,,Á sandi byggði hygginn maður hús"
31.5.2008 | 09:42
Sérfræðingar þakka það sendnum jarðvegi hér í Þorlákshöfn að jarðskjálftinn fór um okkur mildari höndum en granna okkar í Hveragerði og á Selfossi og í sveitunum undir Ingólfsfjalli og undir Hjallanum hér í Ölfusinu. Það er sandur ofaná hrauninu, segja þeir, sem virkar eins og dempari. Nógu sterkur varð þessi fjandi samt hér og hræddi næstum úr manni líftóruna. Auðvelt er því að ímynda sér skelfingu nágrannanna sem upplífðu þá hörmung að fá beinlínis æviferilinn í formi innbús yfir sig.
En ástæðan fyrir þessum pistil er að fólk hefur komið að máli við mig og spurt hvort ekki megi breyta því í Biblíunni þar sem stendur ,,á sandi byggði heimskur maður hús. Þykir fólki í ljósi nýjustu upplýsinga ómaklega að sér vegið hér (og það hefur íbúum á Höfn í Hornafirði ávallt þótt einnegin). Ég hef svarað því til að þetta verði að sjálfsögðu athugað í næstu Biblíuþýðingu en eins og við vitum þá taka þýðendur ávallt mið af þjóðfélagshræringum í þýðingum sínum og hvers vegna ættu þeir ekki á sama hátt að taka mið af jarðhræringum?
Þessu er hér með komið á framfæri við biskup og þýðingarnefnd. Það er hins vegar ekki nógu langt um liðið frá skjálftanum til þess að stungið verði upp á því að breyta þessu með hyggna manninn og bjargið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Baldur, hann bróðir minn er nú þarna við Ingólfsfjall, á Nátthaga. Hann slapp nokkurn veginn alveg, þrátt fyrir að vera jafn nærri skjálftamiðjunni og raun ber vitni. Nágrannar hans neðar á flatlendinu eru aftur margir hverjir með allt ónýtt. Hann var að velta fyrir sér hvort munurinn sé, að hann er á jökulurð, en þeir á framræstu mýrlendi. Jökulurðin hafi virkað sem dempari, meðan framræsta mýrlendið hafi allt gengið í bylgjum.
Það má samkvæmt þessu alveg örugglega sjá mismunandi hreyfingar húsa eftir því hvaða jarðvegur er til staðar.
Marinó G. Njálsson, 31.5.2008 kl. 11:14
Sæll! Við þyrftum greinargóða vísindalegu úttekt á þessu. Hvers konar undirlag hentar best m.t.t. jarðskjálfta. Sjálfsagt eru til fræðiritgerðir um það en hér virðist kjörið tækifæri til praktískra rannsókna. Kv.
Baldur Kristjánsson, 31.5.2008 kl. 11:34
Ég hef oft velt þessu fyrir mér. Mig minnir að þeir séu farnir að leifa plötu á sandpúða án sökkuls undir sumarbústaði. Því ekki.
Valdimar Samúelsson, 31.5.2008 kl. 16:19
Baldur, ég er sammála því að þetta er vert skoðunar og síðan er spurning hvort þetta hafi ekki þegar verið skoðað.
Marinó G. Njálsson, 31.5.2008 kl. 21:01
Sæl Guðlaug Helga! Hún hreyfðist ekki. Að sjálfsögðu ekki! kv.
Baldur Kristjánsson, 31.5.2008 kl. 21:09
"Að sjálfsögðu ekki!" Vel mælt.
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 21:17
Eyrbekkingar byggja hús sín einnig á sandi - en samt fór skjálftinn ekki mildum höndum um Bakkamenn. Málið er einfaldlega fjarlægð frá upptökum skjálftans.
Lýður Pálsson, 1.6.2008 kl. 17:23
Ég held að það sé ekki einfalt að skrifa mismunandi útreið í skjálftanum með fjarlægðinni einni. Það segi ég vegna þess að ég hef komið til fólks bæði á Selfossi og í Hveragerði sem slapp nánast alveg við tjón, þrátt fyrir að hús í sömu götunni hafi orðið illa úti, jafnvel næsta hús við hliðina?
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 1.6.2008 kl. 20:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.