Klerkur í klípu!
19.7.2007 | 09:52
Danskur prestur í eða nálægt Hirtshals í Danmörku vill að sóknarkirkjan verði flutt á safn sagði mér Elín Hirst á sjónvarpsskerminum í gærkvöldi. Ástæðan er sú að brimið étur ströndina og kirkjan mun innan nokkurra ára, haldi svo áfram sem horfi, verða eyðingaröflunum, hafinu, að bráð. Og það vantar kirkju á tiltekið safn.
Nú bregður svo við að sóknarbörnin eru á öndverðum meiði við klerk og vilja að kirkjan standi þar sem hún er, uns (hafið) yfir lýkur. Þarna á ströndinni eigi hún heima. Aðeins á sínum stað sé kirkjan einhvers virði. Eigi það fyrir henni að liggja að hverfa í hafið þá bara það.
Strandarkirkja í Selvogi stendur enn á sínum gamla stað. Þrisvar hefur komið til tals að flytja hana vegna ágangs sjávars og sandfoks og stórviðra við ströndina. Síðast eftir vísitasíu biskups Ólafs Gíslasonar 1751. Biskup fær í lið með sér Illuga Jónsson prófast í Hruna, amtmanninn á Bessastöðum, Pingel hét hann uppá dönsku, og sóknarprestinn Einar Jónsson. Gerð eru viðeigandi bréf og ákveðið að flytja kirkjuna að Vogsósum þar sem presturinn bjó. Þar er veðursælla og ekki hætta á ágangi sjávar.
Nú bregðurs vo við að sóknarbörnin bregðast öndvert við þessum fyrirætlunum. Vilja hafa kirkjuna á sínum stað og engar refjar. Málflutningur þeirra rímar prýðilega við málflutning fólksins í Hirtshals. Kirkjan á að vera þar sem hún er, á ströndinni á hún heima.
Hrokafullir valdsmenn hlusta ekki á fólk-hvorki þá né nú. Strandarkirkja stendur hins vegar enn á sínum stað vegna þess að áður en til flutnings kom hafði sóknarpresturinn flutt sig sennilega vegna andstöðu sóknarbarnanna við flutninginn, prófastur og biskup voru látnir og amtmaður hafði misst embætti sitt vegna vanskila. Það má segja að hann/hún þarna uppi hafi tekið til sinna ráða.
Í ljósi sögunnar er því rétt að ráðleggja prestinum í Hirtshals að láta af öllum ráðagerðum um að flytja kirkjuna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mætti og benda dönskum á hvernig ágangi sjávar var hrundið að Saurbæ á Kjalarnesi (Reykjavík 116) þegar sjórinn var langt kominn að éta í sig kirkjugarðinn áleiðis að kirkjunni. Net var strengt framan á rofið og m.a. látið þar falla ofan það hey sem til féll við slátt á garðinum. Þetta hafði þegar allnokkur áhrif en síðan hefur verið settur grjótbálkur frammi í flæðarmálinu -- og nú er rofið bara að gróða upp!
Þetta gætu menn skoðað og kannski dregið nokkurn lærdóm af -- en trúlega vantar grjótið hjá dönskum!
Sigurður Hreiðar, 19.7.2007 kl. 11:34
Einhver ætti að taka að sér að snúa þessum orðaskiptum okkar yfir á tungumálið ástkæra og ylhýra dönsku! Kv. B
Baldur Kristjánsson, 19.7.2007 kl. 14:20
Kannski sýna svona fréttir líka hvað kirkjan á þrátt fyrir allt sterk ítök í fólki. Ég verð að taka undir með sóknarbörnum, kirkjan hlýtur að hafa mest gildi þar sem hún er og ef hægt er að finna fjármuni í að flytja hana hlýtur að vera hægt að finna fjármuni til að verjast ágangi sjávar. Ég var viðstödd jarðsetningu í Strandakirkju í vetur, áður en við komum hafði kirkjuvörður hitað kirkjuna upp, úti var skítkalt stóð af hafi en þrátt fyrir sorg í hjarta, var kirkjan svo vinaleg og falleg, að þetta varð ógleymanleg kveðjustund. Ég get nú eiginlega ekki hugsað mér kirkjuna annarstaðar - en einmitt þarna við hafið. Alls ekki á Árbæjarsafni.
Kristín Dýrfjörð, 19.7.2007 kl. 16:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.