Hvar er leiðtoginn? Hvar er stórmennið?

Kosturinn við þessar gríðarlegu sviðsetningar  og miklu ræður  er að draumar verða til. Menn og konur horfa fram háleitir og háleitar - horfa inn í framtíðina, túlka drauma sína, hrífa fólk með sér.  Ég er að tala um Bandaríkin sem eiga nú athygli okkar vegna flokksþings Demókrata.  Forsetaembætti Bandaríkjanna er öðrum þræði hugsað fyrir leiðtoga þjóðar sem stappar í hana stálinu, minnir hana á drauma hennar, drífur hana áfram, fær hana á góðum stundum til að gleyma fátæktinni, misskiptingunni, óréttlætinu og af og til koma fram menn sem berjast gegn óréttlætinu, færa þjóð sína fram á veginn. Forsetaembættið er öðrum þræði embætti draumanna. Við þyrftum svona embætti, við þyrftum svona menn og konur.  Hvar er okkar Barack Obama? Hver er okkar Hillary?  Gæti maður af afríkönskum uppruna orðið forsætisráðherra eða forseti hér? Gæti kona orðið forsætisráðherra hérlendis?  Hvar er leiðtoginn?  Hvar er manneskja draumanna?  Er hún kannski innilokuð á Bessastöðum?

Og hvar er stórmennið?  Voru Halldór Laxness og Sigurbjörn Einarsson, blessuð sé minning hans, síðustu stórmennin?  Er tími slíkra liðinn? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

"Það land er heillum horfið sem þarf á hetjum að halda" sagði Bert Brecht.

María Kristjánsdóttir, 29.8.2008 kl. 10:15

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Aldrei á ævi minni hef ég verið eins sammála og þessu sem hún María er að segja. Hetjur eru hálfvitar! En hér er reyndar ekki minnst á hetjur heldur drauma. Raunveruleg stórmenni eru sjaldgæf fyrirbæri eins og snilligáfan og heilu kynslóðirnar geta liðið undir lok án þess að þau láti á sér kræla. Þess vegna köllum við þau stórmenni þegar þau loksins birtast. Hins  vegar er enginn skortur á uppblásnum hetjum sem búnar eru til í múgmennsku fjölmiðla og áróðurs.

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.8.2008 kl. 12:59

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sem Brecht er að segja og María áréttar!

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.8.2008 kl. 13:01

4 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Eini kosturinn við að blogga er að maður heyrir stundum í gáfuðu og velhugsandi fólki. kv. B

Baldur Kristjánsson, 29.8.2008 kl. 13:55

5 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ekki vera að stríða okkur Sigurði, Baldur, við erum viðkvæm! 

En þetta með draumana- lifum við ekki í martröð sem einhvern annan dreymir?  

María Kristjánsdóttir, 29.8.2008 kl. 15:09

6 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Hver veit, nema lífið sé tölvuleikur einhverrar veru.  Einn daginn stendur hún upp og slekkur á tölvunni.......

Baldur Kristjánsson, 29.8.2008 kl. 15:20

7 Smámynd: Haukur Nikulásson

Baldur, ég hélt að þú værir prestur með bjargfasta trú á Biblíunni, Guði og Jésu? - Hvað er í gangi?

Haukur Nikulásson, 29.8.2008 kl. 17:21

8 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

 Ekkert má nú...

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 29.8.2008 kl. 17:56

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Eitt sinn konung átti þjóðin

einn er hæst bar sína skanka

Nú er hann að nýta sjóðinn

niðrí seðlabanka,

Ertu í nostalgíukasti Baldur minn?

Svanur Gísli Þorkelsson, 29.8.2008 kl. 19:59

10 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Athyglisverð pæling hjá þér Baldur. Mig langar að spinna við þetta. Hetjan er rómantískt fyrirbæri. Hún er auðvitað til að "smitast af" og þess vegna er hetjan stundum vafasöm, jafnvel hættuleg sbr. orð Bertholt Brecht.  

Ég held við séum afar tortryggin út í hetjur hér á skerinu amk í formi stjórnmálamanna en við sættum okkur við íþróttahetjur greinilega. En hvernig verða hetjur til ? Hetjur spretta upp úr draumum þjóðarinnar, markmiðum og athöfnum. Upp úr ákveðnum jarðvegi sem býr yfir vítamínum og snefilefnum: Örvun, mótstöðu, aðstöðu, hefð, sögu, sameiginlegum draumum, stuðningi, aðdáun osfv. Ef hugsunin er rangsnúin, sein eða vanfær á ákv sviði ( segjum td. vísindasviði), umræður litlar og sjálfsmyndin óraunsæ verða engar hetjur, bara klaufar. Afrekin lítil.

Íslendingar þurfa að huga að grunninum finnst mér, uppeldi ungviðis, menntuninni og umræðuhefðinni í samfélaginu. Þá spretta hetjur um héruð.

Guðmundur Pálsson, 29.8.2008 kl. 22:20

11 identicon

Hetjur eru enn til og verða meðan maðurinn lifir.  

Líka þar skjátlaðist Berthold Brecht. 

Okkur Íslendinga kann að  vanta eina hetju nú um stundir (eftir lát séra Sigurbjörns?) sem  við öll getum sameinast um en hún Vigdís okkar telst nú ansi líkleg sem slík. 

Íþróttamenn og listamenn eru oftast líklegir til að ná hátt á hetjuskalanum, tökum sem dæmi þá Ólaf Stefánsson  og Eið Smára nú og Völu fyrir nokkrum árum og Björk og Sigur-rós í tónlistinni. 

Allir Íslendingar eigi sér hetju (r) þótt nú sé etv. engin ein sem ótvírætt getur talist þjóðarhetja allra etv. að Vigdísi undanskildri.    

Hetjan finnst í fjölskyldunni, vinahópnum, vinnunni, skólanum, starfsgreininni, sveitinni,  landshlutanum og ímyndaðar hetjur eru til í bókmenntum, kvikmyndum, á netinu osfrv.. 

Hvar byrjar hetjan  og á hún sér einhver stærðarmörk?

Ég held að fyrsta hetja allra sé móðirin og hún endist okkur flestum meðan við lifum.

Sagði fyrrnefndur Ólafur ekki; finndu hetjuna í sjálfum þér?

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 08:49

12 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Bara ein athugasemd frá háöldruðum málfarspervert: Vinsamlega hættu að tala um „menn og konur" -- eins og konur séu ekki menn. Þetta hafa þær tekið inn í sig með því að reyna að kvenkenna heiti þeirra starfa sem þær gegna (flest minnir mig, nema hjúkrunarfræðingur). Ef þú og aðrir sem tekið er eftir temduð ykkur að segja „karlar og konur" myndi þessi firra kannski renna af þeim, blessuðum.

Sigurður Hreiðar, 30.8.2008 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband