Meira um vináttuna!
8.5.2008 | 09:10
Skilgreining á vináttu sem allir gætu verið sammála um finnst varla. En finna má ákveðna þætti sem allir þeir sem hafa ritað um vináttu eru sammála um. Sumir þætir eru án vafa menningarlega bundnir. Vinátta er einnig meira metin í sumum samfélögum en öðrum. Sums staðar er vinátta hluti af samfélagsgerðinni. Meira og minna viðurkennd bandalög sem byggja á vináttu verða til og vettvangur þeirra er þar sem valdið liggur. Vinátta við valdsmannanninn leiðir sums staðar til áhrifa og jafnvel embætta.
Ætlun mín er ekki að fjalla um nútímaviðburði á Íslandi í tengslum við vináttuhugtakið. Slíkt gæti þó verið allrar athygli vert. Nei, ætlun mín er að fjalla um vináttu hetjunnar Gunnars á Hlíðarenda og Njáls hins vitra á Bergþórshvoli í Íslendingasögunni Njálu, eða Brennu Njáls sögu. Hún er rituð á þrettándu öld. Höfundur þessarar visnæslu sögu er óþekktur. Á tilvitnuðum tíma voru á Íslandi ritaðar fjölmargar hetjusögur.
Þegar ég verð búinn að lýsa og greina vináttu Gunnars og Njáls mun ég bera hugmyndir þessa óþekkta þrettándu aldar höfundar, eins og þær koma fram í sögunni, saman við hugmyndir tveggja eldri hugsuða Aristótelesar og Cicerós. Ég mun leitast viðað bera það saman hvernig ,,vináttunni þessu sérstaka formi mannlegra samskipta hefur verið lýst á hinum ýmsu tímum í mismunandi samfélögum. Ég mun leitast við að greina hvað sé átt við með vináttuhugtakinu. Hvert er innihald vináttuhugtaksins og í hvaða samhengi þrífst vináttan og hvert er hlutverk hennar. Ég vel Aristóteles og Ciceró vegna þess að ég legg upp með þá hugmynd að höfundur Njálu hafi hliðstæðar hugmyndir og þeir Aristóteles og Ciceró og hugmyndir þeirra tveggja eru sannarlega tengdar. Sennilega las Ciceró verk Aristótelesar.
Að mínum dómi er þetta áhugaverður samanburður. (framhald).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.