölbreytileika sem ég var vitni að. Já, mikið hefur íslenskt samfélag breyst til hins betra á undanförnum áratug eða svo, hér úir og grúir af fólki frá öllum heimshornum sem auðgar lífið hér bara með því að vera lifandi hér.
það er er við hæfi að halda þjóðahátíðina í Hafnarfirði að þessu sinni. Jafnaðarmennirnir í Hafnarfirði hafa stutt fjölmenningarlegt starf og má nefna nýbúaútvarpið sem dæmi um það. Einhven veginn er ásýnd Hafnarfjarðar að breytast gífurlega til hin betra. Skyldi það vera Samfylkingunni að þakka?
Og eins og ég hef getið um áður þá er í Alþjóðahúsinu unnið starf sem er á heimsmælikvarða. Þetta er eitthvað besta hús sinnar tegundar í heiminum. Ef ég man rétt er húsið sjálfseignarstofnun núna þar sem sveitarfélögin í kring tímdu ekki að reka það. Fólkið þar undir forystu Einars Skúlasonar getur ekki gert allt sem því langar til að gera sakir fjárskorts. En það sem gert er í nafni hússins er vel gert og konceptið sem lagt er upp með er mjög gott.
Vonandi hafa sem flestir drifið sig á þjóðahátíð. Hinir fara næsta ár.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Eru ekki allir hugsandi menn einhverskonar jafnaðarmenn... ég held að Baldur sé jafnaðarmaður....
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 2.6.2007 kl. 18:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.