Sunnudagshugvekjan: Er til kristið sjónarmið í máli Ramses og Rosemary?

Hvað myndi hið kristna sjónarmið vera í máli Paul Ramses sem vísað var til Ítalíu og Rosemary konu hans sem vísað verður til Svíþjóðar ásamt barni þeirra?  Samúðin með þeim sem er í vanda staddur ætti að vega ansi þungt. (Í gamla testamenntinu er það margbrýnt fyrir okkur að taka vel á móti útlendingum). Leiða má líkur að því að líf mannsins gæti verið í hættu. Það ætti að skipta verulegu máli. Hagur barnsins ætti að vega ansi þungt. Mér finnst of lítið tillit tekið til barna yfirleitt þegar fjallað er um hælisleitendur. Hið kristna sjónarmið væri hiklaust að reyna að bregðast við með þeim hætti að fjölskyldan gæti haldið saman. Þáttaka mannsins í hjálparstarfi í Kenya ætti að skipta máli. En við skulum einnig hafa það í huga að kristnir menn hafa löngum lagt blessum sína yfir það að reglur og lög væru nauðsynleg og ekki mætti láta hjartagæskuna hlaupa með sig í gönur. Viðurkennt er að furstinn, keisarinn (eða dómsmálaráðherrann) verði að halda uppi aga, festu og skikki í einu samfélagi til þess að mannlíf þar geti gengið bærilega fyrir sig og kærleikur sá sem Kristur boðaði fái notið sín. Tala má um nauðsyn þess að koma í veg fyrir óreiðu(kaos) með því að tryggja heildarreglu(kosmos).

Svo verður hver að meta fyrir sig hvað vegur þyngst í þessum efnum. Sjálfum finnst mér að hagur og réttur barnsins mætti vera í meiri miðpunkti í umræðunni.  Börn eiga sinn rétt.  Til eru sáttmálar um réttindi barna. Mér finnst of mikið gert úr fordæmisgildinu. Þetta mál er svo sérstakt á marga lund að það verður aldrei að beinu fordæmi fyrir önnur mál og hvað gerði það svo sem til þó að þeim fjölgaði eitthvað sem fengju hér hæli?

Síðan finnst mér þögn þjóðkirkjunnar og þjóna hennar athyglisverð.  Það er ekki nema röskur áratugur síðan að íslenska þjóðkirkjan tók þátt í því að fela flóttamann í kirkju.  Er allur vindur farinn úr kirkjunni? Það ætti að vera hlutverk kirkjunnar að halda uppi tilteknum sjónarmiðum.  Ekki endilega að taka afstöðu en að halda til haga eins og sagt er ákveðnum röksemdum og sjónarmiðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég var einmitt að hugsa þetta sama, sá leyndi áhugamaður um kristni og trú sem ég er, að þögn þjóðkirkjunnar í þessu máli er æpandi. Varðandi lög og reglur er það skýrt af útlendingalögum að mannúðarsnjónarmið, þegar þau eiga við, eru ekki andstæð lögunum heldur eru þau þar beinlínis áréttuð.

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.7.2008 kl. 17:01

2 identicon

Björn Bjarnason talaði mikið um kristilegt siðgæði í aðdraganda lagasetningar á grunnskólalögum, hélt því m.a. fram að það væri frumforsenda til að geta talist Íslendingur væri að vera kristinn. Þarna móðgaði hann bæði mig og stórann hluta þjóðarinnar. En talandi um kristið siðgæði og að henda þessum manni úr landi á sama tíma er hræsni og ekkert annað. Spurning hvort þetta er þetta kristilega siðgæði sem Björn Bjarnason er að tala um?

Valsól (IP-tala skráð) 6.7.2008 kl. 18:09

3 identicon

Hvar er Karl biskup, er hann ekki búinn að tala við Björn Bjarnason til að bjóðast að halda fjölskyldunni saman, svona í samræmi við stefnu kirkjunnar í fjölskyldumálum? Hvað hefði herra Ólafur heitinn gert, Baldur?

Getur verið að Þjóðkirkjan sé í löngu sumarleyfi?

En án gríns - að taka mál mannsins ekki til efnismeðferðar, láta formið standa af því að það má, vísar til móralsks gjaldþrots Dóms og KIRKJUmálaráðuneytis. Því miður.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 6.7.2008 kl. 18:09

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Mér dettur í hug frásögnin af því þegar Jesús læknaði á hvíldardegi. Þá var manngildið sett ofar lögmálinu um helgi hvíldardags. Við sem kristin þjóð mættum taka það til athugunar í þessu máli.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 6.7.2008 kl. 20:08

5 identicon

Skil ekkert í ráðamönnum þessarar þjóðar að veita ekki Ramses pólitískt hæli hér á landi.  Bara frá svona PR sjónarmiði myndi málið vera stórsigur ... fyrir Ramses, konu hans & barn, ríkisstjórnina og þjóðina.  En í staðinn er verið að hanga í einhverjar stofnanareglur og valdsorðaskaki.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 6.7.2008 kl. 23:33

6 identicon

Þakka þessa færslu. Fjölmargir prestar, guðfræðingar og kristið þjóðkirkjufólk hefur tjáð sig um þetta mál á vefsíðum og víðar og á eina lund, sýnist mér. Þar á meðal tveir - á undan mér - hér í athugasemdakerfinu. Kirkjan er ekki bara biskupinn. Vel má vera að hann sé í útlöndum, eins og margir um þessar mundir. Sjálfur setti ég inn fáein orð um málið á vefsíðu mína í morgun.  Ég vildi ekki síst vekja athygli á snjöllum pistli Atla Harðarsonar um málið og leggja eitthvaf af mörkum til að halda málinu vakandi.. Rétt er það að Gamla testamentinu verður tíðrætt um réttindi útlendinga, og það kom mér strax í hug í tenslum við þetta mál, en kærleiksboðskapur kristninnar ætti að nægja sem vegvísir í þessu máli. 

Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 15:15

7 identicon

Rétt er það, Gunnlaugur, að kirkjan er meira en biskupinn og gott að hún er sammála í þessu máli. Ég vil benda á að pistill Atla Harðarssonar er að finna hér.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 17:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband