Björgum Þingvöllum -Bitlingurinn Þingvallanefnd

Undanfarið hafa Össur (Skarphéðinsson) og Bjarni (Harðarsson), tveir skemmtilegir strigakjaftar verið að skemmta okkur með deilum um Valhöll. Vill Össur rífa Valhöll (og má auðvitað leggja í það  pólitískan skilning) en Bjarni vill að almenningur eigi þar áfram athvarf (enda má segja að almenningur hafi valið Valhöll og yfirgefið Framsóknarflokkinn).  Rifrildi þeirra er einkum í því fólgið að Össur gerir myndrænar árásir Bjarna og Bjarni endurbirtir á heimasíðu sinni og segir abaabababa í stíl guðföður síns.

En hvað um það. Össur ber það á Bjarna að hann líti á starfið í Þingvallanefnd sem bitling. En ég spyr hvað er það annað? Hvað er Þingvallanefnd annað en Bitlingur? (Bitlingur: lítill biti, lítið smjörstykki, létt en vel borgað verk...)  Hvað eru sjö alþingismenn og jafn margir til vara að gera í nefnd um einn Þjóðgarð.  Veit ég vel að hann er þjóðargersemi og starfar samkvæmt lögum nr. 47 sem samþykkt voru árið 2004.  Fyrir þann tíma voru aðeins þrír alþingismenn í Þingvallanefnd en þá var þeim fjölgað upp í sjö.

Nú mætti kannski skilja þetta ef þetta væri mikill og flókinn garður.  En svo er ekki. Þetta er ósköp venjulegur, friðsamur staður.  Af hverju geta embættisenn ekki séð um þetta eins og annað með fulltingi stjórnmálamanna. Þetta gæti t.d. verið viðfangsefni menntamálaráðherra og allsherjarnefndar Alþingis.

Samkvæmt Lögum um þjóðgarðinn á Þingvallanefnd einkum að huga að umferð á staðnum, legu vega, lagningu skólpræsa, gefa leyfi fyrir byggingum, ráða framkvæmdastjóra o.s.frv. Allt saman hlutir sem embættimenn annast að öðru jöfnu að sjálfsögðu með fulltingi viðkomandi ráðherra og alþingismanna. Allt saman hlutir sem Alþingismenn hafa ekkert sérstakt vit á.

Ég vildi sjá að Alþingi veldi þrjá öndvegismenn í Þingvallanefnd og þeir hefðu það hlutverk að gera tillögur um málefni Þjóðgarðsins auk þess sem þeir myndu afgreiða praktísk smámál.  Öndvegismenn þessir gætu heyrt undir menntamálaráðherra. Eitt af því sem þeir ættu að gera væri að halda á hverju sumri fund um málefni Þjóðgarðsins þar sem áhugamenn eins og ég, Bjarni og Össur myndum koma og bera fram okkar tillögur.  Við myndum borga kaffið okkar sjálfir. Þetta myndi verða mikil sparnaður og tryggja það að góðar hugmyndir og góðar spekúlasjónir ættu greiðan aðgang að valdamönnum.

Veit ég vel að Þingvellir eru þjóðarhelgidómur en mér er það samt hulinn dómur hvað sjö alþingismenn eru að gera að gera í Þingvallanefnd. Sagan sýnir líka að það þarf að forða Þingvöllum frá alþingismönnum. Það eru þeir sem leyfðu sumarbústaðabyggð í þjóðgarðinum og það eru þeir sem breyttu gamla burstabænum í hvíldarhús fyrir forsætisráðherra og nú ætla þeir sem sé að rífa Valhöll og pikka upp skóginn. Allt án umræðu í samfélaginu.  Það er nefnilega ávísun á þöggun þegar allir flokkar eru með en allir flokkar eiga fulltrúa í Þingvallanefnd.

Þjóðfélagið er að breytast.  Þjóðgarðar spretta upp eins og gorkúlur. Þjóðarhelgidómar eru víða. Össuri má þakka fyrir að hafa vakið athygli á þessum úrelta bitling.  Björgum Þingvöllum úr klóm alþingismanna.  Hleypum almúganum að.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tek heils hugar undir hvert orð í þessum pistli.

alla (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 10:52

2 Smámynd: Ólafur H Einarsson

Ég vil benda á pistil minn um þetta viðfangsefni frá 20. júlí 2007.  http://ofansveitamadur.blog.is/blog/ofansveitamadur/entry/266397/   Það er mín skoðun að Þingvallanefnd eigi að vera fagnefnd, ekki pólitísk nefnd.

Ólafur H Einarsson, 22.7.2007 kl. 11:05

3 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll séra Baldur. Mikið er þetta merkilegur pistill. Þegar ég huga til baka, um bitlingana sem margir hafa umbunað sér með ýmsum hætti, er þetta alveg hárrétt hjá þér. Ég man eftir nokkrum dæmum þar sem menn hliðruðu til reglum um sumarbústaðabyggð, til þess eins að koma sínum bústað á sem besta stað. Ég ætla ekki að nefna þau dæmi, en þeir sem þekkja söguna vita hvað ég tala um.

Valhöll er í minningunni staður þar sem maður sá fjölskyldur koma saman og borða af kaffihlaðborði sem var oft á tíðum svo rosalegt að biðraðir voru í það. Fyrir utan Valhöll var lítill söluskúr sem seldi dýrindis ís og nammi. Maður lét sig hafa það og keypti ís á milljón.

Nú er hún Snorrabúð stekkur. Ég fór fyrir nokkrum árum með vinnufélögum og áðum í Valhöll. Það vildi svo illa til að starfsólkið gleymdi því að um 40 mann væru að koma í kaffi. En því var öllu reddað. Þökk sé örbylgjuofni, jurtarjóma í sprautu, og tilbúnum tertubornum frá Myllunni. Swiss Miss kakóið hitað upp og allt tókst þetta að metta svangan lýðinn. Fúkkalyktin var reyndar að gera útaf við okkur. Margra ára lykt sem hafði sögu af þjóðhöfðingjum og dýrindis vindlum.

Ég fór utandyra og skoðaði Valhöll nánar. Húsið er að hrynja. Það er spurning hvort ekki sé of langt gengið að rífa það, en það má svo sannarlega hressa upp á þetta einstaka hús. Valhöll hefur orðið fyrir barðinu á óprúttnum veitingamönnum sem virðast ekki átta sig á sálinni í þessu húsi og það sem þarf að gera. Húsið hefur gleymst á allan hátt. Viðhald þess er ekkert og þetta er eins og fúapítuhrúga sem þarf að hreinsa eða henda. Ef hrúgunni verður hent, hverfur dýra vindlalyktin, stjörnufansinn og sálinn.

Ég held að best sé að skipta úr þessari nefnd eins og þú segir Baldur, og fá þjóðina í þetta mál. Björn Bjarnason hefur t.d. mikið látið af sér kveða vegna veiða í vatninu, en það er tími í aðra umræðu. Ég er mikill áhugamaður um veiðar í vatninu og er orðin langþreyttur á sportbátum með veiðigræjur og "troll" og veiða eins og greifar, eða kvótakóngar. Björn Bjarnason hefur nefnt að þetta sé hættuleg þróun. Ég er sammála því og tel að Þingvellir þurfi að fá nýjan sess. Opna þarf fyrir umræðuna og leyfa öllum sjónarmiðum að komast að. Það verður að bregðast strax við, áður en það verður of seint, bæði með Valhöll, svo og vatnið og umhverfi þess og lífríki.

Afsakaðu langa grein, en þetta er mál sem ég hef mikið hugsað. Sérstaklega um vatnið og fiskinn.

kveðja,

Sveinn Hjörtur , 22.7.2007 kl. 11:14

4 identicon

Ég legg til að við tökum alla alþingismenn í burtu frá þingvöllum og látum kirkjunnar menn fá staðinn alfarið.. getum sett þarna upp gapastokka og endurheimt drekkingarhyl eins og hann var. Svo hengjum lækna einu sinni í viku og drekkjum fórnarlömbum nauðgana tvisvar í viku! Bönnum svo öllum að skrá sig úr þjóðkirkjunni og leggjum alla grunnskóla niður!

Krummi (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 13:15

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

100% sammála.  Takk fyrir góða grein og taka upp þetta þarfa mál.

Jóhann Elíasson, 22.7.2007 kl. 14:26

6 identicon

Það hlýtur að vera brot á jafnræðisreglu stjornarskrárinnar ef pólitískt skipuð nefnd leyfir sumum að byggja sumarbústaði í þjóðgarði en öðrum ekki.

Ævar Eiður (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 15:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband