Upp er runninn Sjómannadagur!

Þá er hátíðisdagur sjómanna, einn af hátíðisdögum þjóðarinnar, upprunninn, bjartur og fagur.  Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.  Læt hér fylgja með gamla sjóferðabæn eftir  séra Odd V. Gíslason sem var m.a. lengi prestur í Grindavík en við höfum farið með hana á Sjómannadegi í Þorlákskirkju og svo er sjálfsagt víðar.

Í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda.

Almáttugi Guð, ég þakka þér að þú hefur gefið mér líf og heilsu svo að ég geti unnið mín störf í sveita míns andlits.

 Drottinn minn og Guð minn. Þegar ég nú ræ til fiskveiða og finn vanmátt minn og veikleika skipsins gegn huldum kröftum lofts og lagar, þá lyfti ég upp til þín augum trúar og vonar og bið þig í Jesú nafni að leiða oss á djúpið, blessa oss að vorum veiðum og vernda oss, að vér aftur farsællega heim til vor náum með þá björg, sem þér þóknast að gefa oss.

 Blessa þú ástvini vora, og leyf oss að fagna aftur samfundum, svo vér, fyrir heilags anda náð, samhuga flytjum þér lof og þakkargjörð.

Ó, Drottinn, gef oss öllum góðar stundir, skipi og mönnum í Jesú nafni. Amen.

Í Þorlákskirkju verður Sjómannamessa kl. 11:00 og síðan verður lagður blómsveigur að minnisvarða um drukknaða.  Tveir gamlir sjómenn og útgerðarmenn Pétur Friðriksson og Karl Karlsson annast það en sonur hins síðarnefnda Karl Sigmar Karlsson sem einnig er sjómaður mun sjá um ræðuna í kirkjunni og Halla Kjartansdóttir sjómannsfrú mun lesa lestra ásamt presti sem hefur varla á sjó komið en þó siglt til Hull með afla með Jóni heitnum Gunnari skipsstjóra á Höfn og Stefáni Arngrímssyni skipsstjóra. Ég man að kokkur var Ingvar Þórðarson en annað man ég ekki.

 


mbl.is Sjómannadegi fagnað um allt land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Gleðilega hátíð! Kemst ekki í messuna en hefði svo sannarlega viljað heyra predikunina hans Simma.

Sendi hlýjar kveðjur til sjómanna nær og fjær.

Sigþrúður Harðardóttir, 3.6.2007 kl. 10:42

2 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þakka þér fyrir messuna séra minn hún var góð, léttleiki yfir henni án þess að vera neitt galsafengin og Simmi fór á kostum eins og hans var von og vísa og maður hefði þurft að vera dauður til að brosa ekki að honum. Ekki má gleyma söngnum sem alltaf er góður hér. Gleðilega hátíð og takk fyrir mig...

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 3.6.2007 kl. 12:31

3 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Það var gaman að sjá þig og bara yfirleitt hve margir létu sjá sig.  Simmi var góður! B.kv. B

Baldur Kristjánsson, 3.6.2007 kl. 12:33

4 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ég sé og get ímyndað mér að það hafi verið góður túrinn til Hull Baldur. Hitti Jón Gunnar einu sinni þarna úti en annars var ég alltaf í Grimsby meðan við vorum í siglingunum, þar fannst mér alltaf og finnst enn mun "heimilislegra", kannski vegna þess að staðurinn er minni og ég hálfgerður sveitamaður, auk þess sem þessi blandaði afli sem við vorum oftast með (sérstaklega kolinn og ýsan) átti fleiri aðdáendur í Grimsby, allir smákallarnir eru þar. Fer enn þangað endrum og sinnum, til að rifja upp kunningsskap við vini og viðskiptamenn....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 3.6.2007 kl. 12:41

5 Smámynd: Guðrún S Sigurðardóttir

Gaman að lesa hér hlý orð um hann Simma minn, ég ætla að segja honum frá þessu, það mun gleðja hann. Messan var góð eins og alltaf í Þorlákskirkju.

Guðrún S Sigurðardóttir, 3.6.2007 kl. 17:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband