Skódi flotti/spýtir gotti.

Í þessu sem öðru er ég gáfaðasti Íslendingurinn. Síðan ég keypti svarta skodann minn fyrir tveimur árum hef ég tileinkað mér sparakstur.  Ég ek eins og leiðinlegu leigubílstjórarnir gerðu í gamla daga. Lengi að fara á ferðina. Lengi að hægja niður. Ek á jöfnum hraða. Best er að vera á 76 km. hraða en ég ek á tæplega 90 km. hraða til þess að verða síður drepinn af augnaráði og hugsunum hinna bílstjóranna sem vilja fram úr á hinum einbreiða vegi. Ég nota hraðaátómatið nema ég slæ það af í brekkum bæði brekkum upp og brekkum niður. Á ferðum mínum milli Höfuðborgarinnar og Þorlákshafnar stoppa ég í Litlu kaffistofunni til að slaka á frá spennu umferðarinnar.

 Á leið minni heim frá Prestastefnu hinnar evangelísku lúthersku þjóðkirkju í gær þar sem prestar börmuðu sér svo sem vera ber heilmikið út af vinnuálagi og dýrtíð reyndi ég í örvæntingu minni að spara sem mest við aksturinn þó ekki væri nema til þess að geta mögulega gefið fátækum einhverja smáaura og ég ók alveg sallafínan sparakstur og árangurinn samkvæmt hinni óskeikulu tölvu bílsins 3,5 lítra eyðsla miða við 100 km. akstur. Ég fór sem sagt frá Seljakirkju í Reykjavík austur í Þorlákshöfn á 1,7 lítra af olíu.  Ég er Gull og gersemi/Guði sjálfum líkur orti Sölvi Helgason að vísu um sig en ekki mig.  En vissulega sparaði ég þarna mikið gull.

Þetta var að vísu óvenju lítil eyðsla enda smá vindskotta í bakið en iðulega er ég nálægt þessu.  Þeir spilla aðeins fyrir manni sem eru sífellt í bakinu á manni og sýna engan skilning hvorki á orkubúskap heimsins eða fjármálum fjölskyldu minnar eða sinnar. Flestir virðast eiga næga fjármuni til að spreða út í andrúmsloftið. það er eins og þeir eigi olíufélögin.

Mér var strítt þegar ég var lítill og fjölskyldan átti Skoda. Skódi ljóti/spýtir grjóti sögðu krakkafíflin.  Nú segir ég stoltur Skódi flotti/spýtir gotti því að við ég og mín fjölskylda höfum efni á að stoppa í öllum sjoppum og kaupa allt það gott sem okkur langar í.  Öfugt við alla hina kjánana sem sperrast þetta áfram eins og þeir hafi bara bensínfætur en engin höfuð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég dauðöfunda þig af þessu tékkneska spartrölli. Ætla þó ekki að fjárfesta nema í strætókorti næsta haust, þar sem mér sýnist sá ferðamáti kosta mig sem samsvarar eina litla viðgerð á fjölskyldubílnum.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 09:45

2 identicon

Ert þú  kannski þessi sem var þvælast fyrir Ómari Ragnarsyni á 60 í Kömbunum?

Kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 18:18

3 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

..góður.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 14.6.2008 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband