Á Saga

Hvaða læti eru þetta í Agli Helgasyni og fleirrum þó að komið hafi verið fyrir flýtileit fyrir Saga Class farþega í Leifsstöð.  Er þetta ekki svona í flestum flugstöðvum heims. Það sýnist mér, þó það sé ekki alltaf notað t.d. í Frankfurt.  Af hverju skyldi ríka fólkið ekki fá hraðari og öruggari vopnaleitarþjónustu?  Það fær hraðari innritun. Það fær ókeypis ferð út á flugvöll. Það fær sérstakar stofur í flugstöðvarbyggingum. Það fær sérstakan mat í flugvélinni og getur valið úr þremur réttum.  Víða fær það sérstaka sokka til að fara í. Sérstaka klúta til að leggja yfir andlitið. Það fær ókeypis drykki með matnum. það fær breiðari sæti. Það fær að fara fyrst út úr vélinni. Þetta höfum við haft fyrir augunum á okkur alla okkar hunds og kattartíð og svo fara hinir fremstu meðal vor að rífast yfir smáskíteríi eins og því að það skuli fá hraðari og sennilega kurteisari vopnaleit.  Sennilega eru menn að fjargviðrast yfir þessu vegna þess að vopnaleitin sé kostuð af almannafé en þeim rökum hafa sýslumenn og lögreglustjórar svarað mjög fimlega og upplýsa að kostnaðinum sé dreift mjög rækilega á ýmsa aðila. Auk þess sé þetta tilraunaverkefni sem er svona verkefni sem heldur áfram ef mótmæli verða ekki mjög kröftug og langvarandi.

Annars  endurspeglar stéttarskipting í flugvélum vitaskuld stéttarskiptinguna í samfélaginu. Þeir sem geta keypt sér lúxusinn þeir fá hann á hvaða sviði sem er og njóta hans.

Verst þykir mér að sjá unglinga sem aldrei hafa kynnst öðru.  Fara í bakpokaleiðangra út í heim á Lúxusfarrými.  Kynnast aldrei löngum og þreytandi biðröðum. Kynnst því aldrei að vera ekki sinnt. Kynnast því aldrei  að sofa á gólfinu í flugstöðvum. Venjast því frá blautu barnsbeini að vera teknir framyfir aðra. Hætt er við að þessir krakkar verði leiðinlegir fullorðnir. Sem er skaði því að allir eru ágætir áður en þeir spillast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband