Svartur prestaormur!
11.6.2008 | 17:23
Ég veit ekki hvort það er rétt hjá prestunum að sniglast svona um bæinn eins og svartur ormur að sumu leyti eins og aftan úr grárri forneskju. Þetta er einhvern veginn ekki ,,núna. Þetta er einhvern veginn ,,þá. Þess vegna vekur svarthöfði blessaður upp bros jafnvel hjá guðhræddasta fólki. Hver myndi ekki kíma að sjá tíu þúsund immana sniglast um Istanbul á leið til þings síns? Í mussum og skrautklæðnaði á víxl eftir því hverjir væri valdamestir.
Andrúmsloftið í þessum efnum hefur breyst á áratug eða tveimur. Hluti af skýringunni er að galgopar eru farnir að taka til máls áður en galgopaskapurinn rennur af þeim. Hið kristna samfélag menntar nú fleiri skjótt og vel en nokkurn tímann fyrr og tæknin hefur í formi internetins gefið hverjum og einum sinn prédikunarstól. Og þeim vantrúuðu virðist liggja meira á hjarta en þeim trúuðu. Þeir óánægðu eru alltaf meira áberandi en þeir ánægðu.
En,gamanlaust. Tónninn er að breytast í samfélögum Vesturlanda. Veraldarhyggjan hefur tekið yfir. En kristnir menn halda áfram að þramma í gegnum söguna til fyrirheitna landsins. Spurning hvort þeir ættu ekki allir að vera í litklæðum sem hæfir jú erindi okkar fagnaðarerindinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:26 | Facebook
Athugasemdir
Þetta rímar óskaplega illa við málstað þinn varðandi fjölmenningu.
Samfélag okkar er ekki kristið.
Af hverju snúum við þessu ekki bara við? Hinir vantrúuðu er oft óskaplega ánægðir en þeir sem við gagnrýnum óskaplega óánægðir.Matthías Ásgeirsson, 11.6.2008 kl. 17:36
Spurning hvort þeir ættu ekki bara að vera kviknaktir. Svo það sjáist að þeir hafa nú ekki mikið að fela!
Sigurður Þór Guðjónsson, 11.6.2008 kl. 17:43
Ágæti Baldur,
Það væri smart move hjá kollegum þínum að gera þig að næsta biskup! Þú virðist sjá hlutina í réttu ljósi og sömuleiðis sjá spaugilegu hliðarnar á tilverunni. Það er engum hollt að taka sjálfan sig of alvarlega, hvorki svartstökkum né svarthöfðum.
Svartstakkarnir hafa mikinn fælingarmátt og skemma mun meira fyrir kirkjunni með sínum gamaldags forpokahætti heldur en við trúlausir nokkurn tíma.
Róbert Björnsson, 11.6.2008 kl. 19:56
mér finnst skrúðfylking klerkanna ákaflega tilkomumikil og vil helst ekki missa hana í skolt fjölmenningarinnar
halkatla, 11.6.2008 kl. 20:20
Góð hugmynd Róbert. Matthías! Ég hefði eins getað sagt: ,,þeir sem hafa yfirhöndina eru alltaf ánægðari en hinir" Ánægðari með það? kv.
Baldur Kristjánsson, 11.6.2008 kl. 20:21
Ég sé þetta ekki sem ,,skolt fjölmenningar" Anna Karen heldur frekar sem ,,skolt veraldarhyggjunnar". kv. B
Baldur Kristjánsson, 11.6.2008 kl. 20:24
veraldarhyggjan er verst (í fúlustu alvöru)
halkatla, 11.6.2008 kl. 22:18
Mér hefur alltaf þótt kjólaskrautsýningar prestanna fast að því skoplegar. Menn á öllum aldri að marsera kjólklæddir um. Ég er ekki viss um að aukin litadýrð muni gera ímyndina skopminni.
Ég geri mér grein fyrir að á þessum hátíðsstundum reynir Þjóðkirkjan að halda arfleifð sinni í heiðri og innifalin í henni er svona pjatt og punt. Annars eru prestar flestir orðnir "nútímalegir" inn á milli embættisverkanna. Ég held að það sé almesti styrkur Þjóðkirkjunnar að hlífa okkur flestum stundum við helgislepju og hótunum um helvítisvist. Einn almesti veikleikinn felst í samtvinnun trúfélagsins við ríkið; en jafnvel þessi veikleiki er styrkur, því notalegheitin undir verndarvængnum halda aftur af öfgum.
Ég get ekki annað en tekið frumkvæði Vantrúar sem meinlausu gríni og fæ ekki séð að það eigi að móðga (særa blygðunarsemi?) presta. Ég held að prestar geti verið áhyggjulausir (amk -litlir) um ímynd sína út af þessu og reikna satt að segja allt eins með því að grínið sé áróðurslega tvíbent fyrir Vantrú.
Friðrik Þór Guðmundsson, 12.6.2008 kl. 01:53
Veikleiki kristni á íslandi er sá að ríkiskirkjan velur íslenska ríkið frekar en guðsríki, guð á enga peninga.
Að horfa á prestsorminn var eins og blast frá myrkum miðöldum.
DoctorE (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 10:27
Já Baldur, mér hugnast sú setning betur. Ennþá mótmæli ég þó orðum þínum um hið kristna samfélag sem mér þykja hrokafull.
Matthías Ásgeirsson, 12.6.2008 kl. 10:59
Mér finnst það afskaplega lýsandi að segja samfélagið kristið. Múslímsk erum við ekki að uppruna til og við hættum að vera shamanísk (Ásatrúar) fyrir 1000 árum síðan. Meirihluti þjóðarinnar er ekki guðlaus þótt hann sé skóla- og langskólagenginn og ætti að vera upplýstur, í 18. aldar merkingu þess orðs.
Ég las um tíma blogg tveggja guðlausra (sekúler) múslima frá Írak (annar þeirra samkynhneigður) og fannst þeim báðum eðalilegt að tala um sig sem múslimi, þótt þeir afneiti báðir handanveru, goðmögn og þessháttar. Einn þeirra talaði reyndar um skilning sinn á því hvaða vald trúin hefur á hugum fjölskyldumeðlima og vina.
Ég held að með því að tala um tiltekið samfélag sem kristið (múslimskt, kaþólskt o.s.frv.) sé ekki verið að gera fólki upp skoðanir heldur er það lýsing á menningu og uppruna hugmynda. Þetta hefur ekki með hroka að gera heldur staðreyndir. Hvort við verðum áfram kristin eða eitthvað annað eftir lengri eða skemmri tíma skal ósagt látið.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 14:43
Þetta með klæðnaðinn er nú kannski svolítið skondið. Ef maður leyfir sér að horfa á hann eingöngu, þá er afar freistandi að líta á karla í kjól á sama hátt og karla í sokkabuxum. Enda segir almannatrúin á Ítalíu að prestar séu ekki raunverulegir karlmenn, eitthvað svona mitt á milli þess að vera karl og kona.
Eins má rifja það upp hve fyndið fyrirbæri bindið er. Í sumum kreðsum hefur það verið kallað reðurstákn. Jakkaföt eru í raun afar hentugur vinnuklæðnaður (pælið í öllum vösunum!) og smókingjakki á uppruna sinn að rekja til þess að menn brugðu sér út til að reykja. Virðulegasti klæðnaðurinn sem hægt er að hugsa sér eru svo náttúrlega kjólföt. Ekki segja mér að hér á meðal vor sé enginn sem finnast þau fyndin í sjálfu sér, já, eða pípuhatturinn!
Ef ég ætti að setja saman lista yfir fatnað sem mér finnst verulega flottur þá myndi Skotapilsið vera ofarlega á honum. Glætan að ég gæti gengið í slíku hér án þess að gert yrði grín - réttilega þar sem ég er ekki skoti. Hinsvegar fékk ég mér hnésíðar tvídbuxur frá Kormáki og Skildi ásamt frakka í stíl - til þess eins að vera sakaður um að vera týróli! Týróli!
Ég leifði mér að ganga í jakkafötum í MH í gamla daga, það þótti afar hallærislegt þegar allir aðrir klæddust lopapeysum og rifnum gallabuxum. Hvaða fútt er í því að ganga í skóla sem leggur metnað sinn í það að allir mega vera eins og þeir vilja, og svo eru allir eins?
DoktorinnE finnst prestamúnderingin koma frá myrkum miðöldum. Það er rétt - þó ekki alveg nákvæmt, því sumt er eldra. Honum finnst líka að kirkjan ætti að vera blönk, af því að Jesús var það. Kannski segir hann þetta til að stuða, eða tyggja upp gamla klisju að allt fé kirkjunnar sé illa fengið og því ætti að þjóðnýta hana og ræna. Það er ekkert nýtt heldur.
En á meðan að kirkjan endurspeglar vilja þeirrar þjóðar, þess fólks sem stendur að henni þá verður hún áfram rík, virk, bundin af hefð og innblásin af samtímanum.
P.S. Hefur enginn ykkar séð hvernig dómarar og lögfræðingar líta út þegar þeir eru í réttarsal? Minnir það engan á miðaldir og rannsóknarrétt?
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 15:24
Mér er einfaldlega ekki sama um að hér sé ríkiskirkja... ríkiskirkjan er eins og afdönkuð sovésk sprungin blaðra, dæmi sem getur aldrei gengið upp í nútíma þjóðfélagi.
Maður mundi ætla að það væri kappsmál fyrir þá sem eru í þessari kirkju(Meðlimi) að taka hana út úr ríkisfyrirkomulaginu og reyna að blása í hana "lífi".
Dómarar eru vissulega hallærislegir, setjum á þá breska dómarakollu til að fá smá kómík í dæmið ;)
DoctorE (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 15:45
Matthías Ásgeirsson, 12.6.2008 kl. 15:51
Matthías, þú veist vel hvað er meint með þessari hugtakanotkun. "Kristið samfélag" eða "kristin menning" byggir ekki á Gallupkönnun eða staðhæfingum þínum um hvað ég veit eða veit ekki.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 16:53
Stór hluti íslendinga er trúlaus, sjálfvirk innskráning í ríkiskirkju er martækt sem fylgni við kristni.
Ríkiskirkjan er á hraðri niðurleið sem er bara gott, ég skora hér með á þá sem játast ekki undir hana að gera eitthvað í málinu svo kuflar og ofurkrissar þessa lands telji ykkur nú ekki með í sínum kynþætti... það er jú svo að sumir virðast telja trúarbrögð vera kynþætti..
Komið með okkur mönnum í lið eins og vera ber, geimgaldrakarlar fornmanna er eitthvað sem er ekkert vit í, þeir sundra okkur mannkyninu eins og ekkert annað.
Verum saman!
DoctorE (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 18:32
Kostulegur, mein kleiner Doktor.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 20:55
Carlos, það varst þú sem sást ástæðu til þess að draga fullyrðingar um trúarviðhorf þjóðarinnar inn í þessa umræðu.
"Kristið samfélag" er í besta falli marklaust, í versta falli slæm fölsun og hrokafull.
Matthías Ásgeirsson, 12.6.2008 kl. 22:38
Sælir bræður! Vissulega er íslenskt samfélag innblásið af kristnum gildum og kristnum hugmyndum. þessar kristnu hugmyndir hafa mótað mjög allan okkar hugmyndaheim t.d. bara það að Guð er fjarlægur en ekki nálægur og þess vegna má grafa í næsta hól. En flæðið er ekki bara frá kristni til menningar. Menningin hefur líka mótað kristnina og líf þjóðarinnar hefur dregið það úr henni sem hentar og sleppt öðru. Ýmisleg annað en kristni hefur líka mótað þjóðina eins og t.d. hrein og klár rökhugsun sem þó fer alltaf fram innan ákveðins hugmyndaheims.
Að öllu samanlögðu finnst mér alls ekki rangt að tala um ,,kristið samfélag" þó ég hefði einnig getað talað um þjóðfélag ,,mótað mjög af kristnum hugmyndum" eða ,,hlaðið kristnum gildum" .
Í öðru samhengi má líka tala um ,,eftir kristið" þjóðfélag. Að mörgu leyti er okkar þjóðfélag það. Menn iðka ekki kristni upp til hópa en flest viðmiðin og gildin eru mótuð um á kristnum tíma. Kv.
Baldur Kristjánsson, 12.6.2008 kl. 23:37
Þetta sem Baldur sagði ;)
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 09:08
Það er náttúrulega hreinræktuð stríðni hjá Baldri að tala um kristið samfélag í færslunni og virkaði svona prýðilega. Matti var mættur um leið.
Annar held ég að vantrúarfélagar séu óþarflega viðkvæmir fyrir því að gangast við kristnum áhrifum á íslenskt (og evrópskt) samfélag og sjálfsmynd þeirra sem þar eru upprunnir. Ég á ekki í neinum vandræðum með að skilgreina sjálfan mig sem "non practicing" lúterana, rétt eins og Woody Allen er algerlega trúlaus "non practicing jew". Og það gerir mig ekki að minni trúleysingja nema síður sé.
Jón Yngvi Jóhannsson (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 09:16
Það þarf ekki mikið til að ég mæti á staðinn :)
Ég get alveg tekið undir athugasemd Baldurs, samfélag okkar er mótað af kristinni kirkju, ég veit ekki með "kristnar hugmyndir" eða "kristin gildi", þar tel ég mótunina hafa verið í báðar áttir.
Ég á alls ekki erfitt með að viðurkenna að saga þjóðar og kirkju er samtvinnuð - en mér finnst umræðan um þau tengsl yfirleitt óþarflega valkvæð, þ.e.a.s. kirkjufólk velur það jákvæða til að muna eftir. Á móti skamma þeir heiðingjana fyrir að draga upp hið neikvæða.
Mér finnst hægt að segja að Færeyjar séu kristið samfélag, Írland var það lengi og það sama gildir um mörg önnur lönd. En íslendingar hafa alltaf verið dálítið sérlundaðir í trúmálum, halda fast í spíritismann, heiðnina og sína einkatrú eins og það er víst orðað.
Matthías Ásgeirsson, 13.6.2008 kl. 09:28
Ég tek undir það sem Matti segir að kristnar hugmyndir búa ekki í tómarúmi og að mótun samfélags og kirkju er gagnkvæm - algerlega svo. Ég get líka tekið undir að kirkjufólk er gjarnt á að muna frekar eftir jákvæðari áhrifum en neikvæðari - auglýsingar Jóns Gnarr og Símans, nú síðast með Gallileo sýna það glögglega að menn eru fullviðkvæmir fyrir áhrifum gamalla synda.
Hitt er svo aftur annað, að kristnin hefur ekki eingöngu haft neikvæð áhrif á samfélagið, gagnstætt því sem ætla mætti af einstrengingslegri framsetningu Matta et al. á köflum, m.a. á vefsetri Vantrúar.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 15.6.2008 kl. 13:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.